Ég á mér sögu, eins og ótal aðrir einstaklingar, sögu um gróft einelti í skóla. Ég vil segja mína sögu til þess að hún geti kannski orðið einhverjum til hjálpar. Einelti er og verður samfélagsmein sem kostar okkur ofboðslega mikið. Einstaklingar fá ekki tækifæri til þess að þroskast, fara út í lífið með hugmyndir um hegðun sem kemur þeim í koll síðar meir. Í einelti er engin sigurvegari. Í einelti tapa allir og það eru í reynd allir þolendur, ef ekki þolendur eineltis þá þolendur þess að ekki er rétt brugðist við.
Atvikin voru mörg og ég gæti aldrei skrifað tæmandi lista yfir þau atvik á tíu ára skólagöngu. Einna helst voru atvikin á þann veg að aðrir voru að upphefja sjálfa sig með því að gera lítið úr mér. Allt sem ég gerði eða sagði var tekið úr samhengi og þótti fáránlegt heimskulegt eða asnalegt. Þess konar hegðun var fyrir sumum í mínum árgangi bara viðtekin venja og í reynd eðlileg fyrir þeim.
Ég átti góða leiksskólagöngu og gott fyrsta ár í grunnskóla. En í öðrum bekk kom nýr kennari sem því miður fylgdi okkur alltof lengi. Þessi kennari var í reynd fórnarlamb samskipta við nemendur í bekknum. Sem kennari var viðkomandi ekki betri en svo að börnin höfðu hann undir í samskiptum og í reynd má segja að þeir sterkari í árganginum hafi í reynd lagt hann í einelti. Það var því engin von að þeir sem voru ekki sterkir félagslega ættu mikla von við þessar aðstæður. Þar að auki er virkilegt athugunarefni hvers vegna heilum árgangi var boðið upp á slíkar aðstæður í heil 5 ár.
Ég man eftir atvikum þar sem var kerfisbundið gert lítið úr mér, ég þótti asnalegur, vitlaus og heimskur. Í reynd töluðu ákveðnir einstaklingar innan hópsins aldrei, þessi tíu ár, öðruvísi til mín en til þess að gera lítið úr mér. Meira að segja þegar við vorum bara tveir þá kunnu þeir ekki að láta öðruvísi. Þeir upphófu sjálfan sig á minn kostnað, jafnvel þótt ávinningurinn væri engin.
Ég man eftir ofbeldi, raunar gerðist það oft að einhver sat fyrir mér eftir skóla til þess ýmist að gera lítið úr mér eða hreinlega beita mig ofbeldi. Ég var því hræddur við innganga skólans. Mér hryllti hreinlega við tilhugsunina við hvað biði mín handan við dyrnar, handan við hornið. Svo langt gekk þessi fælni að ég hræddist sérstaklega einn inngang. Inngangurinn var með veggjum beggja vegna þannig að svæðið kringum hann var alltaf hulið. Ég var alltaf viss um að hinu megin við vegg biði mín einhver til þess ýmist að níðast á mér með orðum eða hnefum. Svo djúp er þessi hræðsla að þegar ég átti leið um þennan inngang fyrir skömmu rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds. Ég hræðist þennan stað enn þann dag í dag, 20-30 árum síðar.
Fyrir utan hefðbundið einelti voru nokkur stærri atvik. Ég man eftir útmíginni úlpu í klósetti, þjófnuðum ýmis konar á dótinu mínu og svo framvegis. Alltaf var látið vita. Viðbrögðin voru á ýmsa vegu. Ýmist var gert lítið úr, málamyndatilsögn látin nægja sem allir vissu að gerðu ekki nokkurn skapaðan hlut. Einn aðili gerði daglega lítið úr mér og níddist á mér með orðum en hans megin voru engar afleiðingar, ekkert gert, aldrei á skólagöngunni.
Kostulegustu viðbrögðin voru þegar upphófst einhvers konar sakamálarannsókn þar sem orðum mínum var stillt upp gegn orðum gerandans og ég á einhvern hátt gerður ábyrgur fyrir minni lýsingu á atvikinu. Jú það var ábyrgðarhluti þegar gefið var í skyn að ég væri að ljúga þessu öllu. Þá skömm fékk ég margoft að ég væri einfaldlega að búa þetta til og að ljúga upp á strangheiðarlega einstaklinga. Skólastjórinn komst meira að segja einu sinni að þeirri niðurstöðu að útmigna úlpan í klósettinu hefði einfaldlega verið mér að kenna. Ég hefði með einhverjum hætti unnið mér þetta inn. Nánari útskýring fékkst hins vegar ekki á því hvernig ég hafði gert það en hún fæst líklega ekki úr þessu.
