Á nýliðnu ári átti sér stað nokkur umræða um fyrirhugaða innleiðingu Íslands á þriðja orkupakka Evrópusamstarfsins. Þar er um að ræða tilteknar sameiginlegar reglur um orkumál, sem gilda eiga innan Evrópusambandsins (ESB) og Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í umræðunni komu fram ýmis ólík sjónarmið um áhrif þess ef eða þegar Ísland innleiðir þessar reglur. Sá ágreiningur sem þarna er uppi virðist einkum snúast um áhrif þess ef rafmagnskapall yrði lagður milli Íslands og Evrópu.
Í þessu sambandi kemur upp í hugann að breska fyrirtækið Disruptive Capital hefur nú í nokkur ár haft hug á lagningu slíks sæstrengs milli Bretlands og Íslands. Það verkefni er unnið undir formerkjum dótturfyrirtækis Disruptive Capital; Atlantic SuperConnection. Síðustu misserin virðist fyrirtækið hafa lagt talsvert aukinn þunga á að raungera verkefnið, sbr. nýlega tilkynning um fyrirhugaða byggingu kapalverksmiðju á Englandi til að smíða strenginn og nokkuð stíf fundarhöld starfsmanna fyrirtækisins með ýmsum hagsmunaaðilum á Íslandi.
Auk þess hafa Disruptive Capital og Atlantic SuperConnection nú tilkynnt hvaða verð er af þeirra hálfu álitið raunhæft eða mögulegt fyrir raforkuna sem verði seld og flutt til Bretlands frá Íslandi; 65 bresk pund pr. MWst. Fyrirtækin hafa samt ekki viljað útskýra hvort sú verðhugmynd feli í sér kaupverð á sjálfri raforkunni eða hvort umrædd verðhugmynd innihaldi einnig flutningskostnaðinn á orkunni til Bretlands. Meðan upplýsingar þar um liggja ekki fyrir er svo til útilokað að átta sig á fjárhagslegri skynsemi verkefnisins eins og það er sett fram af Bretunum.
Um leið virðist Disruptive Capital hafa augastað á HS Orku, en þar eru tækifæri til að nálgast talsvert magn af raforku fyrir sæstreng. M.ö.o. þá hefur fyrirtæki sem skráð er í Sviss og er sagt vera nátengt breska fyrirtækinu Disruptive Capital, nú eignast umtalsverðan hlut í HS Orku. Þar með virðist mögulegt að raforkuframleiðsla á Íslandi og raforkuflutningur milli Íslands og Bretlands verði að einhverju leyti á nánast sömu hendi.
Margt er þó óljóst um áætlanir breska fyrirtækisins. T.d. hafa upplýsingar þess um stærð og raforkuþörf kapalsins og hvaðan raforka til útflutnings frá Íslandi ætti að koma, verið óskýrar. Þá hafa þær tímaáætlanir sem fyrirtækið hefur kynnt verið misvísandi og almennt má segja að þær áætlanir virðast varla vera raunhæfar.
Afstaða ríkisstjórnarinnar og Alþingis gagnvart þessum áætlunum er ekki ljós. Og þrátt fyrir ýmsar vangaveltur hafa stjórnvöld ekki svarað því með skýrum eða afgerandi hætti hvort einkafyrirtæki geti einhliða lagt hingað rafstreng frá Evrópu, þ.e. án sérstaks samþykkis íslenskra yfirvalda. Frumkvæðið í málinu hefur komið frá breskum stjórnvöldum og ekki síður frá breska fyrirtækinu. Þar er varla í forgangi að gæta hagsmuna Íslendinga. Afar mikilvægt er að íslensk stjórnvöld hafi þarna fulla yfirsýn og stefnu sem setur þjóðarhagsmuni í öndvegi.
Í þessari grein er fjallað um umrædd áform breska fyrirtækisins Disruptive Capital.
