Ég er nógu gömul til að muna eftir þegar að lokum Roe versus Vade-lögin voru samþykkt í Bandaríkjunum en það var mikill léttir fyrir konur víða um heim því þá var litið til Bandaríkjanna varðandi mörg jafnréttismál.
Konur sem höfðu á einn og annan hátt verið kynlífsþrælar karla um aldir og þess vegna neyðst til að ganga með og fæða mikið fleiri börn en þær hefðu óskað eftir. Og þær því miður oft of hræddar við að segja nei við karla sem voru með kynlífsfíkn og gátu ekki samþykkt neikvætt svar, og sem ofan á það gætu hafa lamið þær fyrir að neita þeim um aðgang inn í þær.
Karlar sem svo oft hlupu og hlaupa frá því að sinna barninu sem sæði þeirra hafa átt hlut í að skapa.
Leiðtogar trúarbragða og stjórnmálamenn tala um ótal loforð þegar þeir vilja stjórna konum á þennan hátt, eins og þessir þrír stjórnmálamenn á Íslandi og óteljandi slíkir víða um heim sem vilja og ná því miður að gera. En þeir sjá aldrei um velferð mæðra eða barna og lofa einhverju frá himnum sem er loftbóla því peningum fyrir mat og öðru rignir ekki þaðan.
Loforðin til að plata þær og aðra til að samþykkja þær hugmyndir verða aldrei að veruleika, og ef þau að ólíkindum verða það um tíma breytist það með nýjum ríkisstjórnum sem hafa aðrar hugmyndir um mannlega lífsbaráttu. Og það sem ég les í blöðunum á netinu um hin ýmsu kerfi á Íslandi í dag, segir mér að loforð eða hugsun þessa manns sem kom með loforð um að hjálpa óvelkomnum börnum stenst í raun ekki. Og ekki yrði hann heldur barnapía þeirra né myndi borga allan aukakostnað fyrir hvert barn sem kæmi og hvað þá að hann myndi þá læknishjálp fyrir mæður og börn sem þau gætu átt eftir að þurfa á að halda.
Ég hitti mann í Þórskaffi um árið sem var að leita að konu til að vera tilbúin að láta hann barna sig. Og það var af því að hann var í sæðis-samkeppni við systkini sín. Þegar ég spurði hann út í hvort hann sinnti syninum sem hann átti með konunni sem hann var giftur og spurði hvort hann hefði sinnt honum, kom ég að tómu andliti. Hann sagði mér að hún vildi ekki fleiri börn með honum og skildi ekki hvað ég væri að tala um varðandi þörf barna fyrir að foreldrar hefðu áhuga fyrir þeim, elskuðu þau og sinntu. Hann sá greinilega ekki neina þörf fyrir það, og hafði trúlega ekki átt föður sem sinnti honum heldur og þannig áttu börn hans bara að eiga mæður.
Hann sá greinilega ekki neina þörf á því að faðirinn elskaði né sinnti barni sínu, bara að hann gæti sýnt með líkömum þeirra að sæði hans virkaði. Og ég sagði honum að ég skildi konuna hans vel að vilja ekki fleiri börn með honum fyrst að hann hefði engan áhuga fyrir þeim, nema sem einskonar bikara um ímyndaða karlmennsku, frekar en ást og tengingar. Hann vann mikið úti á landi og var sjaldan heima.
Fyrrverandi eiginmaður minn á Íslandi mátti vera við fæðingu seinna barnsins sem ég fæddi í heiminn, en flýði þegar búið var að klæða hann í gallann.
Barnsfaðir vinkonu minnar lét sig hverfa í sjóinn um árið af því að hann hafði skilið sæði sitt eftir án ábyrgðar of víða, og hafði ekki efni á að borga öll meðlögin. Ég velti því fyrir mér hversu margir of lauslátir menn sem samt fengu aldrei stimpla á við konur hafi kannski gert það sama. Og þar með gert börn sín föðurlaus af því að þeir höfðu engan áhuga fyrir þeim sem mannverum sem slíkum, en allan áhugann og þörfina til að sanna sæðisvirknina.
