Í byrjun október afhenti Starfsgreinasambandið Samtökum Atvinnulífsins kröfugerð sína vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði en þeir renna út 31. desember næstkomandi. Starfsgreinasambandið er samband 19 verkalýðsfélaga sem dreifast um allt landið og er Efling hluti af því bandalagi verka- og láglaunafólks sem starfar á íslenskum vinnumarkaði. Kröfugerðina má kannski kalla heiðarlega tilraun til að hefja tímabil sanngjarnrar verðlagningar á vinnuaflinu.
Viðbrögðin við kröfugerðinni og þeim hugmyndum um úthlutun gæðanna sem þar birtast voru með ýmsum hætti. Sum urðu mæðuleg og kölluðu hana bólgna á meðan önnur bókstaflega gengu af göflunum með brjálæðislegum yfirlýsingum um að ef kröfunum yrði mætt af sanngirni myndi skelfileg efnahagsleg kollsteypa gera Ísland að hamfarasvæði; eyðimörk þar sem kramdir kapítalistar og vinnuafl án tilgangs ráfuðu um, bölvandi hinum geðveiku byltingarsinnum sem öllu hefðu rústað. Þessar yfirlýsingar og þær sjúku hótanir sem í þeim bjuggu voru með miklum ólíkindum, en þó merkilegt tækifæri til að hlotnast innsýn í hugarheim þeirra sem aðhyllast bókstafstrú á arðránskerfið.
Meðal annars var því haldið fram, eins og ekkert væri, af leiðarhöfundi Fréttablaðsins að niðursveifla væri þegar hafin í efnahagskerfinu, þrátt fyrir sannleikann um að hér hafi hagvöxtur verið mikill og verði líklega rétt undir 4% yfir árið í heild, að hægt hafi aðeins á eftir geigvænlegan vöxt (eitthvað sem í það minnsta sæmilega normal greinendur á efnahagsmál gætu mögulega kallað „að markaðurinn leitaði jafnvægis“?) og að í markaðshagkerfi geti „væntingar“ haft stórkostlegar afleiðingar; semsagt að ef leiðarahöfundar spá því froðufellandi að nú muni harðna á dalnum og hvetja með því fjármagnseigendur og fyrirtækjaeigendur og neytendur til að halda að sér höndum, aukast líkurnar á því að harðni á dalnum. Það væri kannski við hæfi að þau sem sögðu mig og félaga mína óábyrga fávita litu í eigin barm og bæðust afsökunnar á tilraun sinni til að auka líkurnar á meiri samdrætti í efnahagslífinu?
En hvert er grunn-inntakið í kröfum Starfsgreinasambandsins? Hvað vill vinnuaflið í skiptum fyrir vinnu sína, vinnu sem óumdeilanlega knýr hér áfram hjól atvinnulífsins og vökvar hagvöxtinn eins glæsilega og raun ber vitni? (Dömur mínar og herrar, eruði tilbúin? Ilmsöltin innan seilingar, búið að losa um bindishnúta og korselett og eitthvað hjartstyrkjandi til taks?)
- Að lágmarkslaun hækki úr 300.000 krónum og verði 425.000 krónur í lok samningstímans sem eru 3 ár.
- Að ójöfnuður aukist ekki í íslenski samfélagi; að tryggt verði að launahækkanir til láglaunafólks skili sér án þess að þær stigmagnist upp allan launastigans; að krónutöluhækkunin til okkar umbreytist ekki í prósentur þeirra sem meira hafa á milli handanna; að þau sem dvelja ofar í hinu efnahagslega stigveldi axli loksins ábyrgðina á stöðugleikanum.
Nú veit ég auðvitað ekki hvernig þið eruð innréttuð en ég sé ekki alveg fyrir mér yfirlið og angistarstunur hjá þeim sem þetta lesa. Og ef ég er heiðarleg, og það vil ég helst vera sem oftast og mest, þá hef ég ekki enn hitt „venjulega“ manneskju sem tekur andköf og biðst fyrir þegar kröfurnar okkar berast í tal. Þvert á móti; fólk virðist ánægt og hrifið. Ég og félagar mínir hljótum að vera þeim sem haft hafa samband við okkur til að lýsa yfir stuðningi við baráttu verka og láglaunafólks, sem og þeim sem leggja lykkju á leið sína á förnum vegi til að óska okkur góðs gengis í baráttunni, ævinlega þakklát.
Í sumar heimsótti hagfræðingurinn Özlem Onaran Ísland, á vegum Eflingar. Rannsóknir hennar snúast um wage-led growth eða launadrifin hagvöxt, eitthvað sem ekki hefur verið rætt mikið á Íslandi, enda lítið pláss fyrir slíkar umræður í því nýfrjálshyggju-andrúmslofti sem fengið hefur að ríkja, því sem næst án andmæla. Í stað þess að velta sér upp úr óförum einstakra atvinnurekanda, eins og tíðkast í opinberri umræðu hér á landi, er í hugmyndunum um launadrifinn hagvöxt horft yfir hið makró-ekónómíska svið. Þegar það er gert kemur í ljós að hækkun á lágum launum hefur sérlega jákvæð áhrif á hagvöxt þar sem slík „aðgerð“ skilar sér beint út í hagkerfið. Einstæð móðir á lágum launum sem fær verulega hækkun hegðar sér ekki eins og auðstéttin, sem fjárlægir stóran hluta af fjármagninu úr umferð þegar hún kemst yfir það, nei þvert á móti, láglaunakonan fer beinustu leið út í búð og kaupir nýja úlpu handa barninu sínu eða kuldskóna sem hana hefur vantað lengi. Sannleikur málsins er að rausnarleg launahækkun til þeirra sem vinna sér inn litlar tekjur örvar heildareftirspurn og eykur hagvöxt.