Edmund Truell sér tækifæri í íslenskri orku
Umrætt sæstrengsverkefni Disruptive Capital er nefnt Atlantic SuperConnection. Þar á bæ ræður ríkjum maður að nafni Edmund Truell, sem jafnan mun vera kallaður Edi í góðra vina hópi. Lesendur geta sjálfir kynnt sér sögu hans á netinu. Þar er augljóslega um að ræða mann með geysilega fjárfestingareynslu og líklegt að hann geti hnýtt alla þá hnúta sem þarf til að raungera svona verkefni. Eða a.m.k. flesta hnútana.
Um teymið sem hefur þetta kapalverkefni með höndum má lesa á vef Atlantic SuperConnection. Þetta er fámennt teymi sem hefur margsinnis komið til Íslands og átt hér fjölda funda með orkufyrirtækjum, stjórnmálamönnum, sérfræðingum, almannatenglum, ýmsum öðrum hagsmunaaðilum o.s.frv. Þess skal getið að greinarhöfundur hefur tvisvar átt fundi með forráðamönnum breska fyrirtækisins, en sökum þess að þar var um trúnaðarsamtöl að ræða verða þau ekki rakin hér.
Truell sjálfur er vellauðugur og er t.a.m. áberandi styrktaraðili breska Íhaldsflokksins, eindreginn baráttumaður gegn gjöldum á fjármálafyrirtæki og alvanur því hvernig virkja má stjórnmálamenn til að koma verkefnum áleiðis. Og það er greinilegt að Edmund Truell sér áhugaverð tækifæri í íslensku rafmagni. Fyrirtæki á hans vegum er nýbúið að kaupa umtalsverðan hlut í HS Orku og þarna virðist markvisst unnið að því að koma sæstrengsverkefninu áleiðis og nálgast íslenska raforku fyrir kapalinn.
Allt að 1.200 MW kapall (en mögulega um 700 MW)
Umfang kapalsins sem Disruptive Capital hyggur á er af hálfu fyrirtækisins ýmist sagt vera 1 GW (1.000 MW), 1,1 GW (1.100 MW) eða 1,2 GW (1.200 MW). Þó svo það sé svolítið undarlegt að breska fyrirtækið haldi sig ekki við sömu töluna, má kannski segja að þetta þýði einfaldlega að fyrirtækið hafi ekki gert stærð kapalsins alveg upp við sig. En að það stefni á að hann verði á bilinu 1.000-1.200 MW. Endanleg ákvörðun þar um hlýtur, eðli málsins samkvæmt, að ráðast mjög af því hversu mikla raforku megi nálgast á Íslandi fyrir strenginn.
Það er reyndar mögulegt að Disruptive Capital hafi áhuga á mun minni kapli. Því s.l. sumar birtust fréttir um að kapallinn yrði mögulega á bilinu 600-700 MW. Sú frétt er að vísu fjarri þeim tölum sem sæstrengsfyrirtækið sjálft kynnir á vefsíðum sínum. Sennilega er hugmyndin um slíkan minni kapal þó raunhæfari, vegna þess að það er ekki hlaupið að því að nálgast nógu mikið magn af raforku á Íslandi fyrir stærri kapal. Þar að auki er eftirspurn eftir rafmagni hér innanlands sterk. Þess vegna er ekki ólíklegt að Disruptive Capital stefni nú að minni kapli, þ.e. á bilinu 600-700 MW sæstreng eða þar um bil. Jafnvel þó svo allt annað segi á vef fyrirtækisins.
Sæstrengurinn þarf aðgang að mikilli raforku
Sæstrengur milli Bretlands og Íslands er af hálfu Disruptive Capital sagður verða um 1.500 km langur (fræðilega séð gæti hann verið aðeins styttri). Og sem fyrr segir á stærð kapalsins, skv. vefsíðum breska fyrirtækisins, að verða sem nemur um 1-1,2 GW. Til samanburðar við þessa stærð má nefna að allar virkjanir Landsvirkjunar eru samtals um 2 GW. Annar samanburður er að allt aflið sem fyrirtækin á Grundartanga nota í dag slagar hátt í 1 GW. Sæstrengur upp á 1-1,2 GW er því mjög stórt verkefni á íslenskan mælikvarða.
Landsvirkjun hefur sagt að kapallinn myndi flytja um 5,700 GWst af rafmagni á ári hverju (auk þess yrði orkutap sennilega nálægt 100 GWst). Þarna miðar Landsvirkjun við 1.000 MW sæstreng. Þetta orkumagn jafngildir um þriðjungi af núverandi rafokuframleiðslu á Íslandi. Sæstrengur sem nýr viðskiptavinur íslenskra raforkufyrirtækja myndi því óhjákvæmilega hafa áhrif á orkumarkaðinn hér, þó svo erfitt sé að fullyrða hver áhrifin nákvæmlega yrðu. En þetta magn er t.a.m. talsvert meira orkumagn en öll sú raforka sem álver Norðuráls notar og sömuleiðis talsvert meira raforkumagn en álver Alcoa á Reyðarfirði notar. Sem sagt mjög mikið magn af rafmagni og þar með stóraukin samkeppni um íslenska orku.
Verði kapallinn 1.100 MW eða 1.200 MW þarf sæstrengurinn svo ennþá meiri raforku en Landsvirkjun miðar við og þá væntanlega allt að 7.000 GWst árlega. En eigi kapallinn að vera einungis 600-700 MW, eins og Disruptive Capital kann nú mögulega að stefna að, yrði raforkuþörfin eðlilega minni; kannski á bilinu ca. 3.500-4.000 GWst á ári. Það jafngildir um 20% af núverandi raforkunotkun á Íslandi og t.d. um 80% af allri þeirri raforku sem álver Norðuráls notar á ári hverju. Slík minni útgáfa af kapli er sennilega raunhæfari að teknu tilliti til smæðar íslenska raforkumarkaðarins.
Óljóst hvaðan raforkan myndi koma
Það liggur í hlutarins eðli að til að svona sæstrengur sé arðbær þarf hann aðgang að miklu magni af rafmagni. Og eins og áður sagði yrði það magn sennilega a.m.k. 3.500 GWst og jafnvel allt að 7.000 GWst árlega. Disruptive Capital hefur aftur á móti ekki útskýrt, nema með mjög óljósum hætti, hvaðan raforka fyrir sæstrenginn eigi að koma. Þetta er alveg sérstaklega áhugavert í því samhengi að hér á Íslandi er raforka sögð vera nálægt því að vera uppseld. Eftirspurnin er sögð svo mikil að yfirvofandi kunni að vera að heimili og smáfyrirtæki fái ekki nægt rafmagn. Samt er það svo að þegar starfsfólk Disruptive Capital og Atlantic SuperConnection tjá sig eða eru spurð útí raforkuframboðið á Íslandi, fullyrða þau jafnan að hér sé gnægð raforku sem geti nýst fyrir breskan markað.
Nýjar virkjanir, stækkun eldri aflstöðva og/eða stóriðjuorka?
Sæstrengur þarf sem sagt aðgang að mikilli raforku. Og meðan Landsvirkjun segir að orkan hér á landi sé nánast uppseld segir Disruptive Capital að hér sé nóg af orku fyrir sæstreng. Fyrirtækið hefur samt ekki útskýrt með skýrum hætti hvaðan raforkan á að koma sem á að selja og flytja út um strenginn.
Talsmenn Atlantic SuperConnection hafa að vísu bent á að hluti orkunnar fyrir sæstrenginn fengist með nýtingu á vatni sem nú fellur á yfirfalli á stíflum síðsumars og á haustin, t.d. við Kárahnjúka. En þetta er vel að merkja bara árstíðabundið framboð og þó svo sæstrengur gefi tækifæri á að stýra betur vatnsmagni í miðlunarlónum og auka afl núverandi virkjana, þá er þetta takmörkuð orka.
M.ö.o. þá þyrfti a.m.k. verulegur hluti af raforkunni í kapalinn væntanlega að koma frá öðrum uppsprettum en betri nýtingu núverandi kerfis. Og þar virðist fyrst og fremst um tvo möguleika að ræða: Annars vegar er bygging nýrra aflstöðva og virkjana. Hins vegar að raforka sem nú fer til Norðuráls verði seld til Bretlands um sæstrenginn.
