Í þessum pistli verður það ekki rifjað upp að 10 ár séu frá hruni. En það verður hins vegar gert að umtalsefni að um fjögur ár eru nú frá því að flóðgáttir opnuðust fyrir góðæristíma á Íslandi.
Stundum er ekki allt sem sýnist í fyrstu.
Í frábærri bók Steven Lee Myers, New Tsar, þar sem hann rekur feril Vladímir Pútín, Rússlandsforseta, og ýmsar væringar í alþjóðastjórnmálum, er meðal annars fjallað um hvernig hinn vestræni heimur brást við þegar Rússar voru að ryðjast með herafli inn í Austur-Evrópu í gegnum Úkraínu.
Á Íslandi birtust þessar aðgerðir meðal annars í því að útgerðir á Íslandi voru ósáttar við að koma ekki vörum sínum á markað í Rússlandi, einkum makríl, vegna innflutningsbanns sem Rússar settu á Ísland og fleiri ríki. Það var mótleikur Rússa við viðskiptaþvingunum alþjóðasamfélagsins. Gunnar Bragi Sveinsson, þá utanríkisráðherra og nú þingmaður Miðflokksins, barðist fyrir pólitísku lífi sínu um tíma vegna þessa máls.
Erfitt að ímynda sér ógnina
Hörmungarnar á Krímskaga verða líklega aldrei nógu nærri manni, svo maður geti skilið þær, en eitthvað segir manni þó, að það veki ugg - svo ekki sé fastar að orði kveðið - þegar rússneski björninn belgir sig með hervaldi gagnvart nágrannaríkjunum. Í seinna stríði fóru fáar þjóðir, hlutfallslega, verr út úr því en Eystrasaltsríkin. Lettland og Litháen misstu til að mynda meira en fjórðung íbúa og hryllingur kúgunar og ofbeldis náði yfir næstum því tvo áratugi, sitt hvoru megin við stríðstímann. Ógnirnar voru bæði úr austri og vestri þá.
Viðbrögðin í Finnlandi og Svíþjóð, við brölti Rússa, hafa líka verið merkileg. Meiri áhersla er nú lögð á hernað í þessum nágrannalöndum okkar og sviðsmyndir af mögulegri innrás Rússa hafa verið teiknaðar upp og um þær fjallað opinberlega.
Vestrið gegn Rússum
Í bók Myers, sem skrifuð er á miklum umrótartímum, samhliða átökum á Krímskaga og umræðu um vaxandi stafrænan hernað Rússa í Bandaríkjunum, kemur fram að meðal þess sem Obama beitti sér fyrir, var að fá OPEC olíuframleiðsluríkin til liðs við Bandaríkin og hinn vestræna heim í baráttu við Rússa.
Hinir digru sjóðir Sádí-Arabíu, meðal annarra, voru notaðir óbeint, til að senda skýr skilaboð til Rússa. Obama lagði líka mikla áherslu á það að hafa Angelu Merkel, leiðtoga Þýskalands og vestræna hluta Evrópu, þétt með sér í þessari refskák.
Hvað gerðist þegar þetta viðskiptastríð gagnvart Rússum magnaðist upp?
Í lok árs 2014 hrundi olíuverð á heimsmörkuðum, samhliða því að viðskiptabönn tóku gildi gagnvart Rússum. Verðið sveiflaðist ekkert lítið, heldur var um gríðarlega mikla og snögga dýfu að ræða. Verðið fór úr 110 Bandaríkjadölum á tunnuna af hráolíu, síðari hluta árs 2014, niður í 25 Bandaríkjadali á tunnuna í byrjun árs 2016. Efnahagur Rússa snarminnkaði, um næstum 7 prósent í landsframleiðslu mælt, og olíuiðnaðurinn í landinu komst í vanda á skömmum tíma.
Verðsveiflur olíu er vel þekktar í gegnum söguna og hagsveiflur landa eru nátengdar henni, eins og dæmin sanna. Bandamenn Bandaríkjanna í Sádí-Arabíu réðu vel við þetta, og létu ekki undan þrýstingi - meðal annars frá Rússum - um að draga úr framleiðslu til að hækka verðið, skapa nýjan jafnvægispunkt milli framboðs og eftirspurnar. Rússneskur efnahagur fékk á sig bylmingshögg og það dró úr ógninni af herbröltinu. Eftir því sem leið á, var farið að huga að aðgerðum til að draga úr framleiðslu. En ekki fyrr en rússneski björninn var laskaður.
Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í pistli sem hann skrifaði í Washington Post í maí í fyrra, að viðskiptaþvinganirnar gagnvart Rússum - á mikilvægum tíma fyrir átökin á Krímskaga - hefðu virkað vel. Pútín hefði vonandi lært þá lexíu - sem sagan kennir okkur - „að innrásir í lönd væru ekki góð leið til að eignast vini“.
