Í vorhefti Þjóðmála, sem kom út í gær, birtist löng grein eftir Sigurð Má Jónsson, sem er titlaður blaðamaður en var síðast í föstu starfi sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar, um Kjarnann. Hún ber fyrirsögnina: „Kjarninn – Að kaupa sig til áhrifa“.
Greinin er líkast til einsdæmi. Á mínum tíma í blaðamennsku man ég ekki eftir að nokkur hafi tekið sig til og skrifað jafn umfangsmikið níð og jafn rætin róg um fjölmiðil. Ég man ekki eftir því að nokkur hafi meðvitað sett fram jafn mikið magn af rangfærslum um miðilinn Kjarnann og nafngreinda einstaklinga sem að honum hafa komið með einum eða öðrum hætti á starfstíma hans. Og ég man ekki eftir að nokkur miðill sem tekur sig alvarlega eða hefur snefil af sjálfsvirðingu birti slíkt, líkt og Þjóðmál gerðu gagnrýnislaust.
En við lifum á óvenjulegum tímum. Hér að neðan ætla ég að rekja helstu rangfærslur greinar Sigurðar Más, setja fram staðreyndir sem hrekja lygar hans og bera hönd fyrir höfuð nafngreinds fólks sem hann telur eðlilegt að gera upp skoðanir og hvatir.
Rangfærslur um stofnun og fjárfestingu í Kjarnanum
Sigurður Már segir í grein sinni að Kjarninn hafi verið stofnaður af nokkrum vinstrisinnuðum einstaklingum úr fjölmiðlum, stjórnmálum og viðskiptalífi „sem gæti veitt yfirvofandi hægristjórn mótstöðu“.
Þetta er rangt og auðvelt er að sýna fram á það. Kjarninn var stofnaður af sex manns, fjórum blaðamönnum, einum fyrrverandi starfsmanni fjarskiptafyrirtækis og einum markaðsmanni. Enginn í þessum hópi hefur nokkru sinni starfað í stjórnmálaflokki. Enginn var fjárfestir eða gæti fallið undir skilgreininguna að vera „úr viðskiptalífinu“. Allt það fé sem lagt var til við stofnunina, heilar fimm milljónir króna, kom af sparnaði þeirra sem stofnuðu miðilinn. Fullyrðing Sigurðar Más, sem Þjóðmál birtir sem staðreynd, er því lygi.
Sigurður Már gerir það næst að atriði að í upphafi hafi Kjarninn átt að vera í eigu þeirra sem stofnuðu hann og án fjárfesta. Í kjölfarið gerir hann það tortryggilegt að hlutafé hafi verið aukið á öðru starfsári miðilsins og selt fjárfestum.
Í því fólst aðallega tvennt: að breyta um birtingarform fyrir efnið okkar og birta það á vefsíðu. Samhliða breyttist tíðnin úr því að vera vikuleg í að vera dagleg. Hitt var það að við sóttum okkur fjármagn til að byggja upp fyrirtækið þangað til að það væri með tekjustofna til að standa undir sér.
Þá vinnu leiddi maður sem heitir Hjálmar Gíslason, einn farsælasti sprotafrömuður landsins. Nær allir sem að Kjarnanum hafa komið sem hluthafar hafa gert það í gegnum Hjálmar, sem enn þann dag í dag er stjórnarformaður miðilsins. Einn þeirra er Vilhjálmur Þorsteinsson, umsvifamikill sprotafjárfestir sem hefur starfað fyrir Samfylkinguna sem gjaldkeri. Samhliða því að þessir aðilar komu inn í hluthafahópinn settist Guðrún Inga Ingólfsdóttir í stjórn Kjarnans sem óháður stjórnarmaður. Þar situr hún enn þann dag í dag og hefur reynst okkur feikilega öflugur liðsmaður. Hún er fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Annar sem fjárfesti í Kjarnanum var Ágúst Ólafur Ágústsson. Hann hafði setið á þingi fyrir Samfylkinguna en starfaði á þeim tíma sem ráðgjafi hjá einkafyrirtæki og hafði, að eigin sögn, lokið stjórnmálaþátttöku. Þegar hann hóf hana að nýju, í aðdraganda kosninga 2017 þá sagði hann sig samstundis úr stjórn miðilsins og hlutur hans keyptur, enda fer virk stjórnmálaþáttaka kjörins fulltrúa ekki saman við það að eiga hlut í fjölmiðli. Um það voru allir hlutaðeigandi sammála.