Grundartangaorkan í sæstreng?
Einn möguleikinn er sem sagt sá að hér verði nokkuð mikið virkjað á næstu árum svo bæði sé unnt að uppfylla vaxandi innlenda eftirspurn og eftirspurn frá sæstreng. Hluti af þeim virkjunum yrði t.d. Hvalárvirkjun, stækkun núverandi aflstöðva Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og sennilega myndu einnig bráðlega rísa virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Hinn möguleikinn er að raforkan sem nú fer til álvers Norðuráls fari í sæstrenginn, en raforkusamningar Norðuráls koma einmitt flestir til endurskoðunar á árunum í kringum 2025 eða þar um bil.
Það sem Disruptive Capital horfir til gæti verið sambland af báðum þessum möguleikum. Þ.e. að hluti raforkunnar fyrir sæstrenginn komi frá nýjum virkjunum, t.d. Hvalárvirkjun á Ströndum og nýjum virkjunum í neðri hluta Þjórsár, ásamt stækkun núverandi aflstöðva, t.d. í efri hluta Þjórsár og jafnvel stækkun í Fljótsdalsstöð. Og hluti orkunnar í strenginn verði raforka sem Norðurál er að nota í dag, t.d. orkan sem Norðurál kaupir nú frá HS Orku.
Loks verður líka að hafa í huga þann möguleika að einungis s.k. umframorka og sveigjanlegt afl verði nýtt til útflutnings. Í þeim hugmyndum er m.a. gert ráð fyrir gríðarlegri aflaukningu í Fljótsdalsstöð með tilheyrandi auknum sveiflum í vatnsmagni Lagarfljóts. Slíkt fyrirkomulag, þ.e. mjög lítið eða nánast ekkert nýtt grunnafl, gæti gert sæstreng of áhættusama fjárfestingu til að vera raunhæf. En hvað sem því líður, þá er a.m.k. augljóst að sæstrengur myndi óhjákvæmilega skapa hér nýja eftirspurn, sem öll íslensk orkufyrirtæki myndu sjálfsagt hafa áhuga á eða íhuga að mæta.
Kapalverksmiðja í undirbúningi og kapallinn sagður tilbúinn 2025
Raunveruleikaskynið hjá Disruptive Capital virðist stundum nokkuð sérkennilegt. Fyrir um tveimur árum síðan sagði áðurnefndur Edmund Truell að kapallinn milli Bretlands og Íslands gæti verið tilbúinn strax 2023. Af augljósum ástæðum er slíkt ekki mögulegt; það er einfaldlega útilokað að koma verkefninu í kring á svo stuttum tíma. Ennþá fráleitara er að kapallinn verði kominn í rekstur strax 2022 eins og líka má lesa á heimasíðu Disruptive Capital.
Eftir stendur spurningin hvort kapallinn geti orðið tilbúinn 2025 eins og segir á heimasíðu Atlantic SuperConnection. Og breska fyrirtækið áformar nú byggingu kapalverksmiðju á Englandi. Ef þær áætlanir Disruptive Capital ganga eftir verður raforkuútflutningur héðan til Bretlands byrjaður eftir aðeins um sex ár. Þetta er að vísu varla raunhæft tímamark. Það breytir því ekki að verkefnið er áhugavert og það er eðlilegt að þessi áform veki eftirtekt og umræðu í samfélaginu. Sú umræða mætti samt bæði vera meiri og vandaðri en verið hefur.
Verðið á orkunni sagt verða um 65 pund/MWst (um 85 USD)
Samkvæmt vef breska fyrirtækisins gæti verðið á raforkunni frá Íslandi verið um 65 bresk pund á hverja MWst. Þetta verð segir Disruptive Capital gera íslensku raforkuna samkeppnishæfa á breskum markaði. Í því sambandi hefur verið vísað til þess að þetta verð, 65 GBP/MWst, sé umtalsvert undir því verði sem breska ríkið hefur tryggt kjarnorkuverinu Hinkley Point C. Þar er viðmiðunarverðið 92,5 bresk pund pr. MWst á verðlagi ársins 2012. Disruptive Capital leggur þannig ríka áherslu á að kynna verkefnið sem fjárhagslega skynsamlegan kost fyrir bresk stjórnvöld, sem myndu mögulega ábyrgjast tiltekið lágmarksverð, t.d. 65 GBP/MWst.
Miðað við meðalgengi ársins 2018 jafngilda 65 GBP um 85 USD. Edmund Truell álítur sem sagt eðlilegt að verðið á íslenska rafmagninu verði um eða nálægt 85 USD/MWst (m.v. gengi breska pundsins gagnvart dollar árið 2018). Til samanburðar má nefna að meðalverð á raforku Landsvirkjunar í almennri heildsölu var nálægt 40 USD/MWst á rekstrarárinu 2017. Verð Landsvirkjunar til stóriðjunnar hér er aftur á móti lægra. Það er því veruleg hagnaðarvon með raforkusölu um sæstreng. En það er samt afar óljóst hversu mikils hagnaðar þarna mætti vænta.
Óskýrt hvað Disruptive Capital á við með viðmiðunarverðinu
Disruptive Capital hefur ekki viljað segja hvort með þessu orkuverði, þ.e. 65 pund/MWst eða um 85 USD/MWst, sé átt við heildsöluverðið sem íslensk raforkufyrirtæki myndu fá fyrir orkuna. Eða hvort þarna sé átt við heildsöluverðið sem íslenska raforkan eigi að kosta þegar hún er komin til Bretlands og þá með flutningskostnaði um sæstrenginn. Það væri augljóslega áhugavert að fá svar við þeirri einföldu spurningu; spurningu sem greinarhöfundur hefur ítrekað beint til Atlantic SuperConnection en ekki fengið skýrt svar við.
Þarna munar miklu, enda hefur verið gert ráð fyrir að flutningskostnaður á hverri MWst geti verið um 30 EUR, sem væri nálægt 35 USD/MWst miðað við núverandi gengi. Og það er satt að segja fjarska einkennilegt að Disruptive Capital skuli ekki treysti sér til að svara þeirri einföldu spurningu hvort hugsun þeirra sé sú að flutningskostnaður um strenginn sé innifalinn í umræddri tölu upp á u.þ.b. 85 USD/MWst eða ekki. Disruptive Capital ætti að hafa í huga að til að sátt geti orðið um svona verkefni, sem er risavaxið á íslenskan mælikvarða, verður breska fyrirtækið að gæta þess að vera ekki misvísandi eða kynna óljósar upplýsingar.
Hvernig verður hagur Íslands af sæstreng metinn?
Sennilega er ólíklegt að af þessu verkefni verði nema með beinni aðkomu íslenskra stjórnvalda. Sem þá munu væntanlega vilja hafa síðasta orðið m.a. um viðskiptamódel sæstrengsins. Þar að auki verður væntanlega litið til álits þjóðarinnar um slíkan útflutning. Sæstrengur myndi t.a.m. eflaust mæta mótstöðu hér á landi ef slíkt verkefni yrði til þess að hér loki stóriðja og/ eða að hér þurfi að ráðast í mörg virkjunarverkefni fyrir strenginn. Væntanlega mun þjóðhagslega hagsmunamatið þó fyrst og fremst snúast um reikningsdæmið í heild, fremur en einstök stóriðjufyrirtæki og/ eða tilteknar nýjar virkjanir. Í reynd er ennþá óljóst hvaða forsendur eiga að liggja að baki verkefni af þessu tagi.