En höggin voru líka þung fyrir mörg önnur ríki. Til dæmis Norðmenn og þá ekki síst Íslendinganýlendusvæðið í Rogalandi, þar sem höfuðstöður olíuveldisins í Noregi er, Stavanger. Hagkerfið snöggkólnaði þar, fasteignaverð lækkaði, norska krónan snöggveiktist og samdráttarskeið tók við. Íslendingar hófu þá í meira mæli að flytja heim.
Nú er öldin önnur, með stighækkandi olíuverði og auknum þjónustuumsvifum. Rogaland er auðvitað örsvæði í alþjóðlegu samhengi, en það er samt svipað fjölmennt og Ísland. Það segir sína sögu.
Hræðslan við Merkel
Í bók Myers er Pútín sagður vera hræddur við einn stjórnmálamann, öðrum fremur. Það er Merkel. Hún mætti honum ein á fundum, eins og hún er sögð gjarnan gera. Talaði rússnesku reiprennandi og réð við sjálfstæðar greiningar á öllum viðfangsefnum. Hún er eðlisfræðingur og stærðfræðingur að mennt, og var hlaðinn verðlaunum allan sinn námsferil, sem meðal annars teygði sig um tíma til Rússlands. Það sem hræddi Pútín mest var það að hún þekkti hugsunarháttinn í Austur-Evrópu, að því er hann sagði trúnaðarfólki sínu, sem Myers fjallar um. Merkel var árið 1989 talsmaður lýðræðissinna í Austur-Þýskalandi og eignaðist óvini í gömlu sovétblokkinni á þeim tíma.
Obama var klókur að festa sig við hana, á þessum tíma. Og þetta skipti máli fyrir Ísland. Hann lýsti henni sem nýjum leiðtoga hins frjáls heims, eins og frægt varð, eftir að Trump hafði unnið kosningarnar í Bandaríkjunum, í nóvember 2016.
Ísland hagnaðist á „bylmingshöggi“ gagnvart Rússum
Á þeim tíma þegar olíuverðið hrundi skyndilega var efnahagur Íslands tekinn að vaxa og kom þessi hraða olíuverðslækkun eins og himnasending inn í hagkerfið.
Flugfélög voru í mun betri stöðu til að bæta við leiðum og koma þannig Íslandi enn frekar inn á ferðaþjónustukortið í heiminum. Óhætt er að segja að vöxtur í ferðaþjónustunni hafi ýtt undir vöxt á Íslandi almennt. Á árunum 2014 til 2017 fjölgaði árlegum komum ferðamanna til Íslands um meira en 100 prósent. Tæplega 960 þúsund komu til landsins 2014 en um 2,2 milljónir árið 2017. Mesta vaxtarskeið ferðaþjónustunnar var á þessu tímabili hraðlækkandi olíuverðs.
Þetta gjörbylti íslenska efnahagnum, enda stærðirnar miklar fyrir ríki sem er aðeins með um 200 þúsund manns á vinnumarkaði. Fjármagnshöft leiddu líka til þess að miklir peningar voru í hagkerfinu sem kyntu undir eignaverði og almennum uppgangi. Mesta fasteignaverðshækkun í heiminum var á Íslandi á þessum tíma og mældist mest 23 prósent á vormánuðum í fyrra. Betur gekk líka að hemja verðbólgudrauginn þegar olían féll.
Ógnir uppsveiflunnar
Olíuverð hefur hækkað hratt að undanförnu og það hefur leitt til þrenginga í hagkerfinu á Íslandi. Flugfélögin eru í vandræðum, eins og fall Primera Air er til marks um. Icelandair og WOW Air, sem eru saman með 80 prósent markaðshlutdeild á Keflavíkurflugvelli, eru bæði að glíma við erfitt rekstrarumhverfi og fátt bendir til annars en að þannig verði það áfram. Hagræðing er í kortunum og einhver kólnun í ferðaþjónustunni. Þróun olíuverðsins er þarna í lykilhlutverki.
Það er í takt við valdabröltið í alþjóðastjórnmálunum undanfarin ár, að meginorsökin fyrir hækkun olíuverðsins er af mörgum talin vera stefnubreyting Donalds Trumps í málefnum Írans. Viðskiptaþvingunum er nú beitt og Íransamkomulagið, sem átti að draga úr ógn kjarnorkuvopna, hefur verið sett ofan í skúffu.
Olía frá Íran kemst ekki á markað og því hækkar verðið. Trump er sagður hringja í Salman Arabíukónung og heimta aukna framleiðslu, til að lækka olíuverð. Pútin sjálfur, lét hafa eftir sér í gær, samkvæmt frásögn PBS, að ástæðan fyrir verðhækkuninni væri augljósa Bandaríkjunum að kenna, vegna stefnubreytingarinnar gagnvart Íran.
Þessi stefnubreyting er nú að reynast Íslandi illa. Eins og dæmin sanna þá skipta straumar og stefnur í alþjóðastjórnmálum miklu máli fyrir Ísland og það á svo sannarlega við um það tíu ára tímabil sem liðið er frá falli fjármálakerfisins. Framundan eru krefjandi ár þar sem meðal annars mun reyna á kænsku íslenskra stjórnvalda við að greina áhrifin af tollastríði Bandaríkjanna og Kína.