Nú liggur ekki fyrir hvort að Sigurður Már hafi nokkru sinni byggt upp fyrirtæki, eða fórnað sér í slíkt með því að þiggja lítil eða engin laun árum saman. En það höfum við sem stöndum að Kjarnanum gert. Slíkar áskoranir kallar enginn viti borinn maður yfir sig til að ganga einhverra óljósra pólitískra erinda. Og það er rangt hjá Sigurði Má að slíkt hafi verið, og sé, hvatinn að Kjarnanum.
Rangfærslur rekstur og vinnulag
Í grein Sigurðar Más er farið yfir rekstrartölur Kjarnans á árunum 2014 og út árið 2017. Þar greinir hann réttilega frá því að samanlagt tap á þessum fjórum árum hafi verið 47 milljónir króna.
Í greininni segir: „Tap hefur verið á rekstrinum öll heilu rekstrarárin, þannig að við blasir að aðstandendur miðilsins kjósa að leggja fram töluvert fé til að sú vinstri rödd sem fjölmiðillinn stendur fyrir heyrist. Það kemur þó ekki í veg fyrir að Þórður Snær, ritstjóri Kjarnans, geri gjarnan taprekstur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, að umtalsefni.“
Sigurður Már heldur áfram og segir að lengst af hafi „fjölmiðillinn orðið að treysta á fórnfýsi eigenda sinna, sem hafa hlaupið undir bagga, ýmist með lánum eða auknu hlutafé, en eins hafa starfsmenn í einhverjum tilvikum þegið hlutabréf, sem við þessar aðstæður eru verðlaus. Í seinni tíð hefur miðillinn orðið að skera niður starfsemi sína og flokkast hann nú undir það að vera eins konar bloggsíða sem birtir hugleiðingar Þórðar Snæs og treystir mikið á endurbirtingar frétta úr öðrum fjölmiðlum[...]Afskriftir og endurfjármögnun hefur nokkrum sinnum verið endurtekin, en nú má heita að starfsemi miðilsins sé í lágmarki, tveir ritstjórar og tveir blaðamenn. Af upphaflegu ritstjórninni eru aðeins Þórður Snær Júlíusson og Magnús Halldórsson eftir, sá síðarnefndi raunar mjög laustengdur, býr erlendis og sinnir fyrst og fremst vikuritinu Vísbendingu.“
Sigurður Már starfaði lengi sem viðskiptablaðamaður. Sem slíkur hlýtur hann að vita að það er ekki óeðlilegt að fjárfesta í fyrirtækjum með það að leiðarljósi að byggja upp rekstur sem stendur undir sér.
Frá haustinu 2017 hefur Kjarninn náð því markmiði að vera með sjálfbæran rekstur. Á árinu 2018 var fyrirtækið rekið í jafnvægi*. Velta Kjarnans hefur aldrei verið meiri og aldrei hafa jafn margir starfsmenn og verktakar fengið greidd laun frá starfseminni.
Engin starfsmaður hefur þegið hlutafé að gjöf eða sem endurgjald. Starfsemi Kjarnans hefur ekki verið skorin niður heldur þvert á móti eflst og velta hans aukist. Á þeim 17 vikum sem liðnar eru af árinu 2019 hafa birst tíu leiðarar eftir ritstjóra Kjarnans. Á sama hafa birst yfir þúsund frumunnar fréttir og fréttaskýringar eftir öfluga, duglega og mjög hæfa ritstjórn Kjarnans. Þetta hefði Sigurður Már getað staðreynt með því að telja.
Það er ótrúlegt virðingarleysi af manni, sem gegndi trúnaðarstörfum fyrir fag- og stéttarfélag blaðamanna árum saman, að halda fram jafn ömurlegri og rætinni lygasúpu og Sigurður Már gerir í þessum hluta greinar sinnar.
Til samanburðar, fyrst Sigurður Már nefndi það, þá hafa hluthafar Árvakurs lagt því fyrirtæki til 1,6 milljarð króna á tíu árum. Tap Árvakurs á árinu 2017 einu saman var sexföld sú upphæð sem lögð hefur verið inn í Kjarnann sem nýtt hlutafé. Þá er viðbúið að hluthafar Árvakurs muni leggja því til nokkur hundruð milljónir króna til viðbótar fyrir áramót til að mæta taprekstri.
Til að setja þá fjárfestingu sem farið hefur í Kjarnann, og 15 mismunandi einstaklingar hafa lagt fram, í enn frekara samhengi við þann rekstur sem Sigurður Már nefnir í grein sinni þá er heildarfjárfestingin í Kjarnanum sama upphæð og Davíð Oddsson, annar ritstjóri Morgunblaðsins, fær í laun og eftirlaun á átta mánuðum.
Sigurður Már gerir meira að segja skrifstofuhúsnæði okkar tortryggilegt í grein sinni. Til að draga úr áhyggjum hans get ég sagt Sigurði Má að nýjar höfuðstöðvar Kjarnans eru sannarlega ekki inni á skrifstofu neins, þótt annað fyrirtæki sé á sömu hæð. Fyrir húsnæðið greiðum við eðlilega markaðsleigu og í fyrsta sinn á starfstíma Kjarnans erum við með aðstöðu sem uppfyllir allar okkar þarfir. Sigurður Már er velkominn í heimsókn ef hann vill. Sama gildir um ljósmyndara Viljans sem hætti sér ekki lengra inn en í anddyrið þegar hann var að barna síðustu fram settu samsæriskenningu þess miðils.
Í okkar rekstri höfum við gert mistök. Okkar gæfa hefur falist í því að gangast við þeim mistökum, læra af þeim og hætta í kjölfarið að gera þau. Þess vegna hefur viðskiptamódel okkar þróast mjög frá því að Kjarninn var stofnaður, og margt breyst bæði hvað varðar framsetningu á efni og þau verkefni sem við sinnum.
Rangfærslur um tekjustoðir og auglýsingar
Í dag er staðan þannig að Kjarnasamfélagið, styrkir frá lesendum Kjarnans, eru um helmingur tekna hans. Auglýsingar eru undir fimmtungi þeirra tekna. Og engin þörf hefur verið fyrir nýtt hlutafé inn í reksturinn eða nein lán frá hluthöfum eins og Sigurður Már fullyrðir ranglega í grein sinni. Það er ekki útilokað að Kjarninn sæki sér frekara hlutafé í framtíðinni. En það verður þá gert til þess að stækka reksturinn og auka aflið, ekki til þess að plástra núverandi rekstur. Hann er sjálfbær.
Sigurður Már segir í grein sinni að „meginvandi Kjarnans hefur alla tíð verið að lesturinn hefur látið á sér standa[...] Samræmdar vefmælingar bentu til þess að honum hefði aldrei auðnast að ná út fyrir tiltölulega lítinn kjarna lesenda (svo segja má að miðillinn hafi borið nafn með rentu). Nú er svo komið að Kjarninn nær hvorki á blað í vefmælingum Gallups né Modernus.“
Ástæða þess að Kjarninn kemst ekki á blað í vefmælingum er að hann tekur ekki þátt í þeim. Vefmælingar þjóna þeim eina tilgangi að selja auglýsendum að miðlar séu að ná ákveðinni útbreiðslu og fjölda „klikka“. Auglýsingasala Kjarnans, og fleiri minni miðla sem selja auglýsingar í gegnum vettvang Skyn, er hins vegar þannig að í henni felst sjálfstæð mæling á þeim fjölda sem sér auglýsingarnar, og greitt er eftir því. Þess vegna þjónar engum tilgangi fyrir Kjarnann að greiða fyrir að vera í mælingum á umferð, og þess vegna hættum við því fyrir ansi löngu síðan.
En ég get huggað Sigurð Má við það að vefumferð Kjarnans á árunum 2016, 2017 og 2018 hefur verið mjög stöðug. Ef Kjarninn væri í mælingum þá væri hann í 6-8 sæti að jafnaði yfir mest lesnu vefi landsins.
Það er líka ástæða til þess að benda á að vefumferð, og „clickbaiting“, hefur aldrei verið sjálfstætt markmið hjá Kjarnanum, heldur að sinna vandaðri og öflugri fréttamennsku. Þannig háttar ekki á öllum bæjum í íslensku fjölmiðlalandslagi.
Rangfærslur um skattaskjól og Hannes Hólmstein
Sigurður Már segir í grein sinni: „Leiða má að því líkur að Kjarninn hafi að einhverju leyti verið fjármagnaður með fjármunum sem eiga uppruna sinn í skattaskjólum.“
Annars staðar í greininni segir hann, vegna starfa minna sem stundakennari við Háskóla Íslands þar sem ég kenni hluta af einum kúrs í blaðamennsku árlega, að ég hafi notað „þann vettvang til að efna til kæru til siðanefndar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor. Tilefnið var að Hannes hafði gefið þekktri sögu vængi, en hún snerist um tengsl Kjarnans við erlenda vogunarsjóði. Sagan var í raun aldrei til umræðu nema í formi ásakana Þórðar Snæs og Magnúsar um að tilteknir menn, oftast tengdir Framsóknarflokknum, væru að breiða út slíkar sögur.“
Báðar fullyrðingar Sigurðar Más hér að ofan eru rangar. Kjarninn hefur aldrei verið fjármagnaður með fjármunum sem eiga uppruna sinn í skattaskjólum. Einn eigandi Kjarnans var í Panamaskjölunum. Kjarninn sagði fyrstu frétt um það mál og brást við með viðeigandi hætti. Félag stjórnarformanns Kjarnans, sem hann á hlut sinn í Kjarnanum í, er íslenskt félag og hefur engar tengingar við bandarískt félag sem hann var skráður fyrir þegar hann stýrði íslensku hugvitsfyrirtæki sem síðan var selt erlendis. Þetta á Sigurður Már að vita, sem fyrrverandi viðskiptablaðamaður, en setur mál sitt samt sem áður fram með áðurgreindum hætti.
Rangfærslur um fjölmiðla
Sigurður Már eyðir umtalsverðu púðri í að teikna upp þá mynd að Kjarninn hafi með einhverjum hætti verið stofnaður til höfuðs Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni persónulega. Vert er að benda á að í fyrstu útgáfu Kjarnans, sem kom út í ágúst 2013, var Sigmundur Davíð í forsíðuviðtali þar sem hinn þá nýi forsætisráðherra fór vítt og breitt um völlinn. Það viðtal var ekki tekið upp með leynilegum hlerunarbúnaði heldur í stjórnarráðinu með vitund og vilja Sigmundar Davíðs. Sjálfur hefur hann aldrei gert athugasemd við viðtalið og aðstoðarmaður hans á þeim tíma lýsti sérstakri ánægju með að það væri innihaldsríkt og efnismikið.
Þetta var nú allt samsærið gegn Sigmundi Davíð, manni sem Sigurður Már tók svo til starfa fyrir sem upplýsingafulltrúi og hagaði sér af slíkum óheilindum að þegar fyrir lá að hann yrði áfram við störf eftir að ný ríkisstjórn tók við í byrjun árs 2017 þá höfðu ýmsir fjölmiðlamenn, af nokkrum mismunandi miðlum, samband við ráðgjafa nýrra stjórnarherra og gerðu þeim ljóst að þeir treystu sér ekki til að eiga í samskiptum við hann. Einfaldlega vegna þess að hegðun hans og atferli, og framganga í vinnslu eðlilegra beiðna um upplýsingar sem til hans var beint, hafði verið þess eðlis að þeir treystu honum ekki.
Sigurði Má er reyndar mjög umhugað um Sigmund Davíð, fyrrverandi yfirmann sinn, í greininni. Hann segir meðal annars að umfjöllun um Sigmund Davíð í Panamaskjölunum hafi verið „langt umfram það sem gögnin sögðu til um“ og hann virðist telja að Panamaskjölin hafi verið einhverskonar samsæri Vilhjálms Þorsteinssonar, Kjarnans og fjölmiðla sem „telja má til vinstri í íslenskum stjórnmálum“. Sá miðill sem Sigurður Már telur mest til vinstri er RÚV.
Á þessum tímapunkti fer grein Sigurðar Más á samsæriskenningarstig sem oftast nær er kennt við álhatta. Sigurður Már rekur tengsl ýmissa blaðamanna sem starfað hafa á Kjarnanum við RÚV til að sýna fram á eitthvað sem hann telur óeðlilegt náin tengsl. Þau tengsl eru allt frá því að eiga foreldra sem vinna á RÚV yfir í það að hafa sótt um störf þar fyrr eða síðar á starfsævinni og fengið. Sigurður Már segir m.a.: „Virðist því sem stofnunin hafi tekið að sér að vera griðastaður fyrir starfsfólk Kjarnans.“
Vert er að benda Sigurði Má að RÚV er langstærsta fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi og ekkert óeðlilegt við að fólk sem leggur blaðamennsku fyrir sig sækist eftir því að starfa þar. Meira að segja þeir sem unnu einhvern tímann á Kjarnanum. Það er ekkert leyndarmál að starfsmannavelta í íslenskum fjölmiðlaheimi er mikil. Það getur verið erfitt fyrir litla miðla að halda fólki ef betri kjör og skaplegri starfsaðstæður bjóðast. Í því felst ekkert annað en eðlilegur gangur vinnumarkaðar.
Sigurður Már færir sig svo yfir í það að gera það tortryggilegt að ég sé fastur gestur í Morgunútvarpi Rásar 1 einu sinni í viku til að ræða um efnahagsmál og viðskipti. Þetta tengir Sigurður Már við það að einn þáttastjórnandinn hafi síðar ráðið sig til almannatengslafyrirtækis „á vinstri vængnum“ og að þar vinni maður sem vann einu sinni með mér á fríblaði fyrir 12 árum. Þessu er síðan blandað saman í eina langlífustu sögu skítadreifara sem reyna að draga úr trúverðugleika mínum, um rúmlega átta ára gamla frétt um tvo aðstoðarmenn ráðherra sem ætluðu að reyna að spinna framsetningu á skoðun ríkisstjórnarinnar um það hvort að kaup Magma Energy á HS Orku, sem þá voru í deiglunni, yrðu staðfest eða ekki.
Þetta er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem þessari frétt er teflt fram af mönnum eins og Sigurði Má í einhverri tilraun til að gera mig ótrúverðugan eða að mála mynd um að ég gangi einhverra pólitíska erinda. Allir eiga þeir það þó sameiginlegt að líta framhjá því að framsetning þeirra er röng. En tilgangurinn helgar meðalið.
Einungis nokkrir mánuðir eru frá því að sitjandi þingmaður rifjaði upp sömu sögu og gerði að aðalatriði í bókadómi sem hann skrifaði um bók eftir mig kom sem út fyrir síðustu jól. Ég endurbirti hér að neðan svar til hans, enda á það jafn vel við gagnvart Sigurði Má:
Ef Sigurður Már hefði bara nennt að lesa fréttina sem ég skrifaði um málið, sem ég sannarlega skúbbaði, þá myndi hann sjá að hún er ekki með neinum hætti í samræmi við þennan ætlaða spuna sem aðstoðarmennirnir ræddu um. Þvert á móti er hún mun ítarlegri, enda byggð á öðrum upplýsingum en þeirra. Hægt er að lesa fréttina hér og sjá tölvupósta aðstoðarmannsins hér.
Sigurður Már sér einnig samsæri í því að ég stýri einu sjónvarpsviðtali í viku á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og að Kjarninn sé í samstarfi vegna útgáfu fríðblaðsins Mannlífs og birti þar fréttaskýringu hvern föstudag. Og hann sér samsæri í því að Kjarninn hafi keypt Vísbendingu, áskriftarrit um efnahagsmál og viðskipti, úr fjölmiðlafyrirtæki sem Benedikt Jóhannesson leysti upp þegar hann fór á þing.
Ofangreint samstarf Kjarnans við ýmsa fjölmiðla hefur verið mjög gjöfult fyrir alla aðila. Ástæður þess er að leita í afleitu rekstrarumhverfi en samstarf til að lifa af og upplýsa almenning getur varla verið annað en til bóta. Ég skammast mín ekki fyrir að vera duglegur og útsjónarsamur þótt að Sigurður Már líti slíkt hornauga.
Rangfærslur um stjórnmálaflokka og saga af hagsmunagæslu
Í grein Sigurðar Más segir: „Af ritstjórnarefni og fréttum Kjarnans má vel ráða pólitískt leiðarhnoð hans, en það er borgaraleg vinstristefna sem teygir sig allt frá Vinstri grænum um Samfylkingu og yfir á miðjuna til Viðreisnar, en oft má fremur greina hana af andstæðingunum en samherjunum. Hún er raunar svo fyrirsjáanleg (og greinarnar langorðar) að gárungar í fjölmiðlastétt hafa uppnefnt miðilinn Kranann.“
Það er semsagt niðurstaða Sigurðar Más, í grein um það hvernig einhver pólitísk öfl hafi keypt sig til áhrifa í gegnum Kjarnann, að hann gangi pólitískra erinda að minnsta kosti þriggja stjórnmálaflokka. Vinstriflokksins Vinstri grænna, jafnaðarmannaflokksins Samfylkingarinnar og hins frjálslynda hægra-megin-við-miðju Viðreisnar, eða nafngreindra einstaklinga sem tengjast beint eða óbeint þessum flokkum. Þetta er ansi breitt svið og erfitt að fá þessa pólitísku samsæriskenningu til að ganga upp.
Nema að allir séu bara „vinstri“ utan þeirra sem deila algjörlega heimssýn Sigurðar Más Jónssonar. Manns sem telur sig vera í stöðu til að gagnrýna fjölmiðil þar sem enginn núverandi starfsmaður hefur nokkru sinni starfað í stjórnmálaflokki fyrir pólitíska slagsíðu, þegar hann hefur sjálfur varla unnið í fjölmiðlum frá því að hann var rekinn af Viðskiptablaðinu árið 2010 og síðasta fasta starf hans var sérhagsmunagæsla fyrir stjórnmálamann.
Á síðustu metrum Sigurðar Más í blaðamennsku þá störfuðum við saman stuttlega, á árunum 2009 og 2010. Um var að ræða þann tíma sem uppgjör á bankahruninu var allsráðandi og hlutverk fjölmiðla í því að upplýsa almenning um hvað það væri sem hefði gerst og umturnað íslensku samfélagi var feikilega mikilvægt, sérstaklega áður en að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt í apríl 2010. Á þessum stutta tíma lagði Sigurður Már lítið til annað en meðvirkni gagnvart mörgum umfjöllunarefnum blaðsins. Eftirminnilegt er samband hans við lykilmenn í kringum Kaupþing, sambandi sem mun frekar verður lýst sem þjónustusambandi en eðlilegu sambandi blaðamanns og viðfangsefnis. Á síðari árum hefur Sigurður Már skrifað fyrir bókaútgáfu sem er stýrt af fyrrverandi lykilmanni innan Kaupþingssamstæðunnar. Fyrirtækis sem ég skrifaði bókina Kaupthinking – Bankinn sem átti sig sjálfur um, sem kom út fyrir síðustu jól og hlaut Blaðamannaverðlaun Íslands fyrr á þessu ári.
Rangfærslur um þolanda
Þótt öll grein Sigurðar Más sé þess eðlis að um rætin níðskrif sé að ræða sem hafi þann eina tilgangi að fóðra einhverja ótrúlega óvild í garð Kjarnans og þeirra sem standa að honum, þá fer hann niður í svað á einum stað hennar sem tekur öllu öðru fram.
Þar fjallar hann um það þegar fyrrverandi hluthafi í Kjarnanum og þingmaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, braut gegn blaðamanni Kjarnans, Báru Huld Beck. Þar gagnrýnir Sigurður Már skort á umfjöllun Kjarnans um málið, segir „litlar fréttir hafa verið fluttar af viðbrögðum stjórnenda Kjarnans af atvikinu“ og að „augljóst var þó að Bára Huld var ekki ánægð með hvernig tekið hafði verið á máli hennar“.
Við Sigurð Má vegna þessa vil ég segja: Það er alltaf þolenda að ákveða í hvaða farveg brot gegn þeim fara. Fyrirtæki, eða stjórnendur fyrirtækis, geta aldrei tekið þá ákvörðun fyrir þolendur sem hjá þeim starfa. Það sem stjórnendur fyrirtækja þolenda sem verða fyrir áreitni eða annars konar ofbeldi geta og eiga að gera er hins vegar að styðja þá þolendur að öllu leyti. Það hefur Kjarninn gert í einu og öllu. Hér er til að mynda yfirlýsing stjórnar og stjórnenda Kjarnans vegna málsins sem birt var eftir að þolandinn ákvað, sjálf með okkar stuðningi, að svara yfirlýsingu gerandans í málinu opinberlega. Þar segir m.a. „Hegðun hans var niðrandi, óboðleg og hafði víðtækar afleiðingar fyrir þann sem varð fyrir henni. Afleiðingar sem eru bæði persónulegar og faglegar. Stjórn og stjórnendur Kjarnans gerðu þolanda ljóst frá upphafi að hann réði ferðinni í þessu máli og til hvaða aðgerða hann taldi réttast að grípa.“
Hvernig Sigurður Már fær það út að þolandinn í málinu sé ekki ánægð með hvernig tekið hafi verið á máli hennar innan Kjarnans er mér hulin ráðgáta. Hann spurði hana að minnsta kosti ekki hvort svo væri áður en að hann fór að gera henni upp skoðanir. Ég sit hins vegar við hlið þolandans á hverjum degi. Og er þar af leiðandi dómbærari um að meta hverjar afleiðingar þessa máls á hana hafa verið en Sigurður Már Jónsson.
