Eftir að upp úr slitnaði í kjaraviðræðum og verkfallsaðgerðir fóru formlega upp á teikniborðið hjá verkalýðshreyfingunni þá hefur umræðan um kaup og kjör farið ofan í kunnuglegar skotgrafir.
Það versta við þá umræðu er að fólk við samningaborðið túlkar rökræðuna með gjörólíkum hætti. Samtök atvinnulífsins sendu fjölmiðlum á föstudaginn tengil á umfjöllun um kröfugerð Eflingar í kjaraviðræðunum, þar sem fullyrt var að laun ættu að hækka um að allt að 82 prósent á samningstímanum.
Meiningarmunur
Fólkið í forsvari fyrir stéttarfélögin hafnar þessu með öllu og sagði Stefán Ólafsson prófessor, sérfræðingur hjá Eflingu, að þetta væri alrangt hjá Samtökum atvinnulífsins. Hið rétta væri rúmlega 40 prósent hækkun lægstu launa á samningstímanum.
Stefán bætir reyndar um betur og fullyrðir að svigrúm stjórnvalda fyrir útspil inn í kjaraviðræðurnar sé ekki 14,7 milljarðar, eins og boðaðar aðgerðir eru metnar á, heldur 56,3 milljarðar, að teknu tilliti til afgangs á fjárlögum upp á 29 milljarða.
Óhætt er að segja að þetta sé ekki traustvekjandi, þessi meiningarmunur þeirra sem sitja við samningaborðið, jafnvel þó skýringin séu ólíkt sjónarhorn og ólíkar forsendur. Þeim ber skylda til þess að reyna að ná samningum og lágmarkskrafa ætti að vera sú, að báðir séu með sama skilning á þeim atriðum sem eiga að teljast staðreyndir.
Réttast væri að gera allar kröfur opinberar jafnóðum, þegar mál eru komin til Ríkissáttasemjara, svo að það sé hægt að veita þeim sem eru að leiða málin til lykta gott aðhald. Spunameistarahlutverk myndu þá heyra sögunni til.
Launaskrið sem veldur vandræðum
Augljóst er að mikið launaskrið ráðamanna og stjórnenda hjá ríkisfyrirtækjum hefur valdið miklum erfiðleikum og gert snúna stöðu enn erfiðari. Nú síðast voru sagðar fréttir af því að stjórnendur Íslandspósts hefðu hækkað verulega í launum á sama tíma og fyrirtækið var á leið í þrot. Aðalfundi var frestað og ársskýrsla hefur ekki verið birt enn, fyrir síðasta ár. Engar skýringar hjá fjármálaráðherra hafa fengist, en hann fer með hlutaféð í fyrirtækinu.
Ef það kemur í ljós að stjórnendur póstsins hafi fengið mikla launahækkun - þvert ofan í vonda stöðu fyrirtækisins - þá verður það enn eitt áfallið fyrir þá sem sitja við samningaborðið og almenning í leiðinni.
Það verður að teljast sorglegt að útspil stjórnvalda inn í viðræður séu þessar ákvarðanir um launahækkanir stjórnenda, upp á tugprósenta höfrungahlaupshækkanir.
Það er huggun í því að bæði atvinnurekendur og stéttarfélög hafa harðlega mótmælt framferði íslenska ríkisins, þegar kemur að launaskriðinu. Þau eru sammála um það.
Það stendur upp á stjórnvöld að láta kné fylgja kviði og grípa til aðgerða gagnvart þeim sem hafa staðið svona að málum. Ábyrgð þess fólks er mikil. Það segir sína sögu, að Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, sér mest eftir því að hafa ekki rekið allar stjórnir ríkisfyrirtækjanna sem fylgdu ekki tilmælum um að sýna hófsemd í launaþróun, enda liggja afleiðingarnar nú fyrir.
Varnaðarorð frá Gylfa
Varnaðarorð sem eru sett fram af yfirvegun og með vel rökstuddum málflutningi hafa komið fram að undanförnu, meðal annars hjá Gylfa Zoega, hagfræðiprófessor, í Vísbendingu fyrr í mánuðinum. Þar segir hann meðal annars að staðan í hagkerfinu bjóði ekki upp á það að hækka laun mikið. „Í ljósi þess að mikill kostnaður innlendra fyrirtækja og hátt innlent verðlag er að valda umsnúningi í útflutningsgreinum og minni hagvexti á næstu árum má leiða líkum að því að launahækkanir myndu leiða til annars hvors: samdráttar og minni atvinnu, eða hærra verðlags og lægra gengis, að öðru óbreyttu. Það sem gæti breyst og réttlætt slíkar launahækkanir væri mikill bati í viðskiptakjörum, stóraukin framleiðni eða aukinn áhugi á íslenskum útflutningi óháð verði hans. En fátt bendir til þess að þetta muni gerast,“ segir Gylfi.
Gylfi verður ekki sakaður um að vera í liði með neinum nema þá helst fræðunum og hvað staðreyndirnar eru að segja okkur samkvæmt þeim.
Atvinnurekendur og stéttarfélögin hljóta að átta sig á því að ný þjóðarsátt hlýtur að byggjast á því að samið sé um kaup og kjör sem hagkerfið getur staðið undir. Atvinnurekendur verða að sýna viðsemjendum virðingu og það sama á við um stéttarfélög. Verkfallsvopnið getur vel skilað árangri, en það getur líka valdið tjóni og verkfallssjóðir endast ekki að eilífu.
Hingað og ekki lengra
Stjórnvöld verða að hemja þessar glórulausu ákvarðanir sem teknar hafa verið hjá dótturfélögum ríkisins, einkum í stjórnum þeirra, þar sem stjórnendur hafa rokið upp í launum um tugi prósenta. Engar afsakanir duga fyrir þessu og mótmæli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, ættu að hafa þau áhrif til varnaðar. Hingað og ekki lengra, og draga fram skýringar á því hvernig þetta gat átt sér stað, þvert ofan í djúpar deilur á vinnumarkaði.
Eins og bent hefur verið á í leiðurum á þessum vettvangi þá er Ísland í öfundsverðri stöðu að mörgu leyti, í samanburði við aðrar þjóðir, þegar kemur að stoðum hagkerfisins. Skuldir hafa lækkað verulega á undanförnum árum og atvinnuleysi verið lítið, í miklum hagvexti, og tækifærin fyrir okkar friðsæla og gjöfula land til framtíðar eru fjölmörg.
Þessari mynd þarf að halda fyrir framan þá sem eru við samningaborðið. Algjör óþarfi er hjá atvinnurekendum að teikna upp svarta mynd af stöðunni, ef laun láglaunafólks hækka hóflega, heldur ætti frekar að reyna að finna flötinn sem skiptir máli: hvernig megi auka kaupmátt þeirra hópa sem horft er til sérstaklega, og styrkja hag þeirra sem samið er um launin fyrir.
Mildari tónn
Pólitísk deilumál um hvernig eigi að byggja upp skattkerfið og með hvaða markmið, hafa oft verið hluti af kjaraviðræðum og stundum hafa útspil stjórnvalda skipt miklu máli. Þetta er hluti af rökræðu um hvernig eigi að skipta þjóðarkökunni.
En eflaust gæti það dýpkað deilurnar mikið ef það verður að helsta atriði við samningaborðið, að gera miklar breytingar á skattkerfinu, enda er það verkefni Alþingis að taka ákvörðun um þær.
Atvinnurekendur og stéttarfélögin verða að sýna skýran vilja til að ná samningum, og tækifærin til að tryggja sterkar efnahagsforsendur í landinu eru fyrir hendi. Ef stjórnvöld sýna með sannfærandi hætti, að þau séu ósátt við launaskriðið hjá stjórnendum ríkisfyrirtækjanna, þá gæti tónninn mildast og betri samskipti átt sér stað, sem eru forsenda þess að samningar geti orðið að veruleika.