Því má segja að ef að fólki er raunverulega umhugað um stöðugleika og að hjól efnahagslífsins snúist er farsælast að sýna sanngirni þegar kemur að kröfum vinnuaflsins.
Í síðustu viku bárust fréttir af því að meirihluti samborgara okkar teldi að verkfallsaðgerðir væru réttmæt leið til að ná árangri í kjarabaráttu. Þetta voru sannarlega gleðilega tíðindi en ættu ekki að koma á óvart. Staðreyndin er nefnilega sú að óréttmæt skipting gæðanna særir réttlætiskennd fólks. Það að hér sé sumum, m.a. stórum hópum kvenna, gert að vinna fyrir launum sem duga ekki til framfærslu, særir réttlætiskennd fólks. Og þrátt fyrir linnulausan áróðurinn um að hér megi engu breyta og að hag allra sé best borgið með að vinnuaflið haldi sig á mottunni er almenningur tilbúinn til að veita okkur svigrúm til að nota öll tólin í verkfærakistunni okkar, meðal annars þau sem merkilegust verða að teljast í sögulegu samhengi; að leggja niður störf til að knýja fram réttan útreikning á verðmæti og mikilvægi vinnu okkar.
Hátt atvinnustig, sterkt velferðarkerfi, húsnæðiskerfi sem tryggir öllum öruggt þak yfir höfuðið á eðlilegum kjörum, skattkerfi sem hefur það að sínu helsta markmiði að tryggja jöfnuð og svo síðast en aldrei síst, mannsæmandi laun fyrir unna vinnu, dagvinnulaun sem duga fyrir framfærslu; á þessum atriðum grundvallast velsæld samfélags okkar. Á þessu grundvallast það sem kallað er norrænt velferðarkerfi. Þetta vitum við sem hér lifum. Það er hægt að arga á okkur og garga, það er hægt að hóta okkur og hrella, það er hægt að láta eins og við og tilvera okkar sé uppspretta ægilegra vandamála en staðreyndin er sú, nú á tíu ára afmæli Hrunsins, að við einfaldlega látum þetta allt saman sem vind um eyru þjóta. Við höfum lært af reynslunni og við vitum hvað við viljum. Við viljum mannsæmandi laun fyrir unna vinnu.
Talsmenn þeirra sem eiga atvinnutækin og fjármagnið í íslensku samfélagi hafa opinberlega talað um eitthvað sem þeir kalla „kyrrstöðusamninga“.*
Við því vil ég segja þetta:
Ef að hér væri gæðunum skipt með eðlilegum og sanngjörnum máta mætti mögulega ræða slíka samninga. Þeir væru þá væntanlega partur af einhverju sem hægt væri að kalla „þjóðarsátt“.
En að nefna slíkt í samfélagi þar sem laun þingmanna hækkuðu á einu ári um ríflega 44%, samfélagi þar sem um helmingur félaga minna í Eflingu hefur áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni og þau sem lægst hafa launin verulegar og vaxandi áhyggjur, samfélagi þar sem okkar aðfluttu félagar þurfa að þola ýmiskonar óréttlæti og illa meðferð, í samfélagi þar sem verka og láglaunafólk þarf að leggja á sig gríðarmikla auka- og yfirvinnu til þess eins að láta enda ná saman frá einum mánaðamótum til þeirra næstu en þar sem auðstéttin jók á einu ári eigur sínar um ríflega 270 milljarða króna sem varð til þess að ríkustu 5% samborgara okkar eiga nú samtals tæpar 2.000 milljarða króna, er, svo ég tali af fullri hreinskilni og heiðarleika, algjörlega óboðlegt.
Slíkir samningar myndu þýða að við ákvæðum að staldra við í kjarabaráttu okkar, frystum um stund möguleika okkar á að ná betri lífsgæðum, samþykktum að bíða og sjá til. En í efnahagslífinu ríkir engin kyrrstaða; þvert á móti er hér allt á hreyfingu. Hér ríða yfir hrun og kreppur, uppsveiflur og samdrættir, hér búum við inn í risavöxnu verkefni um endurúthlutun gæðanna, þar sem efnahagslegir forréttindahópar vinna mikla sigra á ári hverju. Að reyna að krefjast þess að í kjölfar uppsveiflu þar sem útvaldir hópar högnuðust verulega á meðan, svo aðeins eitt dæmi sé nefnt, alþýðan var neydd inn á græðgisvæddan húsnæðismarkað, er óboðlegt. Það hljóta allir að sjá.
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út þann 31. desember. Það er því tímabært að Samtök Atvinnulífsins svari af heiðarleika: Hvernig hyggjast þau mæta kröfum okkar um að lágmarkslaun hækki upp í 425.000 á samningstímabilinu? Ætla þau að axla ábyrgð á því að ójöfnuður aukist ekki á samningstímabilinu?
Það er ekki eftir neinu að bíða, við hljótum öll að vilja fá svör við þessum spurningum ekki seinna en strax.
*(„Besta leiðin er kyrrstöðusamningar þar sem við leyfum atvinnulífinu að ná styrk á ný“)