Einhvern veginn datt ég í lukkupottinn við fæðingu. Ég veit ekki af hverju ég var útvalin af sjö milljörðum jarðarbúa, en það bara vill þannig til að ég er heppnasta manneskjan í veröldinni. Ég á nefnilega bestu mömmu í heimi.
Mamma mín er dásamleg. Hún hringir í mig að fyrrabragði og er til í að hlusta á hvaða sögu sem ég hef að segja; óspennandi trukkasögur um daglegt líf eða æsispennandi dramatískar frásagnir af samskiptum mínum við hina og þessa. Hún hrósar mér og finnst ég einhvern veginn vera langtum stórkostlegri manneskja en ég get nokkurn tímann staðið undir. Hún hvetur mig áfram og leysir úr vandamálum mínum þegar ég er ekki fær um það sjálf. Hún syngur með mér Se hvilken morgenstund raddað og eldar fyrir mig ljúffengan mat. Það eina sem okkur greinir á um er þegar hún heimtar að ausa í mig peningum, þrátt fyrir að vera bara á kennaralaunum. Þegar ég var unglingur og ákvað að bíða næturlangt í biðröð eftir Harry Potter og Fönixreglunni við Mál og menningu á Laugavegi kom hún alla leið af Álftanesi með heitt kakó til að verjast kuldanum. Ekki bara fyrir mig sko, heldur fyrir alla í röðinni. Í stórum potti. Svo er hún, með fullri virðingu fyrir hinum þremur, ótrúleg amma sem hefur endalausa þolinmæði og athygli að gefa. Stundum kemur hún og hjálpar mér að taka til þegar ég er að kikna undan álagi.
Hvað með börnin?
Móðurhlutverkið hefur heldur betur verið í umræðunni síðustu misseri. Ástæðan er sú að skoðanaglöðum kommenturum þykir sannað að Freyja Haraldsdóttir sé með öllu óhæf til að verða móðir. Hún er kölluð öllum illum nöfnum. Frekjudolla. Veruleikafirrt. Sjálfselsk. Hvað með börnin?
Fæstir þeirra sem hafa hæst í athugasemdum þekkja Freyju persónulega eða hafa umgengist einstaklinga með Notendastýrða persónulega aðstoð. Allt í einu er móðurhlutverkið smættað niður í bleyjuskipti og matartíma. Þú getur ekki verið hæft foreldri nema þú getir dílað við kúkableyju með þínum eigin höndum. Ég efast ekki um að hátt hlutfall afskiptasamra í athugasemdum hafi alið barn. Þrátt fyrir það virðist það gleymast út á hvað uppeldi gengur, því að útlit og líkamlegt atgervi Freyju er fólki svo framandi að staðreyndunum er drekkt með upphrópunum.
Mér hlotnaðist nýverið sá heiður að verða móðir. Ég skipti á bleyjum daglega. Ég gef stráknum mínum máltíðir mörgum sinnum á dag. Það er augljóslega lífsnauðsynlegt fyrir hann. Það er hins vegar bara pínulítill hluti af uppeldi hans. Þegar frá sólarhringnum hafa verið dregin 8 bleyjuskipti og 5 matmálstímar standa eftir svona 20 tímar af annars konar samneyti. Athygli og ást. Grettum og hlátri. Að kjá framan í ungabarn er langtum tímafrekara og mikilvægara en að þvo því í framan. Að kenna barni móðurmálið með því að tala við það krefst meiri núvitundar og viðveru en að bera á barn bossakrem. Hlutverk mitt sem móðir stráksins er fyrst og fremst að vera til staðar.