Mikil hagnaðarvon eigenda sæstrengsins
Fyrirtæki sem hyggst eignast flutningsleið raforku milli Íslands og Bretlands horfir eðlilega til þess að hagnast af þeirri flutningsleið. Í þessu sambandi er athyglisvert að í Noregi er nú talsvert rætt um hvort það hafi verið mistök að afnema einkarétt norska ríkisfyrirtækisins Stanett á að eiga slíka sæstrengi. Fram að þessu hafa allir norsku sæstrengirnir verið a.m.k. í helmingseigu norska flutningsfyrirtækisins Statnett, sem er 100% í eigu norska ríkisins, en það skilyrði hefur nú verið afnumið og áforma nú önnur fyrirtæki að leggja slíka sæstrengi. M.a. er einn slíkur nú í undirbúningi milli Noregs og Bretlands.
Íslandi er reyndar meiri vandi á höndum en Noregi gagnvart því að fjárfesta í sæstrengjum fyrir raforkuflutninga. Landsnet hefur t.a.m. ekki sama fjárhagslega styrkleika eins og norska Statnett (þar að auki er Landsnet ekki í ríkiseigu). Sá möguleiki að Landsnet eða íslenska ríkið ætti t.d. helming í sæstreng milli Íslands og Bretlands (ásamt t.d. breska flutningsfyrirtækinu National Grid) er sem sagt kannski vart raunhæfur kostur.
M.ö.o. þá verður sæstrengur milli Íslands og Bretland kannski aldrei að veruleika nema með aðkomu einkaaðila. Og þeir einkaaðilar sjá eðlilega hagnaðarvon í slíku verkefni. Eða eins og segir á heimasíðu Disruptive Capital: „We exploit dislocations in markets and unlock value from complex situations using a Get Rich and Stay Rich strategy.“ Eftir stendur þá sú spurning hvernig Íslendingum hugnast að erlent einkafyrirtæki eigi [einu] flutningsleið raforku milli Íslands og Bretlands?
Eignast sæstrengsfyrirtækið HS Orku?
Nú virðist Disruptive Capital horfa til þess, auk þess að leggja og eiga sæstrenginn, að eignast virkjanir á Íslandi eða a.m.k. hlut í slíkum virkjunum. Þar er um að ræða jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir HS Orku; virkjanir sem nú einkum selja raforku á lágu verði til stóriðju. Samkvæmt fréttum hefur svissneskt fyrirtæki, sem er nátengt Disruptive Capital og Atlantic SuperConnection unnið að kaupum á umtalsverðum hlut í HS Orku. Og nú munu þau kaup vera frágengin og fjárfestingafélag í eigu Edmund’s Truell er sagt greiða rúmlega níu milljarða króna fyrir 12,7 prósenta hlut í HS Orku.
Þar að auki hefur meirihlutaeigandi HS Orku, kanadíska fyrirtækið Innergex, nú lýst áhuga sínum á að selja hlut sinn í íslenska orkufyrirtækinu. Þarna kann Disruptive Capital að hafa fundið tækifæri til að nálgast raforku á Íslandi fyrir sæstrenginn sinn. A.m.k. mun Disruptive Capital hafa tekist að kveika áhuga hjá ýmsum fjárfestum á sæstrengsverkefninu og eru þar nefnd til sögunnar franska fjárfestingafyrirtækið Meridam, ásamt fjárfestingasjóðum frá Kanada, Kína, Mið-Austurlöndum og Singapore.
Sökum þess að Disruptive Capital mun strax árið 2015 hafa skoðað það af alvöru að kaupa HS Orku, myndi varla koma á óvart ef fyrirtækið gerir aðra tilraun til að eignast meirihlutann í HS Orku núna þegar kanadíska Innergex hefur sett hlut sinn í sölu. Það verður a.m.k. athyglisvert að sjá hver kaupir hlut Innergex og eignast þar með meirihlutann í HS Orku, ef ef sölunni verður. Þarna kann líka að vera tækifæri fyrir Norðurál að tryggja sér raforku, svo og mögulega önnur stóriðjufyrirtæki hér. Kemur í ljós.
