Á þeim tímum þegar birta marxismans grúfði enn yfir vötnum og við unga fólkið í Vesturberlin skemmtum okkur við þrætubók, listgrein þar sem deilt er af djúpu hugviti um mikilvæg fánýti, þá var leitin að algildum lögmálum mikilvægust. Illkvittnin hafði það á orði, að þessi leit væri eins og að vera staddur í myrkvuðu herbergi með bundið fyrir augun í leit að svörtum ketti, sem væri þar ekki. Ekki veit ég af hverju mér hefur iðulega dottið þessi samlíking í hug þegar ég hef lesið andgreinar við Mikla Þriðja Orkupakkann (O3). Hann virðist vera orðinn örlagavaldur íslensks sjálfstæðis. Andstæðingar O3 hafa , eins og við forðum, fundið sannleik sem enginn er.Það er kostbær uppgötvun.
Áhyggjur um framtíð þjóðarinnar er sígilt viðfangsefni og verðugt. Hætturnar eru víða og hnattrænar tengingar þjóða, sem aukast munu, hafa ekki dregið úr þeim. En hætturnar eru bæði innan- sem utanlands. Sumir segja að aðild okkar að EES sé ógn við fullveldið. Því verði að finna ráð til að losa okkur þaðan. Og vissulega má deila um það, hvað sjálfvirk áskrift okkar að vönduðu lagasafni ESB þýði fyrir þjóð sem vill kalla sig fullvalda. Það er allavega skynsamlegra að leita þar að veikleikum og hættum fullveldisins og framtíð okkar grænu orku en í O3. Orkan og fullveldið ráðast af þróun alþjóðamála, ekki af O3. Á pólitískum sjóndeildarhring þjóðarinnar blasa við stórmál sem hvorki eru reifuð né rædd, meðan efnisrýr orkupakki fær yfir sig fordæmingarflóð. Já, við gerum okkur dagamun með spakvitrum tittlingaskít og andríkum útúrsnúningum.
Samfélagsauður á fáar hendur
Við sem nú lifum erum vitni af afdrifaríkum breytingum í umhverfi okkar sem verðugra er fyrir hugvitsmenn að glíma við en O3. Þar er fyrst að nefna þá hröðu og umfangsmiklu auðsöfnun og samþjöppun auðs sem hér á sér stað. Það líður vart sú vika, að ekki komi fréttir af kaupum þekktra “íslenskra auðhringa” sem bæta nýjum fyrirtækjum í eignasafn sitt. Um tíu til fimmtán fjársterka viðskiptahópa er að ræða, sem stýra stórum hluta viðskiptalífsins. Þeim mun fækka og stækka, ef ekkert verður að gert. Samþjöppun auðs skekkir og afbakar samkeppnina. Syfjulegt Samkeppniseftirlit fær ekki við neitt ráðið.
Spyrja má hvað sé svona varhugavert við þessa samþjöppun? Jú, samkeppnin, sem er helsta vörn almennings á vörumarkaði, visnar og/eða hverfur. Íslendingar hafa að vísu löngum haft illar bifur á samkeppni, notað hana sem skammaryrði. Kaupfélögin byggðu á samvinnu ekki samkeppni. Almenningur hefur yfirleitt meiri áhyggjur af velferð framleiðenda en neytenda. Það skýrir margt öngstrætið.
Mikil og skjót auðsöfnun
Það er eins og Hrunið hafi hreinsað hagkerfið af hvimleiðum hindrunum og afskiptum almannavaldsins, en umfram allt af skuldum Tortólunga. Við ýtum áfram undir þessa auðsöfnun með skattleysi auðlindanýtingar í sjávarútvegi og lágum fjármagnstekjuskatti. Auðsöfnun er þó mest í sjávarútvegi, þar er hagnaðurinn mestur. Það var fyrirséð afleiðing þess að afhenda þeim gjöfulustu auðlind landsins nánast án endurgjalds. Hroki og dreissugheit eru fylgifiskar mikils auðs. Hrokafull afstaða ríkisstjórnarinnar til Mannréttindadómstólsins ber vott um forherðingu, sem eftir er tekið.
Auður felur einnig í sér samfélagsleg völd. Mikill auður felur í sér mikil völd, einkum pólitísk. Það holar innan lýðræðiskerfið. Í stað sjálfstæðra fulltrúa kom talhlýðnir gæslumenn sérhagsmuna. Nú ríða engir um héröð og spyrja hverjir hafi keypt Ísland? Af hverju er þetta ekki frekar á dagskrá en orkupakka greyið?
Loftslagsváin
Stærsta váin sem mannkynið hefur nokkru sinni tekist á við er nú að ganga yfir hnöttinn. Velgerðir og gagnlegir sjónvarpsþættir hafa vakið margan af svefni syfjaðra. Við vitum að bæði vistkerfi jarðar og siðmenning mannsins eru í húfi eða réttara sagt komin á góðan veg til glötunar. Við höfum gripið til flokkunar heimasorps og farið í stríð við plastpokana og hafið orkuskipti á bifreiðum. Allt eru þetta réttar ákvarðanir en gagnslitlar í stóra samhenginu geng vánni. Við sniðgöngum stóru aðgerðasviðin s.s. flug- og farmsamgöngur, stóriðjuna, mannfjölgun, eyðifláka og framræst votlendi. Enn eru grafnir skurðir til að þurrka vota jörð; enn er beitt fé á örfoka land; enn er flugferðum fjölgað og uppbygging nýrra atvinnugreina og tækifæra fagnað eins við upphaf síðustu aldar. Ný stóriðju- og virkjanaáform fá lofsamlegar umsagnir og opinbera fyrirgreiðslu, eins og enginn hafi skilið hvaða afleiðingar það muni hafa.
Á virkilega að leyfa og hvetja einhverja útlendinga til að reisa stóra úthafsskipahöfn norður í Finnafirði? Verkefnið hefur fengið opinberan ríkisstyrk! Já, við höldum ótrauð áfram að skara eld að útrýmingu vistkerfa og dýralífs á jörðinni. Við erum m.v. íbúafjölda sú þjóð, sem gengur lengst í því að ganga af göflunum í mengun og losun koltvísýrings. Og enn er hvatt til aukningar á öllum sviðum. Hvar eru nú málsmetandi stjórnmálamenn sem þora? Hvar eru stjórnmálaleiðtogarnir? Eru þeir allir á kafi í þriðja orkupakkanum? Kemur hann í staðinn fyrir umræðuna um auðinn; í staðinn fyrir átökin um framtíðina? Skyldi hann vera auðveldari meðferðar en stóru málin, sem munu skilja milli feigs og ófeigs.