Hvert er hlutverk kennara?
Ég spyr mig að þessu þar sem ég hlusta úr fjarlægð á almennar umræður um átak til að fjölga kennurum í landinu.
Um leið er ég að leggja drög að því að bætast í hóp kennara. Ég hlakka til að miðla þekkingu og eiga samtöl við nemendur. Að sumu leyti er draumurinn þó ef til vill draumsýn við núverandi aðstæður. Ég man of vel hversu erfitt það gat verið fyrir kennara að fá frið til að kenna vegna þess að það fór svo mikill tími í að hafa stjórn á stórum bekkjum með spriklandi nemendum af öllum stærðum og gerðum. Einn kennari úr gagnfræðaskóla mátti prísa sig sælan að appelsína úr nestisboxi nemanda smassaðist á töflunni fremur en í flasinu á honum sjálfum, þangað sem ferð hennar var heitið.
Er kennarastarfið ef til vill óhjákvæmilega eins og foreldrahlutverkið; þarfnast það fólks með hæfileika á öllum sviðum (meðal annars í appelsínu skotbolta) eða getur hin faglega þekking kennara fengið að njóta sín í skólastofunni öllum til hagsbóta?
Í kennararéttindanáminu var mikið fjallað um annars vegar hlutverk kennara og hins vegar hlutverk heimilisins. Þetta er vissulega þörf umræða en að hluta til kannski leit að kartöfluhöldurum, það er að segja -hver á að halda á heitu kartöflunni- eða, hver á að sinna öllu því sem er í raun ekki kennsla en sem fylgir kennslu og uppeldi?
Ég hallast að því að það þurfi fyrst og fremst fleiri hendur til að sinna ungu kynslóðinni og það kostar vissulega peninga.
Hlutverk kennarans hlýtur að einhverju leyti að vera að taka þátt í uppeldishlutverkinu og það er líka eitt af því skemmtilega við starfið býst ég við. En hversu marga kennara þarf til að sinna, með góðu móti, tuttugu halakörtum? Hefur farið fram einhver rannsókn á því? Tímum við sem samfélag að setja pening í að fjölga í markinu?
Höfundur er með margvíslega menntun; heimspeki, lögfræði, mannfræði og á góðri leið með að öðlast kennsluréttindi í framhaldsskóla.