Fjórða iðnbyltingin er bæði ein helsta áskorun og eitt helsta tækifæri stjórnenda fyrirtækja nú á tímum. Ný tækni gjörbreytir samkeppnisumhverfi og framleiðsluháttum. Þetta hefur ekki síst áhrif á mannauð fyrirtækja og getur gjörbreytt þeim störfum og því fólki sem fyrirtæki reiða sig á. Margt hefur verið skrifað um möguleg áhrif þessa til lengri tíma – fimm til tíu ára hið skemmsta og allt að fimmtíu árum eða lengur. Fyrir stjórnendur fyrirtækja er tímalínan sem mestu máli skiptir þó öllu styttri og horfa þeir við stefnumótun frekar á næstu eitt, þrjú eða kannski fimm árin. Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar á viðhorfum stjórnenda stærstu fyrirtækja heims til þessa fer ekki á milli mála að áhrifa tækni á störf gætir nú þegar í ákvörðunum og stefnumótun. Þær breytingar sem eiga sér stað eru eitt það brýnasta sem þessir stjórnendur glíma við nú um stundir. Skilaboð stjórnenda eru raunar að því hraðari sem breytingar verða þeim mun erfiðara og mikilvægara verði að bregðast við þeim á viðeigandi hátt. Hér á eftir eru tilgreindar þrjár áhrifamestu breytingarnar á næstu fjórum árum að mati stjórnenda.
Leitað til stjórnenda
Í hópi þeirra sem leiða umræðuna um áhrif tækni á framtíð vinnu er Alþjóðlega efnahagsstofnunin (e. World Economic Forum). Hún hefur reglulega birt viðamiklar rannsóknir og skýrslur um málefnið og leitaði nú síðast til stjórnenda stórfyrirtækja, sem eru jú líklegastir eru til að hafa hvað besta innsýn í þeir breytingar sem hafa orðið eða eru á döfinni hjá fyrirtækjum sjálfum. Í rannsókn sem náði til aðildarfyrirtækja stofnunarinnar, sem eru flest af stærstu fyrirtækjum heimsins, voru stjórnendur (forstjórar, framkvæmdastjórar, mannauðsstjórar o.fl) spurðir um sína sýn á störf, færni og mannauð á næstu fjórum árum. Niðurstöðurnar voru birtar nú í september í ritinu The Future of Jobs Report, 2018. Spurt var sérstaklega um þætti sem hafa áhrif á ákvarðanir um fjárfestingar og mannauðsmál nú og næstu fjögur árin. Niðurstöðurnar eru því merkileg vísbending um stefnu og áform stærstu vinnuveitenda heims sem jafnan eru leiðandi og gefa tóninn fyrir smærri fyrirtæki.
Færnibilið er stórt og flestir þurfa töluverða endurmenntun
Stjórnendur sjá fram á að sú færni sem nauðsynleg er til að sinna þeim störfum sem við þekkjum nú muni breytast mikið og það strax á næstu fjórum árum. Áætlaður stuðull um alþjóðlegan „færni-stöðugleika“ (e. Global average skills stability)– hlutfall nauðsynlegrar færni innan ákveðins starfs sem helst óbreytt – er nú áætlaður um 58%. Það þýðir 42% breytingu á færnikröfum að meðaltali á næstu fjórum árum. Gjarnan er í þessu samhengi talað um hið svokallaða „færnibil“ (e. skills gap) og er þá átt við muninn á þeirri færni sem einstaklingur, starfsstétt eða vinnuaflið í heild sinni býr yfir í dag, samanborið við þá færni sem þarf til að sinna ákveðnu verkefni, starfi eða starfsgrein á þann hátt sem þörf er talin á.
Til að brúa þetta færnibil hjá núverandi vinnafli meta vinnuveitendur stöðuna þannig að á næstu fjórum árum muni að minnsta kosti 54% starfsfólks þurfa á töluverðri endurmenntun eða þjálfun að halda. Þar af er búist við að um 35% þurfi að verja allt að sex mánuðum í slíka menntun, 9% þurfi 6-12 mánuði og 10% meira en ár. Sjá má nákvæm svör stjórnenda á mynd 1.
Þessar breyttu færnikröfur hafa jafnan með nýja stefnu eða aukna tæknivæðingu innan fyrirtækis að gera. Dæmi um færni sem verður sífellt mikilvægari er greining og skapandi hugsun auk námstækni og færni til að læra og bæta við sig nýrri þekkingu og kunnáttu. Öll færni er snýr að forritun og hönnun í tækni vex nú í mikilvægi og endurspeglar það þær breytingar sem eru að verða á nær öllum mörkuðum. Samhliða því sjá stjórnendur líka vaxandi þörf á ýmissi „mannlegri“ færni; sköpun, frumleika, frumkvæði, gagnrýnni hugsun, sannfæringarkrafti og færni til samningaviðræðna, svo dæmi séu tekin. Tilfinningagreind, leiðtogahæfni og mannleg samskipti vaxa jafnframt áfram í mikilvægi, þvert á geira og greinar.
Tölvur taka við fleiri verkum
Á þessu ári sinnti fólk að meðaltali 71% vinnustunda í þeim tólf geirum sem rannsóknin náði til en vélar/tækni 29%. Eftir fjögur ár búast stjórnendur við að þetta hlutfall verði nær 58% fyrir fólk og 42% fyrir vélar/tækni. Að hlutur tækni vaxi er fyrirsjáanlegt en athyglisvert er að vöxturinn verður í fyrsta skipti umfram helming í vissum verkefnum. Það vekur jafnframt athygli að vöxtur tækni snertir líka á ýmissi mannlegri færni og verkefnum, til dæmis samskiptum. Þessa dreifingu og fyrirséðar breytingar í ólíkum verkefnum má sjá nánar á mynd 2.
