Er baktal um þig meinlaust á meðan þú veist ekki af því? Skaða sakargiftir ekki mannorð þitt nema þú heyrir af þeim? Hvað gerir það til þótt það sé útbreidd saga að það sem aflaga fór hafi verið þér að kenna, ef bara enginn ber það upp á þig í þinni áheyrn? Getur þú varist ávirðingum sem þú veist ekki um?
Baktal á sér margar birtingamyndir: Hún er leiðinleg, ekki leika við hana. Hún getur ekki gripið bolta, ekki velja hana í liðið. Mamma hennar er klikkuð, ekki heimsækja hana. Hún stal frá vini mínum, passið ykkur á henni. Hún nennir engu og ég þurfti að vinna allt verkið. Hún er klöguskjóða sem lýgur upp á mann áreiti. Það er ekki hægt að vinna með henni, ekki veita henni meðmæli fyrir nýjan vinnustað. Hún er ómögulegur leiðtogi, ég væri miklu betri formaður. Hún er kunta sem beitir sexíinu til að koma sér áfram og svo færðu ekki að ríða henni. Hættum að hafa hana með í samtölum og ráðum þessu bara strákarnir.
Er lítilsvirðandi umtal um þig bara meinlaust raus í litlum hópi, sem gerði engum mein fyrr en einhver hljóðritaði það og fjölmiðlar birtu það?
Það er ekki að ástæðulausu sem andmælaréttur fólks er settur í bæði lög og verklagsreglur. Hann er grundvallarregla í réttarkerfinu og hann er kominn í reglur á vinnumarkaði, þótt meiri brotalöm sé þar á beitingu þeirra reglna. Á vinnumarkaði er t.d. verið reyna að koma meðferð áminninga í formlegt ferli, ástæða þarf að vera tilgreind og nægilega skýrt fram sett til að hægt sé að svara henni og til þess er veittur andmælaréttur. Á sama tíma vantar algjörlega uppá það á hvern hátt umsagnir frá fyrri vinnustað eru settar fram. Í umsóknarferli um nýtt starf er farið fram á að gefnir séu upp umsagnaraðilar frá fyrri vinnustað, oft kallað að fá meðmæli. Þá tíðkast víða að gefa ekki skriflega umsögn, enda getur þá þurft að svara fyrir það sem skrifað er. Þess í stað eru aðeins gefin munnleg ummæli og jafnvel krafist trúnaðar um það sem í þeim er sagt, eða bara óformlegar fyrirspurnir í kunnungjahópi. Umsagnir sem ekki er hægt að veita skriflegar og standa við, eru kjaftasögur.
Orðspor þitt ræðst ekki af því sem þú gortar þig af og heldur ekki af því þegar þú vinnur verk þín hljóð. Orðspor þitt er spor þeirra orða sem aðrir láta um þig falla.
Þess vegna skiptir máli hvað þú segir um annað fólk. Þau orð eru nefnilega sögð til að hafa áhrif á afstöðu annarra til þess fólks sem þú ert að tala um.
Hvenær verður þjófur þjófur? Er það þegar hann stelur, eða er það þegar kemst upp um hann?