Mikið er rætt um það þessi misserin að aðkoma stjórnvalda að samningum milli atvinnurekenda og stéttarfélaga starfsmanna sé nauðsynleg til að tryggja farsæla niðurstöðu.
Fyrir liggur að himinn og haf eru á milli krafna stéttarfélaganna og forystu ASÍ, og síðan mats Samtaka atvinnulífsins á svigrúmi til launahækkana.
Að mati þeirra sem aðild eiga að SA þá er matið, samkvæmt könnunum meðal félagsmanna SA, um 1,9 prósent hækkun. Hjá forystu verkalýðshreyfingarinnar er uppi krafa um 20 til 30 prósent hækkun launa, og þar á meðal hækkun lágmarkslauna úr 300 í 425 þúsund.
Hvernig er hægt að höggva á þennan hnút?
Það er alveg öruggt að það er ekki hægt að höggva á hann og ná nýrri þjóðarsátt, ef hvorugur aðilinn gefur eftir við samningaborðið. Þá enda viðræðurnar með ósköpum sem myndu felast í verkföllum, gengisfalli og verðbólgu. Kjararýrnun almennings.
Varhugaverð aðkoma ríkisins að húsnæðismarkaði
Aðkoma stjórnvalda að þessari stöðu er snúin.
Sérstaklega á það við um sértækar lausnir til að lækka húsnæðiskostnað fólks, einkum á höfuðborgarsvæðinu, en stéttarfélögin hafa líka lagt áherslu á að aðgerðir í húsnæðismálunum nái til landsbyggðarinnar.
Húsnæðisverð hefur hækkað hratt á undanförnum árum, samhliða miklum hagvexti í lágri verðbólgu. Margt lagðist þar saman; vöxtur í ferðaþjónustu, lítið framboð af húsnæði, hagfelld verðþróun olíuverðs, vaxandi fjárfesting og fólksfjölgun, svo fátt eitt sé nefnt. Aðgerðirnar í hruninu - neyðarlög og fjármagnshöft - lögðu síðan grunninn að viðspyrnunni sem síðar kom.
Miklar launahækkanir og kaupmáttaraukning hafa einkennt undanfarin ár, en nú er tekið að kólna í hagkerfinu og verðbólga er komin upp í 3,7 prósent, töluvert yfir 2,5 prósent markmiðinu, og atvinnulausum hefur fjölgað, þrátt fyrir að atvinnuástand teljist gott og atvinnuleysi sé lágt.
Hvernig eiga stjórnvöld að liðka fyrir því að þjóðarsátt náist?
Varðandi húsnæðismarkaðinn þá hefur einkum verið kallað eftir því að komið sé til móts við þá sem eiga erfitt með að kaupa fyrstu eign og síðan þá sem kljást við háa leigu, einkum á höfuðborgarsvæðinu.
Fasteignaverð hefur farið hækkandi og leiguverð líka, og það á sér rökréttar skýringar, þar sem of lítið framboð hefur verið af litlum og meðalstórum íbúðum. Nú eru um 5 þúsund íbúðir að koma út á markað á næstu 18 mánuðum, og megnið af þeim eru litlar og meðalstórar.
Ef ríkið á að standa fyrir mikilli viðbótaruppbyggingu, til að stuðla að enn meira framboði, er það ávísun á lækkun fasteignaverðs. Slíkt myndi vissulega koma til móts við þá sem hagnast á slíku og líklega líka leiða til lægra leiguverðs, en það er ekki víst að allir yrðu sáttir við það.
Heimilin í landinu eru rúmlega 130 þúsund og fasteignamatið nálægt 7.300 milljörðum, miðað við árið 2018. Það mun ekki leysa neinn vanda að bæta við nokkur hundruð íbúðum fyrir opinbert fé, eða jafnvel þúsund. Það gæti hins vegar falið í sér umtalsverða áhættu fyrir heildina, þar sem slíkt myndi auka við framboð á tímum þar sem það er að stóraukast fyrir.
Önnur úrræði ættu frekar að koma til greina, sem er að styrkja bótakerfið, hækka skattleysismörkin og láta þær aðgerðir ná betur til þess hóps sem þarf á því að halda, að fá stuðning. Það ætti að vera hægt með finna lausnir á þessu.
Haftabólan
Á vormánuðum 2017 mældist árleg hækkun á húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu í heiminum 23,5 prósent, sem þá var mesta hækkun meðal nær allra þróaðra ríkja í heiminum. Hún mælist nú mun hóflegri, eða í kringum 4 prósent.
