Það virðist vera orðinn sérstakur siður hjá Andra Snæ að berjast gegn rafmyntinni Bitcoin. Í svargrein sinni við jólahugvekju Orkumálastjóra tók hann vanhugsað hliðarspor til að sparka í hóp fólks sem stuðlar að tækniframförum.
Andri fylgdi þessu eftir í viðtali á Sprengisandi og síðar í Kastljósi. Þar fannst honum árangur sem náðst hefur í arðsemi og minna kolefnisfótspori með orkusölu til gagnavera helst til mikill. Þar hvatti hann Orkumálastjóra til að rísa upp og andæfa. En það eru samt nokkrir þættir í málflutningi hans sem mikilvægt er að leiðrétta.
Með miklum tækniframförum er aukin krafa á reiknigetu og úrvinnsluaðferðir. Þessi þróun hefur að mörgu leiti ýtt miklu af okkar daglega lífi inn í tölvur. Það má færa rök fyrir því að tækniframfarir framtíðarinnar muni að mörgu leiti byggja á aukinni notkun rafmagns, innleiðingu á gervigreind og skilvirkari gagnavinnslu, sem færir mannkynið vonandi frá mengandi stóriðju. Heimurinn í dag er að stórum hluta keyrður áfram af „aumingjans tölvunördum“, sem Andri Snær skilgreinir í viðtali á Sprengisandi og virðist vera í nöp við. Slíkt fólk sé einfaldlega að sleikja dverghamstra þar til það skapar eitthvað sem hann skilur og finnst verðugt að nota.
Ein þessara tækninýjunga er hin margumtalaða rafmynt Bitcoin sem er í dag stærsti óháði gjaldmiðillinn sem ekki er gefinn út af seðlabanka eða ríki. Enginn hefur vald til að prenta meira Bitcoin, eða klippa af því tveimur núllum eins og var gert fyrir 38 árum á Íslandi. Hægt er að nota rafmyntina til að stunda örugg viðskipti án milliaðila og er því fullkomin til notkunnar á veraldarvefnum. Heill heimur opnaðist þegar Bitcoin leit dagsins ljós og undirliggjandi bálkakeðjutækni varð til.
Hugmyndin á bakvið Bitcoin er sú að búa til gjaldmiðil sem mun virka að eilífu og getur staðið af sér kjarnorkustyrjöld. Gjaldmiðillinn hefur burði til að standa af sér árásir frá utanaðkomandi ríkjum, villandi orðrómi í formi falsfrétta, árásir frá fyrirtækjum sem gætu séð í því gróða ásamt hverslags árásum tölvuþrjóta. Þessar varnir eru dýru verði keyptar með því sem kallað er námuvinnsla, en hún fer fram á tölvum sem oftast eru geymdar í gagnaverum. Ferlið er gert svo óhagkvæmt að ekki verður á það ráðist, en á móti kemur að það krefst mikillar orku. Engin orka væri sett í námugröft ef afraksturinn skilaði ekki jafn miklu eða meira virði.
Útbreiðsla Bitcoin á Íslandi er orðin talsverð. Til marks um það er ISX.is, íslensk kauphöll með leyfi frá fjármálaeftirlitinu, með yfir 1% þjóðarinnar í viðskiptum og þar er aðallega sýslað með Bitcoin. Einnig sótti tíundi hver Íslendingur rafmyntina Auroracoin þegar hún var gefin landsmönnum á sínum tíma. Talið er að 10-12% af öllu Bitcoin hafi verið framleitt í gagnaverum hér á landi en ekki var virkjað sérstaklega til að standa undir þeirri þörf.
Markaðir með græna orku
Á Íslandi er raforka framleidd af endurnýjanlegum orkugjöfum og er seld á opnum markaði. Helsta uppspretta þessara grænu orku er frá fallvatns- og jarðvarmavirkjunum. Ef að græna orkan selst þá myndast hvati til að fjárfesta í nýsköpun henni tengdri ásamt meiri framleiðslu, svo lengi sem eigendur auðlindarinnar vilja nýta hana. Í nýlegri rannsókn sem rannsakaði orkunotkun Bitcoin kom fram að 77,6% af námuvinnslunni er keyrt áfram af endurnýjanlegri orku. Því er þveröfugt farið að Bitcoin sé að núlla út framfarir í hreinni orku, heldur er það einn helsti stórkaupandi á grænni orku í heiminum.
Aukin arðsemi raforku
Gagnaver og Bitcoin-námur á Íslandi eru að borga hæsta verð allra stórkaupenda á orku. Gagnaverin eru að borga allt að 67% meira fyrir orkuna en álverin. Bitcoin er því að skila miklum hagnaði af orkusölu til ríkisreknu orkufyrirtækjanna og skapar Landsvirkjun gjaldeyri sem aldrei fyrr. Aukin arðsemi af sölu raforku skilar sér beint til þjóðarinnar. Þar að auki virðast gagnaverin ekki hafa aðgang að sama skattaafslætti og önnur sambærileg stóriðja.
„Orka getur ekki verið búin til né eytt, henni getur einungis verið breytt úr einu formi í annað.“
- Albert Einstein
Samkvæmt skýrslu KPMG frá mars 2018, var áætlað að orkunotkun gagnavera á Íslandi færi í 128 MW fyrir lok ársins. Einnig kom fram að bein og óbein áhrif gagnavera á landsframleiðslu árið 2016 hafi verið 0,97% miðað við 34 MW orkunotkun. Því má gróflega áætla að bein og óbein landsframleiðsla af gagnaverum sé einhvers staðar á bilinu 3-4 prósent.
Lágmörkun á kolefnisfótspori
Líkt og Andri vitnar í munu fljótt renna upp skuldadagar íslensku þjóðarinnar þegar kemur að því að standa okkar plikt hvað varðar alþjóðlega samninga um útblástur gróðurhúsalofttegunda. Það hefði mátt setja meiri metnað í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál. Við vinnslu áætlunarinnar var kvartað undan fjárskorti, enda vaxa peningarnir til að borga þessar aðgerðir ekki á trjánum sem verða gróðursett til höfuðs hnattrænnar hlýnunar. Hvaðan á þetta fé þá að koma? Augljóst er að ekkert mun standa undir þessum himinháu greiðslum á sjálfbæran hátt nema einhverjar af stærstu tekjulindir landsins; raforka, túrismi eða sjávarútvegur.
Nýting núverandi orku
Nú er staðan þannig að við Íslendingar framleiðum tæplega 3000 MW af orku. Hvernig viljum við að sú orka sé nýtt? Viljum við halda áfram að styðja við mengandi stóriðju eða viljum við fá grænan þekkingariðnað líkt og gagnaver í staðinn? Í þessu máli verður ekki bæði sleppt og haldið.
Hvert er þá Draumalandið?
Ætla mætti að Draumalandið framleiði sjálfbæra raforku sem það selur með methagnaði í þekkingariðnað, sem mengar ekkert, veldur samfélaginu engu heilsutjóni og ber ekki með sér náttúruspjöll. Hefðu slíkar forsendur legið fyrir árið 2006, hefði Draumalandið þá litið öðruvísi út og getað sameinað óhrædda þjóð?
Höfundur er framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands.