Nú eru löngu tímabærir þættir um loftslagsmál farnir að rúlla á RÚV. Sem betur fer hafa þeir vakið talsverða athygli en munu samt skila litlu nema að landsmenn nýti sér þessa þekkingu til að gera eitthvað í málunum.
Loftlagsmál eru flókin fyrirbæri en vandamálið er einfalt og snýst í raun bara um tonn eða kg af CO2 sem við erum að þrusa í ósjálfbæru magni upp í lofthjúpinn. Ef við gerum ekki neitt stefnir í óefni og þessi “við” erum ekki bara einhverjir, heldur ég og þú.
Þegar fjallað er um loftslagsmál er oft rætt við undurklára sérfræðinga sem virðast hafa allt á hreinu en það skilur okkur venjulega fólkið oft eftir með minnimáttarkennd og verkkvíða. Sem betur fer eru til umhverfishetjur þarna úti sem virðist gera allt rétt þegar kemur að umhverfismálum. Vandinn er að við hin tilheyrum stærsta hópi landsmanna sem er ekki kominn á þann stað ennþá. Það er samt sem áður mín einlæga trú að meiri heildarárangur náist þegar 100 þúsund manns taka eitt framfaraskref en þegar hundrað manns taka tíu. Ég hef líka þá skoðun að þeir sem hafa tekið eitt skref fram á við séu örlítið líklegri til að fara alla leið á endanum en þeir sem standa algerlega í stað.
Hér verður aðeins farið yfir nokkur einföld atriði sem hægt er að vinna að til að draga úr loftslagsáhrifum heimila án þess að draga nokkuð úr lífsgæðum. Þetta er alls ekki tæmandi listi og auðvitað þurfum við að huga að allri neyslu með loftslagsgleraugum en hér eru samt góð byrjunarskref sem allir geta tileinkað sér.
Samgöngur heimila
Samgöngur eru stærsti losunargeiri heimila og þar er mjög auðvelt að draga úr losun með orkuskiptum. Skynsamlegasta orkan til að nýta í samgöngum í stað jarðefnaeldsneytis er líkamsfita en aukin hlutdeild göngu og hjólreiða er allra skynsamlegasta lausn okkar, bæði í umhverfis- og lýðheilsumálum. Einnig má nýta almenningssamgöngur mun betur. Þegar heimilisbíllinn eða bílarnir er skoðaðir þá er ljóst að allir sem vilja, geta skipt yfir í fólksbíla sem ganga á umhverfisvænni orku, annaðhvort strax eða innan örfárra ára. Nú þegar eru yfir 10 þúsund landsmenn farnir að setja innlenda og hreina orku á fólksbílana sína. Af hverju gætir þú ekki gert það sama næst þegar þú kaupir bíl? Tæknilausnirnar eru komnar í formi raforku, metans og vetnis og ef menn eru ekki sáttir við tegundir eða verð þá er bara að bíða í örfá ár. Er einhver í svo mikilli neyð að hann verði hreinlega að kaupa glænýjan bensín- eða dísilbíl án tafar? Vandinn er nefnilega að nýr bensín- eða dísillbíll sem keyptur er núna til landsins verður að öllum líkindum enn í kerfinu 2030 þegar við þurfum að gera upp Íslandshluta Parísarsamkomulagsins.
Úrgangsmál heimila
Tveir úrgangsflokkar hafa sérlega skýran loftslagsávinning þ.e. málmar og lífrænn úrgangur. Flokkun málma frá heimilinu minnkar losun verulega enda þarf margfalt minni orku til að endurvinna málma en að vinna þá frá grunni. Það er heldur ekki sama hvernig lífrænn úrgangur er meðhöndlaður því ef hann er einfaldlega urðaður gefur hvert kíló af slíkum úrgangi af sér 1,6 kg af gróðurhúsalofttegundum við rotnun á urðunarstað. Ef lífræn úrgangur er hinsvegar jarðgerður með stýrðu niðurbroti minnkar moltugerðin útblásturinn niður í einn fimmta af því sem losnar við urðun. Þetta er t.d. gert í Í Eyjafirði þar sem verksmiðjan Molta tekur við lífrænum úrgangi og framleiðir jarðvegsbæti með miklum umhverfisávinningi.
Margt smátt
Mörgum finnst þægilegast að hneykslast duglega á stöðunni en fela sig svo á bak við smæð sína og benda t.d. á stóriðju og skemmtiferðaskip sem afsökun fyrir eigin aðgerðaleysi. Það er ekki mesta áhyggjuefnið að of fáir geri allt, heldur að of margir geri ekki neitt. Nú þegar hefur hellingur af ósköp venjulegum heimilum farið í gegnum ofangreindar breytingar sem gróflega gætu skilað um 5.000 kg CO2/heimili á ári. Margföldun það svo með 100 þúsund heimilum og þá erum við með alvöru tölur. Hvernig er staðan á þínu heimili?
Hvað ætlar þú að segja næsta sunnudag ef einhver á þínu heimili spyr eftir næsta loftlagsþátt „Hvað höfum við gert?“