Á næsta ári fögnum við því að 70 ár eru liðin frá því að Ísland varð aðili að Evrópuráðinu. Í gegnum Evrópuráðið er íslenska ríkið aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu sem er ein mesta réttarbót sem Ísland hefur undirgengist. Sáttmálinn hefur haft mikil og góð áhrif á réttarríkið hér á landi, til að mynda hefur hann haft rík túlkunaráhrif á mannréttindaákvæði Stjórnarskrár Íslands eins og sjá má í dómum Hæstaréttar. Mannréttindadómstóll Evrópu tryggir síðan að aðildarríki Evrópuráðsins virði þau grundvallarréttindi borgaranna sem kveðið er á um í sáttmálanum.
Það sem er kannski mikilvægast varðandi þau grundvallarréttindi er að borgarar aðildarríkja Evrópuráðsins geta leitað til dómstólsins telji þeir að stjórnvöld hafi beitt þá órétti eða ef þeir telja að þeirra eigin dómsmál hafi ekki hlotið réttláta meðferð í þeirra eigin dómskerfi.
Um þetta snýst einfaldlega málið sem Mannréttindadómstóllinn dæmdi í gagnvart íslenska ríkinu í síðustu viku. Og sem aðildarríki Evrópuráðsins og lýðræðisríki sem ber virðingu fyrir mannréttindum, ber okkur skylda til að fara eftir úrskurðum dómstólsins.
Niðurstaða dómsins er vönduð, einföld og rökstudd á skýran hátt enda var dæmt út frá Mannréttindasáttmála Evrópu. Og það vill svo til, að dómar dómstólsins eru þjóðréttarlega skuldbindandi sem íslenskir dómstólar hafa ávallt og undantekningarlaust beygt sig undir. Líka þegar íslenska ríkið hefur tapað máli.
Viðbrögð íslenskra stjórnvalda skipta öllu máli
Dómstóllinn komst að því að íslensk stjórnvöld hefðu brotið gegn sjöttu grein mannréttindasáttmálans með því hvernig dómsmálaráðherra skipaði dómara í Landsrétt. Við þessu var ítrekað varað, embættismenn dómsmála- og forsætisráðuneytanna vöruðu ráðherrann við því að velja tiltekna fjóra einstaklinga út úr umsækjendahópnum og skipa þá sem dómara án rökstuðnings - og virða að vettugi niðurstöðu hæfnisnefndar um aðra fjóra sem henni leist síður á.
Þetta gerði ráðherrann án þess að uppfylla rannsóknarskyldu og án þess að rökstyðja ákvörðunina með fullnægjandi hætti. Allt benti til þess að ráðherrann hefði beitt geðþótta við ákvörðun af þessu tagi – nokkuð sem gekk ekki upp að mati Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu.
Við þessu var ítrekað varað úr ræðustól alþingis, meðal annars af þeirri sem hér heldur á penna en um það var engu skeytt og haldið áfram í krafti pólitísks valds.
En svo fór sem fór og viðbrögðin þurfa að vera yfirveguð og sanngjörn. Að leiðrétta skjótt það sem þarf að leiðrétta. Til að réttarríkið virki sem skyldi fyrir alla borgara landsins. Til að ráðherrar ráði því ekki hverju sinni hvaða fólk er skipað í dómstóla. Af þeim dæmum hljótum við að hafa fengið alveg nóg.
Það var nauðsynlegt að dómsmálaráðherra skyldi víkja úr embætti og taka þar með ábyrgð á embættisfærslum sínum. Embættisverkum sem ollu mikilli óvissu í dómstiginu og í réttarkerfinu og var augljóst að hún gæti ekki verið sú sem leysti úr flækjunum sem hún skapaði.
Það er líka gott hjá forsætisráðherra að skipa öflugan sérfræðingahóp til að fara yfir stöðuna sem nú ríkir, til að skila fljótt tillögum til að Landsréttur verði starfhæfur aftur og að svara því hver verða afdrif dóma Landsréttar, hvort afplánanir frestist eða ekki, hvort og þá hvernig beri að skipa á ný í Landsrétt svo að sátt ríki og traust aukist.
En það er áhyggjuefni hve fljótt ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru að lýsa því yfir að íslenska ríkið skyldi áfrýja dómnum. Af hverju? Í hvaða tilgangi? Slíka ákvörðun má ekki taka á hlaupum. Niðurstaðan í málinu er skýr og skilaboðin eru afdráttarlaus. Ekki bara til íslenskra stjórnvalda, heldur líka til stjórnvalda þeirra aðildarríkja Evrópuráðsins sem hafa leitast við að grafa undan Mannréttindadómstólnum, mannréttindum, réttindum borgaranna og lýðræðislegu stjórnarfari.
Áfrýja eða ekki? Barátta eða auðmýkt?
Ég er alls ekki á þeirri skoðun að það sé sjálfsagt að vísa málinu til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu. Við verðum að velta því rækilega fyrir okkur hver sé raunverulegur tilgangur þess að áfrýja máli sem snýst um rétt einstaklinga til að leita réttar síns og að þeir fái réttláta málsmeðferð. Dómstólasýslan leggur ríka áherslu á að áhrif af áfrýjun verði metin áður en ákvörðun um slíkt verði tekin. Á því eigum við að taka mark. Við þurfum að koma starfsemi hins mikilvæga millidómstigs, Landsréttar, á réttan kjöl sem fyrst og getum ekki beðið eftir niðurstöðu úr áfrýjun til þess.
Það eru hagsmunir almennings í landinu að dómskerfið starfi með eðlilegum hætti og að Landsréttur, hangi ekki í lausu lofti. Áfrýjun til yfirdeildar framlengir óvissu í réttarkerfinu. En íslensk stjórnvöld verða líka að sýna auðmýkt í því að standa vörð um mannréttindi og áfrýjun er ekki endilega merki um auðmýktina sem við þurfum að sýna. Berum áfram virðingu fyrir mannréttindum og þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist og gröfum ekki undan Mannréttindadómstóli Evrópu eða okkar mikilvægu skyldum sem felast í því að verja réttindi borgaranna.
Höfundur er varaforseti Evrópuráðsþingsins og formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.