Norðurál gæti lent í þröngri stöðu
Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta sæstrengsverkefni þróast. Ef verkefnið heldur áfram á fullu skriði blasir við hvaða fyrirtæki það er hér á Íslandi sem er líklegast til að lenda þarna í þröngri stöðu. Það er einföld staðreynd að raforkusamningur Norðuráls við HS Orku rennur út eftir einungis fáein ár (og reyndar líka aðrir orkusamningar Norðuráls). Aðferðafræði Disruptive Capital hlýtur þess vegna að vera sérstakt áhyggjuefni fyrir Norðurál og þá bæði Century Aluminum, eiganda Norðuráls, og starfsfólk álversins í Hvalfirði. Þetta gæti reyndar valdið því að Norðurál reyni sjálft að að kaupa HS Orku. En þó svo talsmenn stóriðju á Íslandi hafi sennilega mestar áhyggjur af sæstreng vegna samkeppninnar sem þar myndast um raforkuna, eru eflaust fleiri hér sem eru hugsi yfir áformum Disruptive Capital.
Með kaupum á stórum hlut eða jafnvel meirihluta í HS Orku gæti Disruptive Capital horft til þess að ráðstafa eigin raforku frá HS Orku í sæstrenginn. Raforkuframleiðsla HS Orku, sem mun vera nálægt 1,2 TWst á ársgrundvelli, er að vísu ekki næg fyrir 600 MW né fyrir 1.000 MW sæstreng og enn síður nóg fyrir 1.200 MW sæstreng. En stór hluti þeirrar orku eða jafnvel öll raforkan sem HS Orka framleiðir, svo og raforka frá t.a.m. fyrirhugaðri Hvalárvirkjun, ásamt árstíðabundinni yfirfallsorku frá Landsvirkjun, gæti farið langt með að gera Disruptive Capital kleift að koma sæstrengsverkefninu í höfn. Ekki síst ef sæstrengurinn verður minni en fyrst var gert ráð fyrir og þá kannski á bilinu 600-700 MW.
Óvissa um lagalega stöðu sæstrengs
Það er bersýnilega mikill vilji af hálfu Disruptive Capital til að nálgast íslenska orku og selja hana til Bretlands. Og nú er komin upp sú áleitna spurning hvort Landsneti væri lagalega skylt að verða við ósk frá Disruptive Capital um tengingu við sæstreng. Lögfræðingar virðast hafa mismunandi skoðanir um þetta. Þarna er sem sagt uppi einhver vafi, að því er virðist. Sú óvissa hlýtur að vera óæskileg.
Það er að vísu vandséð að nokkur geti ráðist í svona umfangsmikið verkefni, sem sæstrengur er, nema hafa fullan stuðning íslenskra stjórnvalda og ríkisstjórnar um að slíkt verkefni verði að veruleika. Hvort slíkur stuðningur er fyrir hendi hjá núverandi ríkisstjórn eða meirihluta Alþingis veit greinarhöfundur ekki. Æskilegt væri að afstaðan þarna, hver svo sem hún er, væri skýr.
Um leið þurfa íslensk stjórnvöld að átta sig á því að gildistaka þriðja orkupakkans getur í nokkrum tilvikum leitt til þess að ákvörðunarvald um nýtingu sæstrengs milli Íslands og Evrópu verður hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og við slíkar ákvarðanir ber ESA að byggja ávörðun sína á viðeigandi reglum Evrópusambandsins (ESB). Þetta hefur t.a.m. komið skýrt fram hjá hinum norska Henrik Bjørnebye, sem er prófessor og sérfræðingur í orkurétti hjá Nordic Institute of Maritime Affairs í Osló.
Það virðist sem sagt raunverulegur möguleiki á því að upp geti komið sú staða að bindandi ákvarðanir um nýtingu sæstrengs verði teknar hjá ESA og að þar verði alfarið byggt á löggjöf sem á uppruna sinn hjá Evrópusambandinu og að hagsmunir Íslands verði þar undir. Þetta er atriði sem skynsamlegt væri að greina betur áður en til þess kemur að Ísland undirgangist reglur þriðja orkupakkans án fyrirvara. En jafnvel ennþá stærri spurning er sú hvort eðlilegt sé að sama fyrirtæki eignist slíkan sæstreng og virkjanir á Íslandi. Af augljósum ástæðum hlýtur slíkt fyrirkomulag eignarhalds a.m.k. að orka svolítið tvímælis.
