Þó stærsta frétt miðkjörtímabilskosninganna í Bandaríkjunum sé sú að Demókratar hafi unnið meirihluta í fulltrúadeildinni þá sýnir útkoman að Repúblikanar eru með sterka stöðu víða og hafa ágæta möguleika til að tryggja áframhaldandi valdatíð Donalds Trumps í kosningunum 2020.
Af hverju er það og hvað þýðir útkoman í kosningunum?
Valdajafnvægið er breytt
Með því að ná meirihluta í fulltrúadeildinni geta Demókratar stöðvað umdeildustu stefnumál Trumps. Þetta hefur verið hægt frá því Trump tók við völdum í byrjun árs í fyrra, þar sem Repúblikanar hafa verið með meirihluta í fulltrúadeildinni (435 sæti) og öldungadeildinni (100 sæti). Til þess að ná lagabreytingum í gegn þarf samþykki beggja deilda. Framundan er því mikil refskák í bandarískum stjórnmálum þar sem búast má við því að Demókratar nýti óspart réttinn til að stöðva mál. Samningaviðræður milli flokkanna verða líka erfiðar í ljósi algjörs vantrausts á milli flokkanna í þinginu. Búast má við því að Demókratar nýti sér stjórnskipulegt vald meirihlutans í fulltrúadeildinni og láti kalla eftir skattagögnum Trumps og eftir atvikum öðrum gögnum sem geta svipt hulunni af fjármálum hans.
Repúblikanar með sterka stöðu
Þrátt fyrir sigur Demókrata í fulltrúadeildinni þá geta Repúblikanar að mörgu leyti vel við unað. Óhætt er að segja að mikil harka hafa verið í stjórnmálunum frá því Trump tók við, enda hefur hann sett á oddinn algjörlega fordæmalausan málflutning, þar sem hann skeytir engu um hvað er satt og rétt og kallar fjölmiðlana sem spyrja spurninga „óvini fólksins“. Þetta hefur, þrátt fyrir allt, ekki leitt til fylgishruns hjá honum, raunar öðru nær. Miðkjörtímabilskosningarnar voru mikill prófsteinn á þetta, þar sem Repúblikanar voru með kastljósið á Trump og stefnu hans alla kosningabaráttuna. Það var mikilvægt fyrir flokk forsetans að vinna í Flórída, Texas og Ohio, en að vísu vonbrigði fyrir Repúblikana að tapa í Nevada.
Ríkisstjórarnir marka kjördæmalínurnar
Ríkisstjórakosningarnar komu nokkuð vel út fyrir Demókrata en það er afar mikilvægt að vinna ríkisstjórastöðurnar í Texas og Flórída, fyrir kosningarnar 2020. Eins og hið pólitíska landslag hefur þróast í Bandaríkjunum undanfarin ár þá er afar mjótt á munum milli flokkanna, og getur kjördæmaskipan innan ríkjanna ráðið miklu um úrslitin á landsvísu. Búast má við því að Repúblikanar nýti sér þetta til hins ítrasta, og Demókratar líka þar sem þeir eru við völd.
Elítan á Vesturströndinni
Eitt sem fólk verður að fara venja sig á: Dallas, Houston, Austin og El Paso eru ekki lengur neitt Repúblikanasvæði, eins og þau voru á árum áður. Öðru nær. Demókratar eru þarna með vígi, eins og reyndin er reyndar á flestum stærstu borgarsvæðum Bandaríkjanna. Í þessum kosningum kom líka enn betur í ljós en áður að 50 milljóna svæði Vesturstrandar Bandaríkjanna, í Kaliforníu, Oregon og Washington, er hálfgerður innsti kjarni Demókrata. Sterk staða þar, inn í fyrirtækjaelítu Bandaríkjanna. Það virðist blasa við að sá sem ætlar að verða forsetaefni Demókrata 2020 þarf blessun elítunnar af þessu svæði.
Gjá milli borga og dreifbýlis
Viðhorfsgjáin milli borgarsvæða og dreifbýlis sést glögglega í kosningunum. Demókratar eru með sterka stöðu í borgum, og styrktu verulega stöðu sína í úthverfunum sömuleiðis, og fengu fleiri atkvæði þar en Repúblikanar, ólíkt því sem var uppi á teningnum í kosningum 2016. En þegar komið er lengra út fyrir borgarsvæðin þá eru Repúblikanar með sterkari stöðu og einkum Trump sjálfur. Þar virðist fólkið sjá Trump sem sinn mann, hvað sem líður harkalegum deilum og misgáfulegum eða réttum yfirlýsingum hans. Jafnvel neikvæð áhrif tollastríðs, til dæmis fyrir bændur í miðríkjunum, bíta lítið á fylgi forsetans. Flestir álitsgjafar eru þó á því, að það sem helst vinni með Trump og Repúblikönum nú séu sterkar hagtölur, þegar á heildina er horft. Atvinnuleysi mælist nú 3,7 prósent og hagvöxtur hefur verið viðvarandi milli 2 og 4 prósent milli ársfjórðunga. Trump minnist á þetta óspart á fjölmennum fundum sínum. „Efnahagurinn hefur aldrei staðið betur,“ segir hann.
Var einhver blá alda?
Sást einhver „blá alda“ Demókrata (Blue wave) í þessum kosningum? Já og nei, segja flestir greinendur hér. Í fyrsta lagi voru væntingar margra Demókrata þær að flokkurinn gæti unnið bæði fulltrúadeildina og öldungadeildina. En það varð fyrir þó nokkru ljóst, að slíkt væri ekki í kortunum. Það sem helst má segja að sé blá alda er mikil endurnýjun í röðum forystufólks Demókrata. Þannig komu konur vel út úr kosningunum og eru þær nú fleiri en 20 prósent af heildarfjölda fulltrúadeildarinnar. Yngsta þingkonan, hin 29 ára gamla Alexandria Ocasio-Cortez frá New York, vakti mikla athygli og þykir líkleg til frekari afreka innan flokksins. Þarna sést glitta í nýja „bláa öldu“; ungt fólk með ólíkan bakgrunn kemst til metorða og vill láta til sín taka. Demókratar leita að leiðtoga og hann gæti komið úr þessum nýja öfluga hópi ungs fólks þegar kemur að kosningunum 2020.
In all fairness, Nancy Pelosi deserves to be chosen Speaker of the House by the Democrats. If they give her a hard time, perhaps we will add some Republican votes. She has earned this great honor!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 7, 2018
Dauður kjörinn fulltrúi
Eitt óvæntasta afrek þessara kosninga verður að teljast sigur Dennis Hof í 36. kjördæmi í Nevada. Hann hafði betur gegn Demókratanum Lesiu Romanov, með 68 prósent atkvæða. Hof hafði mikinn stuðning Repúblikana, einkum trúrækinna, hvítra karla, og það dugði til sigurs. Sigurinn er helst merkilegur fyrir þær sakir að Hof dó 16. október síðastliðinn eftir tveggja daga afmælispartý. Hann var 72 ára þegar hann lést en var þekktur í sínu nærsamfélagi fyrir partýlíferni og að reka vafasama nektarstaði. Hann er einnig höfundur bókarinnar The Art of The Pimp. Hof er sem sagt kjörinn fulltrúi núna þrátt fyrir dauðann. Framhaldið á hans pólitíska ferli er óráðið nú þegar hann er rétt að hefjast. Eins og oft er sagt: Allt getur gerst í stjórnmálum.