Fáir voru nokkurn tímann til í að aðstoða mig. Þó voru atvik þar sem einhver tók minn málstað. Á seinni hluta skólagöngunnar voru dæmi um að framkoma gagnvart mér gekk svo fram af öðrum nemendum að þeir gengu á fund kennara og lýstu ástandinu. Þó svo að árangurinn hafi verið lítill enda eftir margra ára endurtekna neikvæða hegðun í minn garð var skaðinn fyrir löngu skeður verð ég þessum samnemendum mínum ævarandi þakklátur. Á þeim tímapunkti kunni ég þó hreinlega ekki að taka á móti hjálparhendinni, enda fyrir löngu orðinn heftur félagslega eftir langvarandi einelti. Ég verð þó ævinlega þakklátur þessum samnemendum. Það er hreint ekki svo lítið að fá rétta hjálparhönd þegar maður er kominn í aðstöðu eins og ég, löngu brotinn og beygður eftir áralangt andlegt ofbeldi.
Einelti markar djúp spor í einstaklinga. Alveg eins og þegar fólk sker sig á fingri þá jú grær það en eftir situr ör. Ör á sál hafa áhrif á og móta einstaklinga. Mín sál er alsett örum eftir áralangt andlegt og líkamlegt ofbeldi. Í einelti tapa allir, gerandinn er ekki betur settur en þolandinn. Gerandi í einelti kemur oft einfaldlega af brotnu heimili og einelti er skýr birtingarmynd þess að viðkomandi líði fyrir eitthvað. Börn fæðast ekki vond og þau gera ekki slíka hluti nema af ástæðu.
Mín saga er þyrnum stráð þar sem reynt var að fela það sem ekki var til fyrirmyndar, hlutum var sópað undir teppið og látið sem þeir væru ekki til. Öll viðbrögð miðuðust við það að láta sem ekkert væri að og ekkert mátti skyggja á þá glansmynd sem búin var til af starfsmönnum skólans. Þessi skóli reynir eins og margir aðrir skólar að sýna að þetta sé metnaðarfullur og góður skóli þar sem ekkert er að og ekkert kemur upp á.
Margir skólar reyna að gera sitt til þess að vekja athygli á sér og sínu. Þeir standa fyrir verkefnum, þemadögum, taka þátt í skólahreysti, halda leiksýningar sem auglýstar eru í bæjarblöðum til þess bæði að sýna frambærilega nemendur og frambærilega skóla. Þetta er allt gott og blessað en hvað með þá sem ekki eru góðir íþróttamenn og ekki taka þátt í skólahreysti? Eru þeir ekki til? Hvað með þá sem eru ekki félagslega sterkir og taka ekki þátt í glansleiksýningum??? Eru þeir ekki partur af ímynd skóla? Eru þeir og þeirra staða, þeirra líðan ekki mælikvarði á frammistöðu skóla? Ég er alls ekki á móti þessum viðburðum og alls ekki á móti skólahreysti en þetta er samt sem áður ekki mælikvarði á það hversu góðir eða slæmir skólar eru.
Gæði starfsmanna og skóla kemur fyrst í ljós þegar eitthvað bjátar á. Mín saga er full af röngum viðbrögðum og jafnvel skammarlegum viðbrögðum. Hvað er það annað en skammarlegt þegar barn hrópar á hjálp vegna eineltis og vanlíðunar en ekki er hlustað, gert lítið úr eða jafnvel sagt að barnið eigi þetta skilið. Nei við tökum af skarið, alltaf.
Starfsmenn skóla mega aldrei líta undan af ótta við aðstæður, aldrei þora ekki að taka af skarið. Saga mín er mörkuð af engum viðbrögðum eða ótta við það hvað gerðist ef starfsmenn gerðu of mikið. Í fyrsta lagi þarf ekki að fara í leikinn „hann segir“ og „hinn segir“. Fyrsta spurning við svona atvikum er: „hvað getum við gert til að koma í veg fyrir þau“. Hvað getum við gert þannig að aðstæður þær sem leiða til atvika komi ekki til. Við þurfum að vera hjá börnum til þess að leiðbeina, koma í veg fyrir það sem við getum og aðstoða þegar á þarf að halda.
Höfum í huga að þegar einelti viðgengst þá er ekki aðeins þolandinn svikinn um aðstæður til þess að fá að njóta sín og þroskast sem einstaklingur heldur er gerandinn líka svikinn um aðstoð. Skólar hafa gríðarleg áhrif á félagsmótun einstaklinga og engum er greiði gerður með því að mótast við rangar aðstæður, gerandi hluti sem eru hreint ekki í lagi og fá ekki aðstoð vegna þess sem þeir glíma við. Í einelti tapa einfaldlega allir. Aldrei að gera ekki neitt. Það er betra að starfsmaður sýni of mikil viðbrögð en engin viðbrögð. Bregðumst alltaf þannig við að enginn þurfi að fara út í lífið með sár á sálinni sem seint eða aldrei gróa.