Í tengslum við kjarasamningsgerð á Íslandi er mikið talað um norrænt samfélags eða launasetningarlíkan. En svo virðist sem hver og einn þeirra aðila sem um véla skilja hugtakið norrænt samfélagslíkan þeim skilningi sem þeim hentar.
„Nýja" verkalýðsforystan einblínir á hátt láglaunastig. Atvinnurekendur (og „gamla“ verkalýðsforystan) einblína á hófstilltar launahækkanir á grundvelli framleiðniþróunar (eða þróunar á verðlagi útflutningsgreina). „Gamla“ verkalýðsforystan reyndi að setja launabreytingum annarra aðila en eigin félagsmanna ósveigjanlegan ramma.
Jafnframt hefur „gamla“ og „nýja“ verkalýðsforystan lagt ofuráherslu á að halda aftur af hækkunum í efri þrepum launaskalans. Æðstu embættismenn eru þar alltaf í skotlínunni, stundum með réttu, stundum ekki. Stundum er spjótum beint að háskólamenntuðum opinberum starfsmönnum líka. Þau spjótalög „gömlu“ verkalýðsforystunnar bára þann árangur haustið 2016 að ríkisábyrgð á lífeyri opinberra starfsmanna var afnumin gegn loðnum loforðum um bætur í formi grunnlaunahækkana. Þá hefur „nýja“ verkalýðsforystan lagt áherslu á viðamiklar breytingar á tekjuskattskerfinu.
En hvað er norræna kjarasamnings- og samfélagslíkanið? Það er samfélagssáttmáli um að setja almenna velferð sem höfuðmarkmið í rekstri þjóðfélagsins. Í þessu felst að markmiðið er ekki að hámarka landsframleiðslu á mann eða að hámarka meðaltal peningalegra eigna á mann. Þvert á móti er horft bæði til dreifingar tekna og stöðu meðaltala. Til þess að ná markmiðinu um mikla almenna velferð þarf engu að síður mjög framleiðið atvinnulíf, mikinn sköpunarmátt í atvinnulífinu, mikinn hreyfanleika á vinnuaflinu og öflugt menntakerfi. Það þarf líka öflugt endurmenntunar og atvinnuleysisúrlausnakerfi og afar öflugt og víðtækt velferðarkerfi. Leiðin til þess að ná umræddum markmiðum felst t.d. í að hafa lágmarkslaun mjög há og gera þannig óframleiðnum fyrirtækjum ókleyft að starfa í landinu (LM Ericson og Nokia fundu upp farsímann, en hættu fjöldaframleiðslu þeirra þegar erfitt reyndist að keppa við lágkostnaðarlönd).
Það kostar líka talsverða skattheimtu þar sem næstum allir taka þátt í að greiða skatta. Og það þýðir líka að atvinnuþátttökuhlutfall er nokkru lægra en hjá okkur nú (76-82%, á móti 88% á Íslandi). Ennfremur krefst norræna samfélagslíkanið þess að til staðar séu mjög virkar mennta- og rannsóknarstofnanir, mjög virk atvinnumarkaðsúrræði o.s.frv.
Þegar til lengri tíma er litið má velta fyrir sér hvort það sé ekki þverstæðukennt að ætla sér að byggja upp hálaunaumhverfi á Íslandi á grundvelli ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta er í grunninn láglaunastarfsemi þar sem flugliðar og hótelstarfsfólk á Íslandi er í beinni samkeppni við flugliða í Lettlandi eða Litháen og hótelstarfsfólk á Spáni, Tyrklandi o.s.frv. Sömuleiðis erum við stöðugt minnt á að til þess að ferðaþjónustan geti starfað þarf að halda uppi dýrum innviðum í formi samgöngukerfis (vegir, brýr, flugvellir), í formi bráðaþjónustu á heilbrigðissviðinu, í formi bráðaviðbragðateyma björgunarsveita, löggæslu, sjúkraflutningafólks og þyrlusveita. Vægi ferðamanna í þessum útgjöldum hlýtur að vera meiri á Íslandi en í mörgum öðrum löndum vegna strjálbýlis landsins og vegna þess hversu margir ferðamennirnir eru í samanburði við heildarfjölda landsmanna. Næstum allur er þessi kostnaður er greiddur af almennu skattfé. Vissulega kemur hluti skatttekna af ferðaþjónustunni, en enn er þeirri spurningu ósvarað hvort hreinar tekjur af ferðaþjónustunni geti staðið undir því að greiða laun sem eru samkeppnisfær við laun í hátæknigreinum og jafnframt að greiða fyrir það aukaálag sem greinin veldur á innviðum og samgöngukerfum. Kannski ættu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins að koma sér saman um vandaða mótun framtíðar atvinnustefnu fyrir lýðveldið Ísland?
Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, hefur fjallað um vinnumarkaðstengd málefni í kennslu og rannsóknum og á sæti í stjórn og samninganefnd Félags prófessora við ríkisháskóla.