Í hugum margra eru stjórnir lífeyrissjóða lokaðir klúbbar fyrir útvalda. Sjálfur er ég í Frjálsa lífeyrissjóðnum og tel það jákvætt að hve miklu leyti sjóðurinn sker sig frá öðrum lífeyrissjóðum sökum sjóðfélagalýðræðis til kosningar stjórnar á aðalfundi á ári hverju. Því má segja að fyrirkomulag Frjálsa lífeyrissjóðsins í dag sé að mörgu leyti það besta sem á verður kosið.
Það hefur þó blásið um Frjálsa að undanförnu. Lífeyrissjóðurinn hefur átt stormasöm tvö ár og hafa sjóðfélagar krafið stjórn sjóðsins um upplýsingar um hin ýmsu mál, má þar helst nefna fjárfestingu sjóðsins í United Silicon og aðdraganda hennar, sem kostaði sjóðinn stórfé.
Í ár verður tímamóta fundur en þá verður í fyrsta skipti á valdi sjóðfélaga Frjálsa lífeyrissjóðsins að kjósa öll sæti í stjórn, en undanfarin ár hefur Arion banki tilnefnt þrjá af sjö stjórnarmönnum. Ég býð mig fram til setu í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins til að gefa sjóðsfélögum val á aðalfundi mánudaginn 13. maí næstkomandi.
Það er margt sem betur mætti fara í stjórn sjóðsins og ég bendi sérstaklega á fjögur mál sem ég tel mikilvægt að vinna að.
Í fyrsta lagi legg ég til að það verði skylda að kosningar til stjórnar sjóðsins verði rafrænar. Á aðalfundinum í næstu viku verður borin fram breytingatillaga stjórnar, sem kveður á um að stjórnin skuli hafa heimild til að halda rafrænar kosningar. Hér vil ég ganga enn lengra og gera rafrænar kosningar að skyldu því kostirnir eru svo ótvíræðir, rafrænar kosningar myndu meðal annars auðvelda sjóðfélögum um allt land að taka þátt í starfi sjóðsins.
Í annan stað þá er endurskoðunarnefnd sjóðsins skipuð stjórnarmönnum sjóðsins. Ég legg til að utanaðkomandi aðilar verði fengnir inn í endurskoðunarnefnd sjóðsins.
Í þriðja lagi þarf að fara betur í saumana á því af hverju kostnaður Frjálsa er miklu meiri en í Almenna lífeyrissjóðnum, en báðir sjóðir eru svipaðir að stærð. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan munar þarna gríðarlegum fjárhæðum. Tölurnar eru fengnar úr ársreikningum sjóðanna en samanburður milli sjóðanna var birtur á síðasta aðalfundi.
Fjórði og síðasti punkturinn sem ég tel vert að leggja áherslu á snýr svo að frelsi Frjálsa lífeyrissjóðsins. Frjálsi er í dag í einskonar fjötrum Arion banka og núverandi stjórn hefur lagt fram tillögu sem mun að öllum líkindum festa sjóðinn hjá Arion banka um ókomna tíð, en lagt er til að það þurfi 2/3 hluta atkvæða á aðalfundi Frjálsa til þess að breyta um rekstraraðila. Ég tel mikilvægt að sjóðfélagar og stjórn hafi val um að bjóða út rekstur sjóðsins fremur en að vera bundin einu fjármálafyrirtæki. Því tel ég að réttast sé að hafna þessari breytingatillögu eins og hún er lögð fram í dag.
Ég hvet sem flesta sjóðsfélaga til að mæta á aðalfundinn og nýta lýðræðislegan rétt sinn til að greiða atkvæði. Sjóðurinn telur hátt í 60 þúsund manns og tækifæri sjóðfélaga til að móta framtíð sjóðsins er núna. Sjáir þú þér ekki fært að mæta er ég tilbúinn að fara með umboð fyrir þína hönd og koma framangreindum málefnum á framfæri.
Höfundur er sjóðfélagi í Frjálsa og viðskiptafræðingur.