Það voru líka karllæknar og karlar sem neituðu konum um þungunarrof og helltu ókvæðis orðum að þeim um að „þær ættu ekki að leika sér með eldinn“. Þeir héldu ræðu sem kom með algerri tilfinningalegri kuldadembu og engri hugsun um hlut karlsins í því dæmi. Ég upplifði slíka ræðu af einum lækni.
Karlar dæmdu konurnar sem þeir náðu að hafa kynmök með sem lauslátar, en karlkyn hefur sloppið við það að fá slíka athugasemd og dóm fyrir að vera út um allan bæ með sína kynþörf. Hvernig eiga þeir að gera það með konum eða körlum án þess að fá samskonar stimpil og konum eru gefnir.
Blóðið í mér sýður við að lesa að þessi umræða geti komið upp núna hálfri öld síðar þegar við sem börðumst fyrir þeim rétti að ráða hverju við fæddum í heiminn því að það eru enn önnur mikilvæg mannleg málefni til að vinna að. Ekki fara afturábak með það sem þegar var talið sorterað og öruggt.
Ég er á hinn bóginn svo glöð að sjá unga feður hér í Adelaide með börnin sín sem hafa virkilega tengingu við þau og tala við þau. Það hreinlega kallar stundum fram í mér gleðitár af því að ég sá það ekki með mína kynslóð feðra né feður minnar kynslóðar sem er fædd um miðja síðustu öld.
Feður sem komu í heimsókn bæði á Fæðingardeildina árið 1971 og Fæðingarheimilið 1973 sýndu aldrei þær tilfinningar við að sjá sín fallegu og nýkomnu börn, og ef eitthvað voru þeir vandræðalegir. Ekkert líkt því sem maður sér í þáttunum „One Born every minute“ frá Bretlandi. Og í samtali við leigubílstjóra um slík málefni viðurkenndi hann að hafa verið þannig, fjarlægur og áhugalaus um barnið, þegar ég sagði það. Hann játaði að það hefði verið af því að honum var svo um að fá kynmökin, en hafði ekki haft neina hugsun um að barn gæti orðið úr þeim. Hann er áreiðanlega alls ekki sá eini með slíkt dæmi um aftengingu á milli kynfæra, hjarta og heila við að losa sig við sæðið.
Svo virðist sem þessir karlar á þingi sem vilja neita konum um sinn ákvörðunarrétt séu með gömlu úreltu sýnina á þessi mál. Það eru svo mikil vonbrigði og svo særandi að sjá þessa dálka þar sem næstum eintómir karlar vilja ráða yfir konum á þennan hátt og telja að sæði sitt eigi allan rétt yfir öllu öðru án tenginga við það hvort þeir séu í sambandi eða hjónabandi, eða með þá þrá að hafa gott og innihaldsríkt samband við þau börn sem þeir eigi hlut í að koma í þennan heim. Það eru milljónir barna í dag föðurlaus, og ekki af því að þeir séu allir dánir.
Ég hafði vonað að þessi umræða og árásir karla á ákvörðunarétt kvenna um hvort og hvenær og ef kona vill og getur séð sér fært um að fæða börn í heiminn, væri liðinn. Það eru meira en nóg af mannverum á jörðunni og of mörg börn sem upplifa sig óvelkomin, höfnuð og yfirgefin.
Sagan er önnur þegar það eru hjón sem vita hvað þau vilja og hafa efni á og sjá þá um það saman hvort að slys vegna brostinna getnaðarvarna þurfi að verða þungunarrof.
Svo það er svo margt sem þarf að hugsa um til að skoða þetta með að bjóða blessuð börnin í heiminn, og konur þurfa ekki á slíkum yfirráðs-skilaboðum að halda frá þeim sem svo eiga auðvelt með að vanrækja þau börn sem þeir eiga þátt í að skapa, þó að það sé líkami konu sem sjái um meirihlutann. Fæðingin – að koma heilum líkama út úr sér – er stórt og erfitt verk í sjálfu sér.
Það er annað mál í gangi með þau sem þrá að fá börn inn í líf sitt en eiga erfitt með getnað. Það er allt annað dæmi og ég hef samkennd með þeim en hef ekki verið í þeim sporum og get ekki farið inn í þau mál.