Getur verið að bækluð unglingsstelpa frá Palestínu hafi haft svo kröftug áhrif á Angelu Merkel að milljón manneskjur á flótta hafi fundið, að minnsta kosti tímabundið, skjól í Þýskalandi? Enginn veit það fyrir víst og kannski ekki einu sinni Angela Merkel sjálf. Kanslarinn og unglingsstúlkan eru auk þess þær einu sem vita hvað þeim fór á milli þegar Merkel bauð stúlkunni í heimsókn í kanslarahöllina, hálfu ári eftir dramatískan fund þeirra.
Fyrir örfáum vikum síðan birtist í Die Zeit grein með fyrirsögninni: Hún var stelpan hennar Merkel. Greinin var um stúlkuna, Reem Sahwil, sem blaðamaður hitti yfir ís með blönduðum ávöxtum og rjóma í ísbúð. Reem hafði valið staðinn því hún fer oft þangað og fær sér ávallt sama réttinn. Að því leyti orðin erkiþýsk í háttum, alltaf það sama.
Reem varð á einni nóttu fræg í Þýskalandi og víðar eftir að hafa talað í sjónvarpsupptöku þar sem Angela Merkel ræddi við skólanemendur í íþróttasal skólans í Rostock. Þá sagði Reem sögu sína og lýsti því hvernig það væri að vera barn án ríkisfangs sem veit ekki hvort það og fjölskylda þess megi dvelja áfram í Þýskalandi eða verða send í flóttamannabúðir fyrir Palestínumenn í Líbanon.
Okkur tekst það
„Ég veit ekki hver framtíð mín verður,“ sagði hún og bætti við að hún ætti sér markmið, hún óskaði þess að fá að mennta sig. Hún velti því jafnframt fyrir sér að á meðan sumir unglingar gætu gert framtíðarplön og notið lífsins, þá gætu aðrir það ekki. Þá var Reem aðeins fjórtán ára.
Angela sagði þá að sér fyndist Reem viðkunnaleg en útskýrði síðan hvernig þýsk lög virkuðu; svo margir aðrir væru í sporum hennar, margir í enn verri aðstöðu, og ógjörningur að taka á móti öllum sem væru ekki ofsóttir í merkingu laganna. Fyrst þyrfti að huga að fólki frá Sýrlandi áður en hægt yrði beina sjónum að öðrum löndum þar sem ekki væri borgarastríð. Í löngu svari sínu sagði hún meðal annars: Okkur tekst það ekki (að taka á móti öllum).
Við þessi orð kanslarans brast stúlkan í grát. Merkel, sem var farin að ræða við þáttastjórnandann, varð áberandi annars hugar; síðan labbaði hún skyndilega til Reem og strauk henni. Augnablikið varð frægt. Angela augsýnilega snortin þegar hún reyndi að hugga Reem.
Aðeins örfáum vikum síðar, þá stödd í heimsókn í húsakynnum flóttafólks í Dresden, sagði Angela hin frægu orð: Wir schaffen das! Á íslensku: Okkur tekst það!
Uppgangur AFD
Óneitanlega voru orð hennar táknræn í ljósi þess sem hún hafði sagt við Reem í hinni umdeildu sjónvarpsútsendingu því viðbrögð almennings við fundi þeirra höfðu verið mikil og sterk – og tendrað heitar umræður.
Í kjölfarið var meira en milljón flóttafólks hleypt inn í Þýskaland, nokkuð sem átti eftir að gera Angelu mjög umdeilda, meðal annars innan eigin flokks. Og sumir vilja meina að hafi átt sinn þátt í uppgangi AFD, hægri sinnaðs popúlistaflokks með harða stefnu gegn útlendingum, þá sérstaklega þeim sem aðhyllast íslamstrú.
Tveimur árum síðar fékk Reem dvalarleyfi í Þýskalandi; hún hafði komið ríkisfangslaus til Þýskalands en í þættinum var hún komin með vegabréf frá Líbanon. Upphaflega hafði hún fengið að koma til Þýskalands til að fara í skurðaðgerð vegna bæklunar sinnar, hún þurfti að fá sprautur í kjölfar aðgerðarinnar svo það mátti ekki reka hana strax aftur úr landi. Fjölskylda hennar hafði hins vegar engan rétt og lengi var óljóst um framtíð hennar. Reem hafði fengið dvalarleyfi vegna nýrrar reglugerðar sem kvað á um að unglingar sem hefðu aðlagast samfélaginu vel fengju að dvelja áfram. En þessum tveimur árum eftir fund þeirra var Angela Merkel umdeildari sem aldrei fyrr.
Reem vill ekki segja hvað þær töluðu um þegar hún heimsótti Angelu, það sé leyndarmál, en raunar kærir unglingsstúlkan sig ekki um að ræða pólitík, enda varð hún óhemju pólitískt fræg eftir þetta stutta samtal við kanslarann. Hún var orðin tákn. Og er tákn.
Unglingsstúlka með blandaða ávexti í ísbikar og drauma um að verða sálfræðingur eða þýskukennari – sagði hún við blaðamann Die Zeit.
Enginn veit hvað drífur Merkel áfram
Kristof Magnusson er Berlínarbúi; rithöfundur sem hefur skrifað mikið í þýska og breska fjölmiðla. Hann fylgist vel með stjórnmálum í heimalandi sínu og þegar ég spyr hann, yfir lasanja úr Krónunni og sítrónu Kristall, hvort verið geti að Reem hafi haft dramatísk áhrif á þýsk stjórnmál segir hann: „Þegar Angela byrjaði sem kanslari var hún ekki fylgin hugsjónum, hún var frekar raunsæ og praktísk í ákvarðanatökum sínum. Hún gaf fólki ekki beinlínis ástæðu til að kjósa sig, yfirleitt bundin af niðurstöðum úr skoðanakönnunum. Frekar að hún eignaði sér kjarna úr öðrum flokkum; hún gætti þess að leggja áherslu á jafnréttismál krataflokkanna og eignaði sér helstu baráttumál krata og grænna vinstrisinna eins og að banna kjarnorkuver.
En enginn vissi fyrir hverju hún brann. Nema jú, síðar í evrumálunum, þá var hún mjög hörð gagnvart Grikkjum og Spánverjum. Þá varð hún raunar umdeild, sérstaklega á alþjóðavettvangi. Stuttu eftir það ákvað hún að taka á móti öllum þessum flóttamönnum og maður veit ekki alveg af hverju hún gerði það, enda veit maður aldrei almennilega hvað það er sem drífur hana áfram í einstökum ákvörðunum.
Maður veit hvorki af hverju hún var svona hörð í garð Grikkja né af hverju hún varð skyndilega mild gagnvart flóttamönnum. Eins og alltaf var óljóst hvað tendraði hana. En í þetta skipti kom hún öllum á óvart. Að taka þessa stóru skyndiákvörðun, að hleypa öllu þessu fólki inn í landið, og leiða almenningsálitið hjá sér.“
Lúðapía úr krummaskuði
Hann segir að Angela sé svartur kassi í þeim skilningi að maður viti aldrei hvað hún hugsi, ólíkt Schröder og Kohl. Þegar talið berst að fundi Merkel og Reem segir Kristof að fyrirsögnin að greininni í Die Zeit sé vísun í gamalt uppnefni á Angelu Merkel: Kohls Mädchen. Hún hafi á árum áður verið ráðherra í ríkisstjórn Helmut Kohl, á tíunda áratugnum, og almannarómur hafi þá kallað hana Kohls Mädchen.
Ástæðuna útskýrir Kristof á þessa leið: „Hún þótti hvorki kúl né sjarmerandi. Frekar sveitó, frá gamla Austur-Þýskalandi, nánast eins og lúðapía úr krummaskuði sem hefði óvart álpast upp í ráðherrabíl í Berlín. Kannski kaldhæðið að ennþá virðist það vera besta leiðin í Þýskalandi fyrir konur til að slá í gegn ef karlmenn vanmeta þær og taka ekki eftir hæfni þeirra.“
Kristof segir að Angela sé að ýmsu leyti sérstakur stjórnmálamaður. Á sama tíma og hún sé þekkt fyrir að kæfa pólitískar deilur með því að segja ítrekað að ekkert annað sé í boði en lausnin sín, þá noti hún nokkuð óhefðbundnar leiðir til að leita eftir áliti fólksins. Hann hefur sjálfur reynslu af því en Angela bauð honum ásamt níu öðrum þekktum rithöfundum í kvöldverð í kanslarahöllinni.
Almenningur í kanslarahöllinni
Þar snæddu þeir lambakjöt í þrjár klukkustundir og ræddu allt milli himins og jarðar – en hún vissi áberandi mikið um bókmenntir, að hans sögn. Hún sagði m.a. annars við þá að það yrði að gera meira fyrir fjölskyldur í þeim tilgangi að hvetja til barneigna, að öðrum kosti myndu Þjóðverjar deyja út. Kristof mótmælti þessu ásamt fleirum. Þeir sögðu: Til hvers að plata fólk til að eignast börn – sem vill það kannski ekki? Er ekki bara betra að fá hingað ungt fólk frá öðrum löndum sem þráir tækifæri?
„Hún var mjög opin fyrir nýjum rökum,“ segir Kristof. „Þannig að maður fékk á tilfinninguna að hún byði reglulega fólk heim til að heyra nýjar skoðanir. Henni fannst sérstaklega áhugavert að ræða við rithöfunda af því þeir ganga ekki einhvers konar pólitískra erinda. Hún er svo vön að þurfa að hlusta alla daga á fólk með sérstaka hagsmuni í huga. Við rithöfundarnir vorum bara dæmigerðir fyrir fólk sem fylgist vel með því sem gerist í samfélaginu.“
Af þessu að dæma, meintum aðferðum kanslarans til að viða að sér ferskum sjónarhornum, má kannski leyfa sér að álykta að Angela hafi orðið fyrir áhrifum þegar hún hlustaði á Reem í sjónvarpsþættinum og síðar af umræðunum sem kviknuðu í kjölfarið, aðeins örfáum vikum áður en hún sagði: Við getum það!
Hver veit! Lífið er skrýtið. Og núverandi kanslari óútreiknanlegur.