Kúkableyjur og kommentakerfið
Freyja getur ef til vill ekki skipt á kúkableyju. Hún gæti sennilega ekki séð um ungabarn án aðstoðar, frekar en aðrar athafnir daglegs lífs sem hún þarf aðstoð við að takast á við. En hún er ekki án aðstoðar. Hún hefur aðstoðarfólk sem tekur sér hlutverk handa hennar og fóta. Vonandi mun samfélagið áfram sjá verðmætið sem felst í því að gefa fötluðu fólki frelsið sem fæst með NPA-stuðningi, sem hefur nú verið lögleiddur. Það er því ólíklegt að fólk sem er mjög hreyfihamlað, eins og til dæmis Freyja, missi þau réttindi sem það hefur. „Aðstoðarmanneskjan“ (í eintölu, með greini) sem fólkið í kommentakerfunum nefnir gjarnan eru teymi einstaklinga í vaktavinnu sem myndu vissulega þurfa að veita þessa líkamlegu aðstoð en umfangið er háð aldri barnsins. Ástin, umhyggjan, stuðningurinn og manneskjan sem væri til staðar allan sólarhringinn árin um kring er raunverulega fósturforeldrið. Óháð líkamlegu atgervi viðkomandi einstaklings.
Það sem gerir mömmu mína að bestu mömmu í heimi eru umhyggjan, athyglin, hvatningin, ástin, hlustunarhæfnin og stuðningurinn. Viðmótið er það sem gerir hana að hæfri móður. Þessu virðist Barnaverndarstofa reyndar vera sammála, en á vef Barnaverndarstofu stendur meðal annars þetta:
Börn í fóstri eru alveg eins og önnur börn. Mismunandi. Sameiginlegt með þeim öllum er þörfin fyrir að hinir fullorðnu geti veitt þeim öryggi, umhyggju og ást. Fyrir börnin fjallar þetta oft um það sem flestir taka sem sjálfsagðan hlut. Að einhver hjálpi þeim með heimalærdóminn, fylgi þeim á íþróttaæfingu og hvetur þau frá hliðarlínunni. Einhver sem segir „góða nótt“ og sér til þess að þú sefur rótt. Allar nætur. Einhver sem er tilbúin til að hlusta, tilbúin til að spyrja og tilbúin til að vera til staðar á erfiðum tímum og góðum stundum.
Hvergi sé ég minnst á bleyjuskipti. Hvergi sé ég minnst á að það sé nauðsynlegt að geta spennt börn í bílstólinn með eigin höndum. Öll áherslan á síðunni er á andlegan stuðning og hvatningu. Allt sem þarna er talið upp getur fötluð manneskja gert.
Fagleiki í fósturforeldraferlinu
Að öllu þessu sögðu, þá er það ekki mitt hlutverk að leggja mat á það hvort Freyja Haraldsdóttir sé hæf móðir. Til þess hef ég hvorki fagmenntun né reynslu. Það að hafa setið með henni í enskutímum í 9. bekk er ekki viðunandi sönnunargagn til að leggja til grundvallar slíku mati. Ég er hins vegar alls ekki sannfærð um að líkamleg fötlun sé úrslitaþáttur þegar kemur að uppeldishæfni.
Það sem ég leyfi mér þó óhikað að hafa skoðun á eru réttindi fatlaðs fólks til að hafa sömu tækifæri og annað fólk í samfélaginu. Það hefurðu sannarlega ekki ef þú færð ekki að njóta sama ferlis og aðrir umsækjendur. Freyja framvísaði fullt af meðmælum um hæfni hennar til að verða fósturforeldri. Samt ákvað sálfræðingur, sem aldrei hafði hitt Freyju, að ljóst mætti vera að hún væri ófær um að annast barn. Hún fær ekki að sitja námskeið sem er, samkvæmt 9. grein reglugerðar Félagsmálaráðuneytisins um fóstur, hluti af matsferlinu um hæfni einstaklings til þess að gerast fósturforeldri. Það misrétti, að lúta ekki sömu lögmálum og aðrir, finnst mér ekki í lagi.
Ef móðir mín myndi missa heilsuna eða fatlast, yrði hún samt sem áður móðir mín. Hún gæti kannski ekki hjálpað mér við húsverkin, en í heildarsamhenginu skiptir það engu máli. Ég er 32 ára heilsuhraust manneskja og ætti alveg að geta séð um þau sjálf. Allt sem ég þarf er einfaldlega að hún elski mig.