Stundum er sagt að tækifærin séu mest þegar athyglin er minnst á þeim. Þannig fara stór tækifæri oft framhjá - jafnvel heilu þjóðríkjunum - þegar fyrirsagnirnar eru sífellt um aðra hluti og neikvæðari. Straumurinn er í eina átt, en tækifærin geta komið fram eftir öðrum leiðum.
Koma Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Íslands, er gott tækifæri til að draga fram mikla og mikilvæga breytingu sem orðið hefur á íslenska hagkerfinu á undanförnum árum.
Sú breyting hefur meðal annars falist í dýpra og meira viðskiptasambandi við Bandaríkin. Ferðaþjónustan er þar lykilatriði, en bandarískir ferðamenn eru sáu hópur sem er mikilvægastur fyrir íslenska ferðaþjónustu. Heimsóknir þeirra hafa skipt sköpum fyrir hagkerfið á undanförnum árum.
Sé horft sérstaklega til brottfara erlendra ferðamanna frá Keflavíkurflugvelli árið 2017, þá voru bandarískir ferðamenn þar 576.403 af tæplega 2,2 milljónum. Um 26 prósent erlendra ferðamanna voru frá Bandaríkjunum.
Fjöldi bandarískra ferðamanna, sem heimsækja landið, hefur margfaldast á skömmum tíma. Augljóst er hvað hefur valdið. Margföldun á flugferðum milli Íslands og Bandaríkjanna. Áfangastöðum flugleiða milli Íslands og Bandaríkjanna fjölgaði úr 5 í 20 á skömmum tíma. Eðlilegt er að sumir áfangastaðir detti út af kortinu og aðrir inn - eins og gerst hefur að undanförnu - þegar flugsamband er orðið jafn djúpstætt og raunin er, en heilt yfir þá bendir margt til þess að þessi stóra loftbrú milli Íslands og Bandaríkjanna sé komin til að vera.
Hún gefur íslenskum fyrirtækjum í vöruútflutningi, ekki síst í matvælaiðnaði, færi á að koma vörum sínum betur inn á þennan risavaxna markað sem Bandaríkin eru.
Þegar rýnt er í hagtölur um vöruútflutning sést að það er greinilegt tækifæri í því fólgið að efla vöruútflutning til Bandaríkjanna.
En hvernig er það best gert?
Hið augljósa er að fella þarf sem mest af hindrunum niður - hvort sem það er kallað tollamúrar eða annað. Eitt af því sem Ísland þyrfti að einblína meira á, eru smáatriðin sem samt eru stóru atriðin. Þetta á meðal annars við um frágang á allri pappírsvinnu og eftirliti þegar kemur að útflutningi. Vel má hugsa sér að Keflavíkurflugvöllur setji sér markmið um það, að fraktútflutningur verði enn skilvirkari og öll undirbúningsvinna vegna útflutnings taki sem allra skemmstan tíma. Eflaust má búa til meiri skilvirkni.
Það má engan tíma missa þegar er verið að flytja út matvæli og ástæða til að velta við öllum steinum, hvað þetta varðar. Verðið á matvælum er hagstæðast fyrir framleiðandann ef hann kemur vörunni í sem bestu ásigkomulagi í sölu og þannig eru mestar líkur á að gott viðskiptasamband verði til, sem síðan er hægt að rækta til framtíðar.
Þarna getur hið opinbera unnið með atvinnurekendum og fyrirtækjum í flugiðnaði.
Hitt atriðið, sem ekki er síður mikilvægt, er að greina hina mörgu ólíku markaði Bandaríkjanna sértækt. Sú mynd sem oft blasir við Íslendingum af Bandaríkjunum - ekki síst þessi misserin - er að landið sé eins og leikhús fáranleikans, þegar kemur að stjórnmálum, og kannski líka þegar kemur að viðskiptum. Öfgafull sjónarmið, pólaríseruð, fá oft mesta athygli, á kostnað þess sem er áhugavert og spennandi.
Einmitt í þessum aðstæðum leynast oft tækifæri, sem lítið land eins og Ísland þarf að nýta.
Í Bandaríkjunum eru 50 markaðir ólíkra ríkja, sem eru með ólíkt regluverk. Það gleymist stundum í umræðum um Bandaríkin að markaðssvæðin eru flókin og erfið, og þarfnast innganga á þau oft ólíkrar stefnu. Vesturströndin er með sín einkenni, Austurströndin einnig, og svo framvegis. Þó lögin sem samþykkt eru á Bandaríkjaþingi séu í gildi fyrir öll ríkin, þá leynast oft miklar hindranir í sérstöku regluverki ríkjanna sjálfra, sem þarf að gefa gaum.
Hugsanlega er ástæðan fyrir því, að íslensk fyrirtæki hafa ekki oft náð þar fótfestu, sú að þessu er ekki gefinn nægilega mikill gaumur. Svæðisbundin tækifæri eru oft á við það að ná stórkostlegu tækifæri í mörgum ríkjum Evrópu, svo mikið getur umfangið verið.
Góðar undantekningar eru þó á þessu, og má nefna góðan árangur Vinnslustöðvarinnar í Vestamannaeyjum, þegar kemur að sölu á hrognum í sushi á Vesturströnd Bandaríkjanna, Reyka Vodkinn er vel sýnilegur víða, meðal annars í verslunum Safeway, skyrið hefur náði góðri útbreiðslu, og súkkulaðið frá Nóa Siríus í búðum Whole Foods, verslanakeðju Amazon, fær gott pláss í hillunum. Laxeldi á Íslandi á einnig undir sölu í Whole Foods og hefur það náð góðum árangri þar, á undanförnum árum.
Eins og oft þegar viðskipti eru annars vegar, þá losna kraftar úr læðingi með góðum samgöngum. Loftbrúin milli Bandaríkjanna og Íslands, sem hefur margfaldast á skömmum tíma, er nú þegar farin að skipta sköpum fyrir íslenskt atvinnulíf. Tækifærin eru þó miklu stærri og meiri, en rætt hefur verið um. Vonandi munu íslensk stjórnvöld sjá þau og vinna með atvinnulífinu og stjórnvöldum í Bandaríkjunum, eins og nú hefur verið boðað, af því að nýta þau, í kjölfar heimsóknar Pompeo.