Eftir áhorf á ráðstefnu sem Jafnréttisstofa hélt sat ég þungt hugsi. Yfirsást mér eitthvað hugsaði ég! En hvað? Eftir ígrundun sá ég það. Frásagnir karlmanna og feðra vantaði um ofbeldið sem þeir verða fyrir í tengslum við skilnað og forsjármál.
Umræður um þann óskapnað þegar faðir er ranglega sakaður um ofbeldi, af hvers konar tagi og afleiðingar, vantaði. Feður hafa mátt þola falskar kærur um kynferðisofbeldi gegn börnum sínum en Jafnréttisstofu fannst ekki tilefni til að ræða það. Er það ekki ofbeldi sem tengist skilnaði? Feður hafa mátt þola ólögmætar tálmanir, annað tveggja að hluta eða algerar. Jafnréttisstofa sá enga ástæðu til að ræða úrræðaleysið og ofbeldið sem í því felst. Jafnréttisstofu fannst ekki ástæða til að ræða um eftirköst barna og foreldris af tálmunarofbeldi.
Tálmun er þegar þú á einhvern hátt minnkar þann tíma sem barn á að vera með umgengnisforeldri sínu, klukkustund, hluti úr degi eða barni alfarið haldið frá foreldri sínu. Tálmun er ofbeldisverk sem bitnar á barni. Ekki orð um það. Þrátt fyrir umræður um málaflokkinn horfir Jafnréttisstofa fram hjá honum þegar ofbeldi er annars vegar. Skilgreint ofbeldi eður ei, viðurkennt vandamál eftir skilnað. Barn notað sem skjöldur og vopn. Ekki orð um það!
Í umræðuna vantaði þegar barn er notað sem gjaldmiðill, sérstaklega þegar meðlag og framfærsla er rædd í tengslum við skilnað. Margir forsjárlausir feður eiga varla til hnífs og skeiðar eftir skilnað. Þeir borga meðlag, leigja húsnæði til að taka á móti börnum sínum en fá engar barnabætur eða þiggja aðrar bætur sem ætlaðar eru börnum. Í einhverjum tilfellum eiga þeir líka að útvega föt og annað sem börnin þurfa á að halda þegar umgengnin á sér stað. Þetta er hópurinn sem talinn er búa við mesta fátækt. Jafnréttisstofu fannst engin ástæða til að ræða það. Hverju skyldi það sæta?
Jafnréttisstofa tók ekki fyrir þann vanda sem meðlagsgreiðendur eru í og reglur samband íslenskra sveitarfélaga gagnvart þeim. Skert lífsgæði barna meðlagsgreiðanda. Ekki orð um það!
Ég vil ekki gera lítið úr þeim málefnum sem rædd voru á ráðstefnunni en hins vegar kom fátt nýtt fram sem alþjóð ekki veit.
Starfsmönnum Kvennaathvarfsins var gefið mikið pláss í ráðstefnunni og þegar svo er verður málaflokkurinn einsleitur eins og raunin varð.
Eina erindið sem tengdist karlmönnum var um hvar þeir geta leitað sér hjálpar eftir ofbeldið. Það er vel og erindið gott. Þar koma fram að meirihluti karla sem leita sér hjálpar verða fyrir ofbeldi heima fyrir, gagnkvæmt ofbeldi eins og sálfræðingurinn sagði. Hvað með konur hvert leita þær til að ,,læknast“ af ofbeldishneigðinni? Kvennathvarfið? Konur beita ofbeldi jafnt á við karla, annars konar ofbeldi, og það virðist meinloka að viðurkenna það ekki. Jafnvægi kemst ekki á málaflokkinn fyrr en við viðurkennum slíkt. Jafnréttisstofa brást á þessari ráðstefnu, kynjahallinn var of mikill.
Þáttastjórnendur Kverkataks féllu í sömu gryfju. Mikill kynjahalli. Á ráðstefnunni sagði annar þáttastjórnandinn frá að fjórði þátturinn átti að fjalla um gerendur. Þeir vildu tala við geranda sem hafði viðurkennt brot sitt og hefði leitað sér hjálpar. Þau fengu engan. Þáttastjórnandinn sagði það ekki en á milli línanna mátti heyra að leitað var eftir karlmanni. Aðkoma karlmanna að þáttunum, fyrir utan að vera gerendur í þeim 2 málum tekin voru fyrir, var engin. Gefa átti alþjóð innsýn í málaflokkinn. Nei það gerðist ekki, hann fjallaði um ofbeldi gegn konum. Í erindinu kom í ljós að þáttastjórnendur leituðu til þeirra samtaka sem hýsa konur og ekki við öðru að búast en einsleitum þáttum.
Vil enn á ný ítreka, vert að ræða málefnið en við þurfum að fá víðsýnna fólk til að ræða um málaflokkinn í heild sinn.
Kannski á Jafnréttisstofa eftir að halda ráðstefnu þar sem vandamál, ofbeldi, hindranir og úrbætur þar sem sjónum er beint að karlmönnum og börnum. Best er þó að málefnin séu rædd í sem víðasta skilningi, ekki með kynjahalla.
Höfundur er grunnskólakennari, móðir og amma.