Hvað vakir fyrir Sigurði Má?
Við lestur greinar Sigurðar Más velti ég fyrir mér hvað vakti fyrir honum. Hvaðan stafar þessi gríðarlega óbilgirni og vilji til að meiða og eyðileggja. Raunveruleikinn er nefnilega sá að svona framganga, að ljúga upp á menn og fyrirtæki ömurlegum hlutum, hefur tilhneigingu til að virka svo lengi sem hún sé endurtekin nógu oft.
Í niðurlaginu birtist kannski líklegasta skýringin á skrifum Sigurðar Más. Á morgun, föstudag, er stefnt að því að leggja fram frumvarp um fjölmiðla í ríkisstjórn, en samkvæmt því munu einkareknir fjölmiðlar geta fengið styrki frá hinu opinbera að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Augljóst er að Sigurði Má er mjög í mun um að reyna að koma í veg fyrir að Kjarninn fái slíka styrki. Undir lok greinarinnar segir: „Engum blöðum er um það að fletta að viðvarandi taprekstur Kjarnans hvílir þungt á eigendum, eins og sést á því að ritstjóri Kjarnans sækir fast eftir ríkisstyrkjum nú þegar allt lítur út fyrir að Alþingi samþykki að veita fjölmiðlum slíka styrki. Mikið álitamál er þó enn hvort miðillinn uppfyllir kröfur þær sem gerðar eru til styrkhæfra fjölmiðla, þar sem sáralítið er þar um frumframleiðslu frétta, en slíkt verður tíminn að leiða í ljós.“
Allt sem Sigurður Már segir í þessari setningarrunu er rangt. Kjarninn tapar ekki peningum, líkt og rakið hefur verið, Kjarninn frumvinnur nær allt efni sem á honum birtist, líkt og rakið hefur verið, og Kjarninn uppfyllir öll sett skilyrði frumvarpsins eins og það var sett fram í samráðsgátt stjórnvalda.
Forvitnilegt verður að sjá hvort að áróður Sigurðar Más, og ýmissa annarra sem hafa haldið sambærilegu fram, meðal annars forsvarsmanna Árvakurs, hafi náð eyrum þeirra ráðherra og þingmanna sem komið hafa að lokagerð frumvarpsins. Hvernig sem það frumvarp verður þá skal það sagt hér að Kjarninn verður áfram til hvort sem styrkir til fjölmiðla verði að veruleika eða ekki. Sigurður Már og aðrir af hans tegund verða að sætta sig við það.
Að lokum vil ég vitna í áðurnefnda niðurstöðu siðanefndar Háskóla Íslands vegna brota Hannesar Hólmsteins á siðareglum skólans með lygum um Kjarnann. Þar sagði m.a.: „Grundvöllur tjáningarfrelsisins er frelsið til að tjá skoðanir sínar og hugmyndir, en ekki frelsi til að segja hvað sem er um hvern sem er eða hvar sem er.“
Þetta eru skilaboð sem Sigurður Már Jónsson, sem titlar sig blaðamann, mætti taka til sín.
Við ykkur hin sem viljið styðja við frjálsa og aðgangsharða blaðamennsku, sem hefur það eina leiðarljós að upplýsa almenning, getið gert það með því að ganga til liðs við Kjarnasamfélagið hér.
Þeir sem hafa þegar gert það geta hækkað framlag sitt ef þeir vilja með því að senda tölvupóst á takk@kjarninn.is.
Við erum ekki að fara neitt.