Hvað er hagkvæmast fyrir Íslendinga?
Sá sem þetta skrifar er sem fyrr talsmaður þess að leita leiða til að auka arðsemi í íslenska raforkugeiranum, en arðsemin þar hefur verið lág. Þó svo arðsemistækifæri vegna útflutnings á raforku hafi upp á síðkastið farið minnkandi, gæti sæstrengur hjálpað til að orkuauðlindirnar hér skapi meiri arð en ella. Um leið er greinarhöfundur á varðbergi gagnvart fákeppni og einokunaraðstöðu. Að teknu tilliti til slíkra atriða vakna t.a.m. spurningar um hvort það sé heppilegt að sama eða nátengd fyrirtæki bæði eigi slíkan sæstreng og hlut í íslenskum raforkufyrirtækjum og/eða virkjunum. Til samanburðar má hafa í huga að það væri t.a.m. nokkuð sérkennilegt ef Landsnet væri byrjað að kaupa hér upp virkjanir.
Það blasir við að fyrirtæki sem eignast sæstreng milli Íslands og Bretlands mun geta orðið í mjög sérstakri og sterkri stöðu. Sú flutningsleið myndi ekki fá neina samkeppni fyrr en kannski í fjarlægri framtíð þegar annar sæstrengur yrði mögulega lagður. Það er því fullt tilefni til að skoða þetta sæstrengsmál til hlýtar og þá bæði kostina og gallana við hinar ýmsu útfærslur. Og varast að hér verði gerð þjóðhagsleg mistök. Höfum í huga að það var t.a.m. ekki sjálfgefið að Norðmenn eignuðust ólíusjóð, né heldur gerðist það sjálfkrafa Norðmenn hafa svo til algera stjórn á tekjumyndun vegna gasflutninga frá norska landgrunninu. Þarna er fyrirhyggja lykilatriði.
Stjórnvöld eiga að hafa góða yfirsýn og skýra stefnu
Það er ekkert athugavert við það að Disruptive Capital sýni íslenskri raforku áhuga og vilji reyna sig hér við raforkuviðskipti og/ eða raforkuflutninga. Og það er jákvætt að sterk eftirspurn sé eftir raforku framleiddri á Íslandi, rétt eins og það er mikilvægt að góð eftirspurn sé eftir íslenskum sjávarafurðum, íslenskri tækni o.s.frv. En það er kannski umhugsunarvert ef lög hér leyfa að sama eða nátengd fyrirtæki myndu bæði eiga sæstrenginn og íslenskar virkjanir eða umtalsverðan hlut í slíkum virkjunum. Mikilvægt er að stjórnvöld hér kryfji málið til mergjar og fái það t.a.m. alveg á hreint hver lagalega staðan þarna er í raun og veru og hvernig best sé að tryggja íslenska þjóðarhagsmuni. Fremur en að breskur auðmaður stýri þessu og jafnvel ákveði verðið á íslenskri raforku.
Til athugunar: Greinarhöfundur vinnur að vindorkuverkefnum á Íslandi í samstarfi við norrænt orkufyrirtæki. Þau verkefni miðast við innlendan raforkumarkað eingöngu (það gæti eðlilega breyst ef sæstrengur yrði lagður). Höfundur álítur að sæstrengur kunni að verða skynsamlegt verkefni og að við munum sennilega sjá slíka tengingu í framtíðinni, hvort sem það verður eftir tíu ár eða aldarfjórðung eða síðar. En að teknu tilliti til minnkandi arðsemistækifæra á evrópskum raforkumörkuðum undanfarin ár og mikilvægi þess að ekki sé ráðist í svona verkefni nema hagsmunir Íslands séu tryggðir sem best, þá þarfnast slíkt verkefni miklu ítarlegri skoðunar, umfjöllunar og opinberrar umræðu áður en hægt er að fullyrða um ágæti þess eða ómöguleika.