Stærsti eignamarkaður Íslands er fasteignamarkaðurinn. Hann er jafnframt sá markaðurinn þar sem almenningur á mest undir.
Á honum hvílir sparnaðaruppbygging fólks að miklu leyti. Í gegnum eigið húsnæði og einnig í gegnum lífeyriskerfið. Stór hluti eigna lífeyrissjóða landsmanna er tengdur fasteignamarkaðanum.
Sjóðirnir eiga yfir 3.200 milljarða í innlendum verðbréfaeignum, sem meðal annars eru í skuldum heimilanna í landinu. Þá eiga sjóðirnir einnig stóra eignarhluti í fasteignafélögum, sem eiga bæði íbúðir og atvinnuhúsnæði. Heildareignir sjóðana nema nú rúmlega 4.400 milljörðum króna.
Samkvæmt fasteignamati ársins 2018 var virði fasteigna um 7.300 milljarðar króna.
Undarleg staða
Sú undarlega staða er uppi á fasteignamarkaðnum á Íslandi að gögn um stöðuna á markaðnum eru ekki nægilega góð. Þetta á einkum við um nýbyggingar.
Þjóðskrá hefur staðið sig vel í því að halda utan um viðskipti á markaðnum, og þróun þeirra. Þar er byggt á frumgögnum, þinglýsingum skjala.
Það sem vantar er að varpa skýrara ljósi á hversu margar íbúðir er verið að byggja, á hvaða svæðum og hvernig tegundir að íbúðum.
Þetta var gert að umtalsefni í Hagsjá Landsbankans í gær. „Hagstofan hefur enn ekki birt upplýsingar um byggingu íbúðarhúsnæðis á síðasta ári. Upplýsingastreymi um byggingarstarfsemi hefur ekki batnað mikið í núverandi uppsveiflu og enn renna menn jafnt blint í sjóinn með byggingarmagn, staðsetningu og tegundir húsnæðis í byggingu,“ segir í Hagsjánni.
Í henni segir einnig að áreiðanlegastu gögnin sem finnast á markaðnum koma úr talningu Samtaka iðnaðarins. Það er komin reynsla á hana, en aðferðarfræðin eru engu að síður frumstæð miðað við það sem er hægt að gera með betri upplýsingamiðlun og agaðri upplýsingagjöf frá hinu opinbera.
Sveitarfélög geta leyst þetta með einföldum hætti. Þau búa yfir frumgögnunum um skipulag, byggingarleyfi og allt slíkt.
Þau geta tekið þetta saman og birt, með samræmdum hætti, t.d. alla föstudaga klukkan 13:00. Nýjar upplýsingar sem berast koma svo inn í hverri uppfærslu, vikulega.
Með þessu myndi fást yfirsýn yfir þróun á framboðinu, sem myndi renna betri stoðum undir ákvarðanir víða í hagkerfinu. Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem skipta miklu máli. Það er ekki nóg að hafa upplýsingarnar, heldur þarf að miðla þeim skipulega og vel.
Ein lína í viðbót
Annað atriði sem mætti bæta úr snýr að spekilekanum - eða eftirliti með honum - í hagkerfinu. Eins og bent hefur verið á áður, á þessum vettvangi, þá er uppi sú undarlega staða að það er ekki vitað hvernig þekking er að flæða inn og út úr hagkerfinu.
Þetta er undarlegt ekki síst á tímum þar sem samfélagið er að breytast mikið en um 75 prósent nýrra skattgreiðenda á síðustu fimm árum hafa verið erlendir ríkisborgarar.
Þetta er hægt að leysa með einföldum hætti.
Á eyðublaði hjá Þjóðskrá er hægt að bæta við einni línu, eða einum reit, þar sem fólk sem er að flytja til landsins eða frá því, segir frá starfsreynslu sinni og menntun.
Þetta gefur færi á því að fylgjast með því í rauntíma hvernig þekking er að flæða inn og út úr landinu.
Alveg eins og með gögnin um uppbyggingu íbúða, þá bætir þetta undirstöður ákvarðana, ekki síst hjá stjórnmálamönnum.
Birting á þessum gögnum mætti til dæmis vera á föstudögum klukkan 13:00.