Nýleg grein mín í Kjarnanum um 3. orkupakkann er tilefni svargreina tveggja manna, Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings og Haralds Ólafssonar veðurfræðings. Hér á eftir fara nokkur andsvör mín sem vinstrisinna, en þó hvergi tæmandi.
Valdheimildir ACER
Auðvelt er að auka hressilega við valdheimildir ACER með ísmeygilegu orðalagi um alþjóðlega valdastofnun í orkumálum, yfirþjóðlegan landreglara og spámannlegum orðum um að ACER muni þróast í Orkustofnun Evrópu og þvinga fram sæstreng til Íslands. Hún hefði lagaheimildir svo sem til að gefa út rannsóknarleyfi vegna virkjana, yfirfara innlendar kerfisáætlanir raforkuflutnings með endanlegum úrskurði um magnsölu til annarra landa og fleira skylt. Öllu sannara væri að upplýsa hvað valdsvið ACER innifelur í raun. ACER hefur eftirlit með raforkusölu milli landa og með virkri samkeppni og gegnsæjum neytendamarkaði innanlands í ESB-löndum og þeirra á milli. Í öllum tilvikum er um sölu- og neytendamarkað að ræða með hefðbundnum viðskipti með tvíhliða samningum, útboðum eða uppboðum skv. gildandi lögum hvers lands. ACER safnar líka gögnum og þekkingu.
Komi til óleystra deilna milli viðskiptaaðila, svo sem fyrirtækja eða fyrirtækja og ríkis, eða jafnvel tveggja ríkja (munum að algengt er að ríki eigi orkufyrirtæki og í sumum tilvikum líka flutningskerfi), skiptir ACER sér af því, reynir málamiðlun en fellir úrskurði, gerist þess þörf. Það er vissulega yfirþjóðleg niðurstaða, rétt eins og er með fjölmargar deilur sem vísað er til alþjóðlegra stofnana í ljósi alþjóðlegra reglna eða samninga. Nefna mætti deilur um samkeppnisreglur, fjármálaeftirlit, mannréttindamál og reglur um eiturefni eða matvæli. Við afsölum matskenndum hluta ríkisvalds í hvert sinn sem við tökum upp eða fullgildum ýmis konar innleiðingar og samninga í krafti fullveldis. Afsölum okkur ekki, í sömu andrá, hluta fullveldis nema um sé að ræða verulegt afsal ríkisvalds. Og um það er deilt í tilviki 3. orkupakkans, þó með meirihluta sérfræðinga að baki því mati að afsal ríkisvalds í því tilviki teljist ásættanlegt og ekki brot á stjórnarskrá. Sérstakur fyrirvari, sem viðurkenndur er t.d. af sameiginlegu EES-nefndinni, eykur á öryggið að þessu sinni.
Í tilviki EES-ríkja, hafi 3. orkupakkinn gildi þar, fer ESA með þetta vald, byggt á drögum ACER. Öllu skiptir að um er að ræða mál er varða viðskipti byggð á þeim orkuflutningi sem í gildi er en ekki deilumál um að einn aðili neitar að selja meiri orku en er á lausu eða neitar að bæta við flutningskerfi sitt yfir landamæri – nema í því tilviki að hann beinlínis uppfylli ekki eða brjóti frágenginn samning. Um þvingunaraðgerðir ACER gagnvart þeim er stunda orkuframleiðslu í samræmi við lög og reglur fullvalda ríkja eða selja raforku úr landi hef ég ekki fundið dæmi. Orð um að ESB berji nokkuð á Frökkum um skipan orkumála stafar af vanefndum þeirra á orkuáætlunum sem lagðar voru fyrir ESB og bandalagið tók góðar og gildar. Kýpur framleiðir orku með jarðefnaeldsneyti, sólar- og vindorku. Eyjan mun tengjast Grikklandi, Krít og Ísrael með sæstreng. Í gögnum þar um get ég ekki fundið valdboð, heldur sameiginleg markmið Kýpur og ESB um vaxandi hluta endurnýjanlegrar orku í landinu, orð um samninga og sjálfstæðar ákvarðanir Kýpverja, eftir því sem best verður séð.
Sameiginlegur orkumarkaður
Auðvelt er að láta líta svo út að til muni verða orkubandalag Evrópu, einkum ef ekki er tiltekið hvað í því felst. Sér í lagi ef spunnin er tortryggni í kringum innri orkumarkað álfunnar. Sjá menn fyrir sér orkusviðsmynd þar sem fullvalda ríkjum (stjórnvöldum og/eða fyrirtækjum) er fyrirskipað að framleiða tiltekið orkumagn með tilteknum aðferðum og enn fremur sameiginlega innri verðmyndun (sum staðar með niðurgreiddu verði?) og loks fyrirskipanir um að selja ákveðið magn raforku úr landi skv. 5 eða 10 ára áætlun? Allt bixið byggt á því að stjórnvöld lúti miðstýringu Evrópuþingsins og ráðamanna ESB í Brussel? Hver veit hvað verður eftir umbyltingar, stríð eða hrun vegna loftslagsbreytinga en sviðsmyndin er einber tilbúningur. Grunnnetin viljum við hafa í opinberri eigu og það eru þau.
Eins og innri orkumarkaður ESB snýr fyrir mér, er hann þvert á móti grundaður á tvenns konar markmiðum: Samvinnu um þá mögulegu raforkusölu sem ríki geta/vilja stunda yfir landamæri, á forsendum kapítalísks markaðar, og aukinni hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í heildar orkuframleiðslu álfunnar, líka á forsendum samninga og kapítalísks markaðar. Ekkert í 3. orkupakkanum ber vott um það sem teiknað var upp hér að ofan, um miðstýrt orkubandalag. Vel má vera að ESB semji í framtíð við ríki um sjálfstæða áætlun hvers þeirra um orkuskipti í framleiðslu- og dreifingargeiranum og um eftirlit með að sá samningur sé haldinn. Það væri væntanlega í þágu andófsins gegn hlýnun jarðar og ekki sjálfkrafa af hinu illa, væru yfirráð ríkja yfir eigin auðlindum á landi óskert. Verði 3. orkupakkinn innleiddur hér og í Noregi (og Lichtenstein), yrði Noregur hluti af innri markaðnum hvað eftirlit með viðskiptum varðar, enda löngu þræltengdur um sjó yfir. Ísland verður það ekki nema sæstrengur sé samþykktur og lagður.
Furður um frjálst flæði vöru
Ekki finnast dæmi um að Noregur sem EES-ríki eða ESB-ríkin hafi misst ákvörðunarvald yfir hve mikil raforka er framleidd innanlands, hvar og með hvaða hætti. Ekki heldur um að ACER eða aðrir aðilar innan ESB hlutist til um að tengingum sé þröngvað upp á lönd. Ekki um að Svíþjóð hafi lotið í gras fyrir kröfum um tengingu sína við Finnland og orkumagnið um hann. Það er fráleit rökleysa rétt eins og að einkaaðili eða norska Statkraft geti krafist raflínu til Svíþjóðar af því að þar bíði kaupandi. Frjálst flæði vöru er auðvitað ekki alfrjálst. Ávallt verður að líta til lagaumhverfisins, eðli framleiðslunnar og í sumum tilvikum líka laga um dreifingu eða flutning vörunnar að landamærum. Um raforku eru í gildi viðeigandi lög í hverju landi, orkustefna, framleiðsluáætlanir, jafnan opinberar og bundnar umhverfismati og opinberum leyfum (s.s. orkustofnunar, sveitarfélaga og ríkisstofnana - jafnvel þings), kerfisáætlanir flutnings, og lagningarleyfi lína um einkalönd eða þjóðlendur. Hvað sæstrengi varðar bætast við leyfi til lagna um landgrunn og efnahagslögsögu. Furður um að EES-samningurinn, með sínu fjórfrelsi og ákvæði um full yfirráð yfir auðlindum, opni á alls kyns skyldur sem neyða tengingu raflína við önnur Evrópuríki upp á EES-ríki, af því að raforka er vara, er þunnt lap. Opnað er fyrir frjálst flæði vöru milli landa sem búa við fjórfrelsið með samningum og markaðslausnum. Vissulega liðka opinber yfirvöld oft fyrir viðskiptum en þá án framkvæmdaskyldu samkvæmt afarsamningum eða samkvæmt fyrirskipunum að utan.
Að lokum
Aðild Íslands að alþjóðlegum samningum tryggir vart til langframa að ekki verði grafið undan fullveldinu eða sjálfsákvörðun okkar hvað auðlindir varðar. Samningar geta tekið neikvæðum breytingum og pólitískar sviptingar geta miklu breytt. Það er þá almennings og kjörinna fulltrúa að sjá við slíku með samstöðu og framsækinni, félagslegri stefnu, jafnvel þótt hugmyndafræði samstarfsfúsra pólitískra afla sé ólík, þar með talin afstaða til aðildar að ESB.
Höfundur er þingmaður VG