Árið 2018 var ár greininga og umræðu en árið 2019 verður ár ákvarðana og uppbyggingar til framtíðar. Niðurstaða kjarasamninga, endurskoðun peningastefnu, stefnumótun um fjármálamarkaðinn, mótun menntastefnu, nýsköpunarstefnu og orkustefnu og tímabær innviðauppbygging eru meðal verkefna sem eru nú þegar á dagskrá og verða til lykta leidd árið 2019. Þarna vantar atvinnustefnu sem ætti að vera rauði þráðurinn í stefnumótun stjórnvalda. Stjórnvöld ættu að móta slíka stefnu.
Öll þau málefni sem nefnd eru hér að framan lúta að samkeppnishæfni. Samkeppnishæfni þjóða er eins og heimsmeistaramót í lífsgæðum. Því framar sem ríki standa, þeim mun meiri verðmæti verða til og þar með verður meira til skiptanna. Allir vinna. Þess vegna reyna ríki heims stöðugt að bæta sig og gera betur á helstu sviðum. Þau fjögur málefni sem mestu varða fyrir framleiðni og þar með samkeppnishæfni eru menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Með umbótum í þessum fjórum málaflokkum stöndum við betur að vígi í alþjóðlegri samkeppni. Hér á landi má gera betur og tíminn til umbóta er nú, þegar efnahagslegri endurreisn er lokið með miklum ágætum, nú síðast með áformum um frekari losun hafta. Hugvit verður drifkraftur vaxtar á þessari öld, rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var forsenda framfara á síðustu öld. Hugvitið þarf að virkja í meira mæli til að skapa þau auknu verðmæti sem þarf til að standa undir auknum lífsgæðum.
Öll skip rísa á flóðinu
Um þessar mundir móta stjórnvöld stefnu í ýmsum lykilmálaflokkum sbr. menntamálum, nýsköpun, orkumálum og innviðum þar sem horft er til langs tíma. Atvinnustefna snýr almennt að því að bæta skilyrði til rekstrar og þannig miðar hún að bættri samkeppnishæfni. Atvinnustefnu eiga stjórnvöld að móta nú og hafa hana til hliðsjónar við aðra stefnumótun sem fer fram. Þannig fæst nauðsynlegt samhengi og fjármunir verða nýttir á hagkvæmastan hátt. Fjölgun iðnmenntaðra á vinnumarkaði, átak í uppbyggingu innviða og húsnæðis, frekari hvatar til nýsköpunar og stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi eru meðal áherslumála sem nefnd eru í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins um atvinnustefnu.
Íslenskt gjörið svo vel
Krefjandi rekstrarskilyrði settu mark sitt á atvinnulífið þar sem samspil launahækkana og sterkrar krónu gerðu Ísland að einu dýrasta landi heims 2018. Ekkert iðnríki hefur gengið í gegnum viðlíka sveiflur í raungengi síns gjaldmiðils eins og Ísland síðustu ár, hvort heldur á mælikvarða verðlags eða launa. Þetta dregur samkeppnishæfni Íslands niður. Fjölmörg störf hurfu fyrir vikið og rótgrónum iðnfyrirtækjum var lokað eða starfsemi skert. Hætt er við því að starfsemi sem einu sinni er lögð af hér á landi komi ekki aftur. Það er eftirsjá eftir því og þeim verðmætum sem áður urðu til hér en verða í framtíðinni til erlendis. Þessu þarf að gefa meiri gaum og meta hvort hagsmunir til skemmri tíma fari saman við langtímahagsmuni landsmanna þegar valið er á milli innlendrar eða erlendrar framleiðslu. Það er ágætt að minnast þess nú þegar kjarasamningar eru að losna að það er sameiginlegt markmið launþega og atvinnurekenda að hér á landi verði til sem flest störf og að verðmætasköpun verði sem mest.
Umræður og aðgerðir
Þó eru jákvæð teikn á lofti. Áhugi á iðn- og starfsnámi tók kipp og jókst aðsókn um þriðjung en 16% grunnskólanema völdu slíkt nám. Betur má ef duga skal og er stefnt að því að 30% grunnskólanema velji iðn- og starfsnám árið 2030. Mikil undirbúningsvinna og greining á sér stað í menntamálum þjóðarinnar og er mikil eftirvænting í garð nýrrar menntastefnu sem nú er í mótun. Samtök iðnaðarins hafa þegar gert grein fyrir sínum áherslum sem miða meðal annars að því að fjölga iðn- og starfsmenntuðum á vinnumarkaði og styðja við nýsköpun og hugvitsdrifið hagkerfi til framtíðar. Þannig þróast mannauðurinn í takt við þarfir atvinnulífsins. Breytinga er þörf.
