Við erum stödd í miðri byltingu, fjórðu iðnbyltingunni. Þekkingin í dag dugir ekki til þess að mæta kröfum morgundagsins. Tækninni fleygir hraðar fram en við hefðum e.t.v. kosið og við náum einhvern veginn aldrei almennilega utan um hana. Við eltum hana eins og við eigum lífið að leysa með misgóðum árangri.
En hvað er til ráða? Hvað er það sem í raun og veru þarf til þess að fanga þessa byltingu og nýta hana til að samfélagið allt eflist sem skyldi í takt við nýja tíma?
Svarið er einfalt: Menntun.
Menntun skiptir öllu máli. Ef lítil þjóð ætlar að nýta sér hraða tæknibreytingu, byltinguna sjálfa til góðs og gagns í þágu atvinnulífs og vaxtar samfélagsins þarf menntakerfið að umfaðma þessa byltingu og leggja áherslu á að byggja upp þá þekkingu og hæfni sem stafræna byltingin krefst. Samfélagið allt er hluti af byltingunni, þótt breytingin gangi mishratt fram á hinum ólíku sviðum þess.
Á hverju skólastigi þarf að velta fyrir sér hvert sé hlutverk þess í byltingunni og hvernig það geti sem best búið nemendur undir þátttöku í samfélagi sem er að taka gríðarlega miklum breytingum. Þar sem hugmyndasköpun, frumkvæði, áræðni skipta máli samhliða þekkingu og færni á því sem starfrænni byltingu fylgir og því sem í henni felst. Slík þekking eða færni skapast ekki af sjálfu sér.
Við getum komið öflug til leiks, en til þess að svo verði þurfa öll skólastig að taka höndum saman og ganga í takt. Það þarf að taka verkefnið föstum tökum og setja það í forgang. Þekkingin þarf að nýtast þeim börnum og ungmennum sem eru að stíga upp í miðri byltingunni og munu starfa í tæknilegum síbreytileika.
Við erum þegar stödd í byltingunni miðri og unga fólkið okkar býr því miður ekki að þeirri þekkingu og færni sem dugar ef við ætlum að vera fremst meðal þjóða.
Það er á okkar ábyrgð að tryggja framgang þessarar tæknibyltingar og að við séum í stakk búin til að verða samkeppnishæf á alþjóðamarkaði. Þekking og færni í hinum stafræna heimi hefur og mun hafa áhrif á allar starfsgreinar.
Það er ekki eftir neinu að bíða. Við erum svo lánsöm að nú þegar hefur skapast umtalsverð þekking og reynsla meðal einstaklinga í atvinnulífinu. Sú þekking er samfélaginu afar dýrmæt og hana þarf að styrkja og varðveita. Menntastofnanir og atvinnulíf þurfa að sameina krafta sína. Þannig sköpum við enn betri og metnaðarfyllri stoð undir litla þjóð sem vill vera fremst meðal þjóða og getur með réttu gert kröfu til þess að vera í fararbroddi.
Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans í bæjarstjórn Garðabæjar.