Á upphafsstigum þessa mikla vaxtartímabils á fasteignamarkaði, í lok árs 2014, ákváðu stjórnvöld að millifæra um 80 milljarða til fasteignaeigenda, sem voru með verðtryggð húsnæðislán, einkum velstæðra á höfuðborgarsvæðinu, eins og frumgögn hafa staðfest.
Nokkru áður voru greinendur og sérfræðingar í fasteignaviðskiptum búnir að greina stöðu mála þannig, að mikil hækkun fasteignaverðs væri í kortunum - og var þá þegar komin fram - eftir skellinn í hruninu. Þar á meðal var GAMMA, sem greindi stöðuna einfaldlega rétt, og það sama má segja um hinar „óumbeðnu“ greiningar Seðlabankans á málinu og áhrifum þess.
Þessi aðgerð var því fullkomlega óþörf, bruðl með tugi milljarða króna, en hún jók á vandamál þeirra sem voru á leigumarkaði eða ekki búnir að kaupa fasteign. Nú er verið að súpa seyðið af því, hvernig ákveðið var að eyða þessum fjármunum.
Þetta er dæmi um hvernig það getur verið, þegar ríkið ætlar sé að leysa vandamálin á mörkuðum þar sem það getur aldrei haft nema takmörkuð áhrif. T.d. duga 80 milljarðar bara til að byggja um 2 þúsund ódýrar íbúðir, sem kosta um 40 milljónir hver. Þetta eru gríðarlegir fjármunir fyrir ríkissjóð og samfélagslega innviði, en afar litlir og léttvægir þegar kemur að 7.300 milljarða markaði fasteigna.
Góður vilji er ekki nóg til að hreyfa við málum til góðs, og hugsa þarf aðgerðir til enda.
Hvernig sem á það er litið, þá vonar maður að atvinnurekendur og stéttarfélögin nái saman um ábyrga samninga. Það eru miklir hagsmunir fyrir land og þjóð.
Breytt staða
Forvitnilegt er að hugsa rúmlega eitt og hálft ár til baka þegar fjármagnshöft voru afnumin á Íslandi, í mars 2017. Þau höfðu gegnt algjöru lykilhlutverki í viðspyrnunni í efnahagsmálum. Þegar þetta var gert þá mældist fasteignaverð í hæstu hæðum, eins og áður segir. Gengi krónunnar gagnvart evru og Bandaríkjadal var búið að ná miklum styrk, með tilheyrandi uppsveiflu í neyslu, en Bandaríkjadalur fór undir 100 krónur og evran undir 120. Nú er staðan sú að Bandaríkjadalur kostar um 120 krónur og evran tæplega 140.
Frá afnáminu hefur því loftið svolítið lekið úr hagkerfinu. Eignaverð hefur farið lækkandi, frá því sem var. Það á við um verðbréfamarkaði ekki síst, eftir að lífeyrissjóðir hófu að fara fjármagn úr landi, en meiri hægagangur er nú á fasteignamarkaði einnig.
Þá hefur verðbólgudraugurinn farið á stjá og krónan hefur veikst nokkuð, frá því hún náði sinni sterkustu stöðu. Það var reyndar viðbúið, enda var gengið búið að styrkjast mikið á skömmum tíma innan hafta. Frekari vandamál í flugiðnaði, þá helst hjá WOW air, eru ekki útilokuð, og áhrifin af því geta verið víðtæk.
Brugðið getur enn til beggja vona.
Tugprósenta höfrungahlaupshækkun elítunnar - ráðamanna landsins - haustið 2016, eftir ákvörðun kjararáðs þar um, var glórulaus, inn í þær aðstæður sem höfðu skapast. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, las stöðuna strax rétt, með því að afsala sér hækkuninni, eins og áður hefur komið fram á þessum vettvangi.
Þingmenn og ráðherrar hefðu betur gert það, í staðinn fyrir að reyna með skýrslum að benda á, að þeir hafi mögulega átt það skilið að fá launahækkun. Það eru nefnilega margir aðrir hópar sem geta sagt það sama, og lagt þá réttilega fram beiðni um höfrungahlaupshækkun, sem er einmitt það sem þarf að tryggja að gerist ekki aftur og aftur á vinnumarkaði.
Vonandi sýna allir sem koma að kjaraviðræðunum ábyrgð í verki og bera virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Þar gæti málamiðlunarsáttin - hin nýja þjóðarsátt - náðst.