Mikilvægur áfangi náðist þegar stjórnvöld lögfestu frekari hvata til nýsköpunar á árinu. Slíkir hvatar hafa þegar sannað gildi sitt hér á landi sem og erlendis. Skilningi stjórnvalda á mikilvægi þessa ber að fagna. Virkjun hugvits í meira mæli er forsenda aukinnar verðmætasköpunar og þar með aukinna lífsgæða. Nýsköpunarstefna stjórnvalda er í mótun og verður kynnt 2019. Miklar vonir eru bundnar við þá stefnumörkun enda getur Ísland sannarlega orðið nýsköpunarland með tilheyrandi verðmætasköpun.
Fjárfesting í dag er hagvöxtur á morgun. Undanfarinn áratug hefur innviðauppbygging setið á hakanum og innviðir landsins í sumum tilvikum ekki til þess bærir að þjóna sínu hlutverki. Með hliðsjón af þessu voru það nokkur vonbrigði að sjá fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára þar sem aukning til málaflokksins var í engu samræmi við hina gríðarlegu fjárfestingarþörf. Nú lítur þó út fyrir að verulega verði bætt í framkvæmdir næstu sex árin gangi áætlanir samgönguráðherra og Alþingis eftir en þær verða að óbreyttu samþykktar í janúar. Framkvæmdaárið 2019 verður vonandi staðreynd.
Íbúðum fjölgaði hraðar á árinu 2018 en árin áður. Betur má ef duga skal þar sem byggja þarf 55 þúsund nýjar íbúðir til ársins 2050. Árið 2018 myndaðist sameiginlegur skilningur á því að vandinn á húsnæðismarkaði væri framboðsvandi, þ.e. að það þyrfti að byggja fleiri íbúðir til að ná jafnvægi. Til að koma í veg fyrir sambærilegan skort á íbúðum í framtíðinni með viðlíka verðhækkunum þarf að hrinda í framkvæmd verulegum umbótum árið 2019 er lúta að stjórnsýslu, regluverki og afgreiðslu sveitarfélaga.
Starfsumhverfi hefur verið í brennidepli á árinu, rétt eins og menntamál, innviðauppbygging og nýsköpun. Umræða hefur þroskast og má þar nefna hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið og vinnu við endurskoðun peningastefnu. Árið 2019 er tími aðgerða. Innleiða þarf umbætur á peningastefnu, sameina Seðlabanka og Fjármálaeftirlit og framkvæma breytingar varðandi fjármálamarkaðinn sem geta leitt til lægri vaxta ef rétt er á málum haldið. Mikið er í húfi. Tryggingagjald þarf og að lækka frekar en áformað er.
Iðnaður lætur sig umhverfis- og loftslagsmál sannarlega varða. Íslensk fyrirtæki hafa náð miklum árangri á því sviði og hafa metnað til að gera enn betur til að mæta skuldbindingum Parísarsamkomulagsins. Iðnaðurinn mun ekki láta sitt eftir liggja á nýju ári í umhverfis- og loftslagsmálum. Stjórnvöld hafa einnig sett loftslagsmálin á dagskrá og munu vonandi láta verkin tala árið 2019. Orkustefna stjórnvalda er í mótun og má búast við niðurstöðum þeirrar vinnu í lok árs 2019. Þar verður að taka tillit til þeirrar staðreyndar að það er mikil eftirspurn eftir orku, jafnt frá hefðbundnum iðnaði og nýjum iðnaði. Hin hreina raforka landsins skapar Íslandi sérstöðu meðal annarra ríkja og höfum við því góða sögu að segja í loftslagsmálum. Hagstætt orkuverð hefur skapað Íslandi forskot í samkeppni við önnur ríki en dregið hefur úr því forskoti. Skýr atvinnustefna gæti auðveldað þessa stefnumótun.
Ár tækifæra og aðgerða
Árið 2019 er sannarlega ár tækifæranna, árið sem stefnumótandi ákvarðanir eru teknar til langs tíma og ár aðgerða sem varða veginn til aukinnar hagsældar. Umræður og greiningarvinna ársins 2018 hafa undirbúið jarðveginn og auðvelda ákvarðanatöku og aðgerðir ársins 2019. Skýr sýn stjórnvalda sendir skilaboð til almennings og atvinnulífs og hefur áhrif á ákvarðanatöku og athafnir. Látum þau áhrif verða jákvæð og leysa orku úr læðingi samfélaginu til heilla.
Sigurður Hannesson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins