Í nýlegu bréfi heimspekingsins Yngve Slyngstad, sem er æðsti stjórnandi norska olíusjóðsins - stærsta fjárfestingasjóðs í heimi - lýsir hann sýn sinni og stefnu sjóðsins á stöðu efnahagsmála í heiminum og hvernig sjóðurinn eigi að nálgast markaðina. Bréfið var meðal annars gert að umtalsefni í ítarlegu og sjaldgæfu viðtali við Slyngstad við Bloomberg á dögunum.
Bréfið var sent til fjármálaráðuneytisins í Noregi og er hluti af formlegum samskiptum milli sjóðsins og yfirvalda. Sjóðurinn er sjálfstæð eining, óháð dægursveiflum stjórnmála, en heyrir undir Seðlabanka Noregs og fjármálaráðuneyti landsins, enda er hann í eigu norsku þjóðarinnar.
Stærð sjóðsins nemur í dag 123 þúsund milljörðum króna, eða sem nemur um 23,6 milljónum á hvern Norðmann. Sjóðurinn á sem nemur um 1,3 prósentum af öllum skráðum hlutabréfum í heiminum, en 96 prósent eigna liggja í verðbréfum utan Noregs.
Tveir punktar í bréfi Slyngstad eru áhugaverðir fyrir Ísland og íslenska hugsmuni.
Einn punkturinn er sá að í bréfinu er þeirri sýn lýst, að sjóðurinn þurfi að minnka gjaldeyrisáhættu með því að færa áhættuna einkum yfir á eignir í evru og Bandaríkjadal. Þetta er talið tryggja betur stöðugleika í eignasafni sjóðsins og er í takt við þá sýn að heimurinn sé að færast meira yfir í færri heimsmyntir.
Ísland er með minnsta myntkerfi heimsins ásamt Seychelles-eyjum og það vaknar óneitanlega spurning hvernig þessi sýn samræmist íslenskum hagsmunum til lengdar litið. Norðmenn hafa stærsta fjárfestingasjóð heimsins til að tryggja trúverðugleika síns myntkerfis, og það er forréttindastaða sem þeir sköpuðu sjálfir.
Í eignasafni sjóðsins í dag eru eignir tengdar 23 gjaldmiðlum og því er þetta verkefni umfangsmikið og eflaust verður það ekki gert á skömmum tíma heldur yfir lengra tímabil.
Hitt atriðið - sem hefur vakið töluverða athygli - er að sjóðurinn ætlar sér að færa áhættuna í eignasafninu úr olíuiðnaði yfir á hreinni orku. Norðmenn eru olíuþjóð og olíusjóðurinn fær sína fjárinnspýtingu úr hagnaðinum af olíuauðlindum Noregs, þannig að það hljómar sem skynsamleg áhættudreifing að einblína á aðra geira til að ávaxta eignirnar til lengri tíma. En í ljósi stærðar sjóðsins og áhrifa sem hann hefur á mörkuðum, þá er þetta verulega stór og mikil yfirlýsing.
Orkupakkinn
Norðmenn hafa raunar tekið stór skref í þá átt að verða orkustórveldi í heiminum með því að ákveða að leggja sæstrengi - fleiri en nú þegar eru fyrir hendi - og útvega Evrópu hreina orku. Sú framtíðarsýn hefur verið samþykkt, þvert á flokka, að Noregur verði í náinni framtíð með jafn mikið undir þegar kemur að raforkusölu um sæstrengi og olíuviðskiptum.
Margar hliðar eru á þessum málum og hefur umræðan um þriðja orkupakkann á Íslandi - sem líkleg er til að stigmagnast á næstunni hér á landi - meðal annars fjallað um þessa hlið - sæstrengi.
Án þess að fara ofan í þriðja orkupakkann ítarlega hér, þá er áhugavert að velta fyrir sér hvert er hið stóra markmið með regluverki fyrir orkuviðskipti á EES svæðinu. Fjallað er um grunninn að orkupakkanum í þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir Alþingi að taka afstöðu til.
„Fyrsti orkupakkinn var innleiddur hér á landi í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar. Þessi fyrsti orkupakki, sem varð hluti EES-samningsins með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 168/1999, frá 26. nóvember 1999, leiddi til setningar raforkulaga, nr. 65/2003. Samkvæmt innleiðingu fyrsta orkupakkans í raforkulög skyldi vinnsla og sala raforku rekin í markaðskerfi á samkeppnisgrundvelli. Samhliða því voru settar reglur um starfsemi fyrirtækja sem önnuðust flutning og dreifingu raforku í því skyni að stuðla að samkeppni og vernda hagsmuni neytenda. Um leið og lögin tóku gildi tók uppbygging raforkumarkaðar á Íslandi mið af reglum EES-svæðisins og um leið innri markaðs ES,“ segir í þingsályktunartillögunni.
Meiri tengingar
Stóru áskoranirnar sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir orkumálum - ekki síst til að vinna gegn hlýnun jarðar, súrnunar sjávar og vaxandi vandamála vegna mengunar - snúa ekki síst að orkuinnviðunum. Þar er stærsta áskorunin, hvorki meira né minna, að nýta orku betur með því að tengja orkukerfi heimsins saman. Sæstrengir, jarðgasleiðslur, osvfrv. Innviðafjárfestingar á sviði orkumála munu fyrirsjáanlega margfaldast sökum þessa.
Lykillinn að því að takast á við þessi stærstu viðfangsefni samtímans, snýr ekki síst að þessu - hvernig það tekst að tengja saman orkukerfin. Við Íslendingar erum einangruð að þessu leyti en erum hluti af EES-svæðinu og höfum til þessa tekið þátt í sameiginlegri sýn á orkumarkaðinn með samþykkt orkupakka.
Megnið af orkunni okkar er seld til þriggja álvera, en augljóst er að til framtíðar litið munu spurningar vegna þeirra viðskipta verða stærri, ekki síst þegar sjálfvirknivæðing í versksmiðjubúskap álframleiðenda verður umfangsmeiri. Störfum mun fyrirsjáanlega fækka hratt í álverum í framtíðinni, og þá vaknar spurningin hvort það sé skynsamlegt að einblína á álverin sem orkukaupanda frekar en aðra kosti.
En látum þetta liggja milli hluta, og veltum frekar fyrir okkur, hvort það sé rétt eða ekki, að taka þátt í því mikilvæga verkefni að tengja sama orkukerfi heimsins. Þar sem nýta má orku betur - þvert á landamæri. Þetta er eitt stærsta viðfangsefnið til framtíðar litið.
Óháð samþykkt þriðja orkupakkans, sem er framhald á því sem Davíð Oddsson og félagar lögðu grunninn að, þá verður það alltaf í höndum Alþingis að taka ákvörðun um hvort við ákveðum að taka þátt í að tengja okkar orkukerfi við umheiminn eða ekki.
Undirbúningur
Það er stórt mál og ekki einkamál verkfræðinga, enda eru hliðarnar á þessum málum margar. Tenging orkukerfa yfir landamæri er framtíðarsýn sem er svo til óumdeild í heiminum, en þátttaka í þeirri þróun þarfnast ítarlegrar undirbúningsvinnu, eins og Norðmenn fóru í.
Munum að verðlagning á orku innan Noregs, á heimsmarkaðsverði, er eitthvað sem Norðmenn hafa gert áratugum saman með olíu, án þess að þeir þurfi þess sem framleiðendur. Þeir gætu verið að selja hana á kostnaðarverði ef þeir vildu -eða svo gott sem gefið hana eins og Katar hefur gert - en það er ekki sýn sem talin er skynsamleg eða yfir höfuð verjandi, í alþjóðavæddum heimi. Strangt til tekið hafa þeir þó rétt til þess.
Það er óhjákvæmilegt að stjórnmálaflokkar takist á við málin sem tengjast tengingum orkukerfa yfir landamæri af ábyrgð og þær spurningar sem þau kalla fram um lífið og tilveruna á jörðinni. Við erum eyland landfræðilega en ekki í þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi.