„Ef maður snapar sér yfirvinnu er uppbótin tekin í skatt. Jólauppbót og orlofsuppbót, allt er tekið í skatt. Þetta er eins og synda í tjöru.“
Sigurgyða, láglaunakona og meðlimur í Eflingu.
Fyrir nokkrum dögum síðan spjallaði ég við konu, félagsmann Eflingar, eina af fjölmörgum sem tilneyddar vinna undir þeirri kvenfjandsamlegu láglaunastefnu sem fengið hefur að dafna meira og minna óáreitt á íslenskum vinnumarkaði. Þessi kona er með sýkingu í öðru eyranu en sökum þess að henni er gert að komast af á launum sem allt heiðarlegt fólk veit að duga ekki til eins né neins og vegna þess að hún er fráskilin tveggja barna móðir sem þarf að reka heimili getur hún ekki leyst út lyfin sem hún þarf að nota fyrr en um mánaðarmótin. Þessi kona hefur árum saman staðið sína plikt sem vinnuafl, sem „hagsmunaaðili“ á íslenskum vinnumarkaði. Svona er staðan engu að síður í hennar lífi. Ég held að það sé óhætt að segja að hagsmunir hennar hafi þurft að lúta í lægra haldi fyrir hagsmunum hinna hagsmunaaðilanna á vinnumarkaðnum.
Konur um víða veröld rísa nú upp og krefjast þess að langanir þeirra og þarfir verði ekki áfram afgangsstærðir þegar kemur að því að skipuleggja mannlega tilveru, að þær fái pláss til að ákveða hvernig líf þær vilja. Láglaunakonur á Íslandi eru í nákvæmlega þessari baráttu: Okkur hefur verið gert að spila eftir leikreglum sem við komum ekki nálægt að semja og hin óumflýjanlega niðurstaða þeirrar tilhögunar er sú að leikreglurnar henta okkur alls ekki vel. Þvert á móti; þær henta okkur afskaplega illa. Það hentar okkur illa að þurfa að vinna langa daga í krefjandi störfum til þess eins að eiga kannski (og kannski ekki) nóg fyrir nauðsynjum. Það hentar okkur illa að enginn hafi axlað þá ábyrgð að gæta þess að við höfum aðgang að góðu húsnæði á eðlilegu verði. Það hentar okkur illa að skattbyrði hafi verið aukin á þau sem minnst hafa á milli handanna. Það hentar okkur illa að við sjálfar höfum ekkert um verðlagninguna á vinnu okkar að segja; af því leiðir að við erum verðlagðar eins og hvert annað drasl. Við erum neðstar í hinu efnahagslega stigveldi.
Við eigum því ekki annarra kosta völ en að hafna leikreglunum; ef að við samþykkjum óbreytt ástand erum við að samþykkja að okkur sé ekki ætlað annað hlutskipti en að vera ódýrt vinnuafl. Og það kemur ekki til greina.
Við verka- og láglaunakonur eigum skilið hærri laun. Við eigum skilið skattkerfi sem gerir líf okkar betra og auðveldara. Við eigum skilið að fá að hefja vegferð okkar í átt að því frelsi sem okkur hefur kerfisbundið verið neitað um. Fyrir þessu ætlum við að berjast.
Þau sem taka afstöðu gegn kröfu verka og láglaunafólks um að lágmarkslaun verði 425.000 krónur á þremur árum eru í raun að krefjast þess að láglaunakonur haldi áfram að færa fórnir, að við höldum áfram að selja tíma okkar og líf ódýrt, að við höldum áfram að vera ófrjálsar. Til þess hafa þau nákvæmlega engan rétt.
Það er einfaldlega komið að skuldadögum; við ætlum okkur að fá það sem við eigum inni.
Hinn sanni mælikvarði á samfélag er geta þeirra sem að það byggja til að sýna manngæsku og samhygð. Þegar við gefum þau gildi upp á bátinn og látum sem framagirni og auðsöfnun, yfirráð og valdagræðgi, arðrán og misskipting séu betri, í raun hin réttu gildi erum við í vondum málum. Þegar við látum eins og það sé sjálfsagt mál að konur vinni langa og erfiða daga en geti samt aldrei látið sig dreyma um efnahagslegt öryggi, geti ekki látið enda ná saman, geti ekki leyst út lyf, þurfi að sætta sig tilveru sem er eins og synda í tjöru höfum við gengið til liðs við óréttlætið. Því það er augljóst að það er einfaldlega óréttlátt að ætlast til þess að við sem vinnum á útsölumarkaði íslensks atvinnulífs samþykkjum möglunarlaust að okkar yfirgengilega lágu laun séu lykilinn að stöðugleika á Íslandi.
Við getum ekki samþykkt að áframhaldandi kúgun á okkur sé eina niðurstaðan í leiknum. Ef að leikreglurnar eru svo gallaðar eigum við einfaldlega ekki annara kosta völ; við verðum að breyta leiknum, reglunum og niðurstöðunni. Og það ætlum við, verka- og láglaunakonur, að gera.
Höfundur er formaður Eflingar.