Nú í dag er vitað að börn mótast gríðarlega mikið af umhverfi sínu. Flestir eru orðnir meðvitaðir um það og gagnrýna það sem börnum er boðið upp á og má þar nefna; leikföng, bækur, klæðnaður, auglýsingar og barnaefni. Flest börn horfa að einhverju leyti á barnaefni og því er mjög mikilvægt að það sé vandað, sendi góð skilaboð og stuðli að jákvæðum þroska. Fljótt á litið virðist sumt barnaefni þó enn ýta undir hefðbundnar staðalímyndir og kynjahlutverk og oft hafa skapast umræður um það meðal foreldra og annarra sem ekki eru sátt við það. Sem dæmi má nefna Hvolpasveitina sem er afar vinsæll þáttur hjá börnum en gagnrýndur af mörgum vegna þess að af öllum sjö hvolpunum er aðeins einn kvenkyns og er hún alltaf klædd í bleikt. Þetta er dæmigerð birting staðalímynda kynjanna sem er svo algeng í barnaefni.
Út frá vangaveltum mínum um kyngervi kviknaði forvitni um að skoða barnaefni hér á Íslandi og þá aðallega hvernig útlit, hegðun og hlutverk koma fram hjá kynjunum. Staðalímyndir kynjanna hafa mikil áhrif á kyngervismótun á þann hátt að börnin hegða sér eins og þau hafa séð að sé viðurkennd hegðun fyrir þeirra kyn. Þau spegla sig við það, ætlast til ákveðinnar hegðunar frá gagnstæðu kyni og nota skilaboðin sem samfélagið sendir þeim í leik sinn. Börnin fá send þau skilaboð að þau eigi að líta út og haga sér á ákveðinn hátt og eftir að þau hafa séð þau skilaboð aftur og aftur allt í kringum sig fara þau að fylgja þeim eftir.
Ég ákvað því að skoða barnaefnið á ríkissjónvarpinu í eina klukkustund, ástæðan fyrir því að RÚV varð fyrir vali mínu er vegna þess að efnið er aðgengilegt öllum og því líklega með mikið áhorf. Á þeim klukkutíma horfði ég á þættina; Kúlugúbbarnir, Manni meistari, Froskur og vinir hans, Hinrik hittir og Molang. Þá tók ég eftir ýmsum sterkum staðalímyndum og það sama á við um kynjahlutverk. Dæmi um það má nefna þættina Kúlugúbbarnir og Manni meistari. Í Kúlugúbbunum voru aðalhlutverkin hlutfallslega jöfn milli kynja en í Manni meistari voru strákar í meirihluta. Staðalímyndir um hegðun og útlit stráka og stelpna koma fram í báðum þáttum. Til dæmis voru strákarnir iðulega klæddir dökkum litum á meðan stelpurnar klæddust ljósum og Manni meistari er vinnumaður á meðan flestar konurnar unnu í búð eða bakaríi. Í Kúlugúbbunum var þó minna um kynjahlutverk þó hægt væri að sjá konu í foreldrahlutverki.
Eftir að hafa horft á barnaefnið sá ég að það er greinilegt að hér á landi er barnaefnið frekar kynjað og því tel ég íslenskt barnaefni hafa mikil áhrif á kyngervismótun barna. Börn fylgja þessum staðalímyndum og kynjahlutverkum sem þau sjá í barnaefninu og þannig höldumst við innan veggja kynjakerfisins. Flestir eru þó orðnir meðvitaðir og farnir að gagnrýna það. Því er von mín sú að með þessu áframhaldi verði það til þess að í staðinn fyrir að flest sé „stelpulegt“ eða „strákalegt“ þá verður það frekar einstaklingsbundið og myndi þá útlit, hegðun og hlutverk fara eftir einstaklingnum ekki kyni.
Höfundur er nemandi í 10. bekk í Kelduskóla og í fjarnámsáfanga í kynjafræði í FÁ.