Þetta er töluverð breyting á skömmum tíma sem kann að hræða marga. Á móti kemur að stjórnendur búast við töluverðum vexti í ýmsum nýjum verkefnum og störfum. Sé litið á starfsheiti í stað verkefna sem felast í störfum eru væntanlegar breytingar líka skýrar. Tæknibreytingar verða til þess að störf hverfa en þær stuðla jafnframt að því að til verða nýjar vörur og ný þjónustu sem aftur leiðir til nýrra starfa og krafna um nýja færni. Þau störf sem teljast ný og hafa verið í vexti undanfarið verða á næstu fjórum árum 27% allra starfa hjá fyrirtækjum í stað 16% (11% vöxtur) á meðan störf sem teljast á niðurleið fara úr 31% í 21% (10% samdráttur). Sé þetta vísbending um þróun víðar, sem full ástæða er til að gera ráð fyrir, styður það spár um töluvert breytta sviðsmynd á vinnumarkaði í náinni framtíð.
Það er nokkuð fyrirsjáanlegt hvaða störfum fjölgar mest; reikni-og gagnafræðingar, forritarar og störf tengd vefsölu og markaðssetningu á vef/samfélagsmiðlum. Allt eru þetta störf sem verða mikilvægari með vaxandi hlutverki tölvu og tækni. Störfum sem krefjast mikið mannlegrar færni fjölgar líka. Þetta á við um ákveðin störf í sölu og þjónustu auk ýmissa starfa tengdum innviðum fyrirtækja, svo sem í mannauðsmálum. Sérhæfðum störfum tengdum nýrri tækni fjölgar einnig.
Stefna fyrirtækja kallar nú þegar á breytingar
Um helmingur fyrirtækja býst við að sjálfvirknivæðing leiði til uppsagna á næstu fjórum árum en þó líka ráðninga á fólki. Tæplega 40 prósent (38%) fyrirtækja segja líklegt að þau bæti við starfsfólki en þá hugsanlega í öðrum störfum eða deildum innan fyrirtækisins en áður.
Fjórðungur fyrirtækja býst við að til verði glænýjar stöður eða störf sem tengjast þá nýrri stefnu fyrirtækisins. Athygli vekur að vinnuveitendur segjast margir hafa hug á að nýta sér í auknum mæli verktaka eða hið svokallaða „sveigjanlega vinnuafl“ bæði í hlutastörfum og sem fastráðna utan fyrirtækisins sem geti þá unnið hvaðan sem er og jafnvel í öðrum löndum. Þetta getur breytt samkeppnisumhverfi vinnuafls töluvert og athyglisvert væri að meta hvaða áhrif slík þróun hefði í litlu og tiltölulega lokuðu hagkerfi eins og á Íslandi.
Enn og aftur snýst allt um færni
Tengslin á milli nýrrar tækni, færni og starfa eru flókin. Ný tækni getur stuðlað að vexti fyrirtækja, atvinnusköpun og eftirspurn eftir sérhæfðri færni en hún getur líka útrýmt heilu starfsstéttunum þegar ákveðin verk og verkefni verða einfaldlega ónauðsynleg. Færnibil – bæði hjá starfsfólki og stjórnendum fyrirtækja – geta ýmist verið hindrun í aðlögun nýrrar tækni hjá fyrirtækjum eða orðið til þess að flýta þurfi sjálfvirknivæðingu eða innleiðingu á annarri nýrri tækni.
Svör stjórnenda í rannsókn Alþjóðlegu heimviðskiptastofnunarinnar sýna skýrt áhuga og vilja til að nýta nýja tækni þannig að hún styðji við mannauð fyrirtækja –fólk geti haldið áfram að bæta við sig nýjum og flóknari verkefnum þegar tæknin tekur við hluta af því starfi sem það áður sinnti. Öllu máli skiptir að einstaklingar búi að réttri færni svo þeir geti þrifist í vinnuumhverfi framtíðarinnar og séu í aðstöðu til að halda stöðugt áfram að læra og bæta við sig nýrri færni eftir því sem kröfurnar breytast. Hlutverk einstaklinga er að hafa opinn huga og vera tilbúnir að læra – sífellt – það sem eftir lifir starfsferilsins. Hið opinbera þarf að vera til staðar til að grípa inn í og styðja fólk, helst áður en í óefni er komið, og þá helst í því að endurnýta færni og bæta við sig nýrri færni til að mæta nýjum áskorunum eða kröfum á vinnumarkaði. En í þessu öllu reynir þó líklega mest á fyrirtækin sjálf. Þau þurfa að hugsa markvisst um sitt vinnuafl eins og það er hverju sinni og áætla hvernig það þurfi að vera eftir þrjú eða fimm ár. Fjárfesting í fólki, í námsstefnu og í þróun mannauðs er nú þegar efst á lista stærstu fyrirtækja heims yfir það sem mestu máli skiptir til að tryggja gott gengi í rekstri til skemmri og lengri tíma litið. Þetta ættu allir stjórnendur ekki bara að vera hugsa um heldur vera að vinna í.
Höfundur er hagfræðingur og MBA frá Harvard háskóla. Greinin birtist fyrst í Vísbendingu. Hægt er að gerast áskrifandi hér.