Það var ánægjulegt þegar peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að lækka meginvexti bankans úr 4,5 prósent í 4 prósent. Þetta kemur á góðum tíma fyrir hagkerfið, þar sem samdráttur er nú í kortunum eftir fordæmalaust hagvaxtarskeið frá árinu 2010.
Bráðabirgðatölur Hagstofu Íslands segja að hagvöxtur í fyrra hafi verið 4,6 prósent, en spá Seðlabankans - sem birtist í peningamálum á miðvikudag - gerir ráð fyrir 0,4 prósent samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári.
Þetta er mikil breyting til hins verra á skömmum tíma.
En nú er lag að nýta sterka stöðu ríkissjóðs, stóran gjaldeyrisforða Seðlabankans og pólitískan vilja, til að spyrna við fótum. Nú er rétti tíminn fyrir stórtækar innviðaframkvæmdir, svo dæmi sé tekið.
Eins og Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, bendir á í grein í Vísbendingu í dag, þá eru kraftar peningastefnu Seðlabankans og fjármálastefnu ríkisins að vinna saman þessi misserin. Það er meðal annars að þakka góðri lendingu í kjaraviðræðum, miðað við það sem margir óttuðustu um tíma, en líka undirliggjandi sterkri stöðu, vegna mikillar lækkunar skulda heimila og fyrirtækja á liðnum árum.
„Það er ekki á hverju ári sem hægt er að segja að peningastefna og fjármálastefna ríkisins vinni saman. En nú vill svo til að bæði peningastefna að bregðast við samdrætti með vaxtalækkun og fjármálastefna ríkisins með því að auka eftirspurn á réttum tímapunkti í hagsveiflunni. Að baki býr hagstjórn undanfarinna ára sem hefur gefið af sér myndarlegan gjaldeyrisforða sem styður við gengi krónunnar, lægri væntingar um verðbólgu, vaxtastig sem hefur temprað uppsveifluna og stuðlað að uppgreiðslu skulda og auknum innlendum sparnaði og lækkandi skuldir ríkssjóðs. Þessu til viðbótar hafa aðilar vinnumarkaðarins með nýgerðum kjarasamningum lagt sitt af mörkum til þess að gera þessi viðbrögð möguleg,“ segir Gylfi í upphafi greinar sinnar.
Það sem veldur hugarangri er hins vegar óhagkvæmt bankakerfi og augljós merki um að það sé of stórt og óhagkvæmt miðað við örmarkaðinn íslenska, aðeins 207 þúsund manna vinnumarkað, sem það er að þjóna.
Það bitnar beint á almenningi í landinu, heimilum og fyrirtækjum.
Í ljósi þess að ríkið á um 75 til 80 prósent af fjármálakerfinu þá þarf forysta í hagræðingaraðgerðum að koma þaðan.
Ýmislegt má nefna sem dæmi um augljós merki um óhagræði, en nærtækast er að nefna núna vaxtamuninn á markaði.
Verðbólga er nú 3,3 prósent og meginvextir 4 prósent, eins og áður segir. Álag á ríkisskuldabréf er komið niður fyrir 4 prósent.
Á sama tíma eru breytilegir óverðtryggðir vextir á húsnæðislánum og lánum til fyrirtækja 2 til 3 prósentustigum hærri en sem nemur grunnstöðunni á markaði.
Þetta er óþarfi og ætti að geta verið mun lægra.
Það sem er að trufla, er óhagræði í grunnrekstri bankanna.
Það er helst að Landsbankinn hafi náð að vinna vel í rekstrargrunninum og ná kostnaðarhlutfalli, það er rekstrarkostnaði sem hlutfalli af rekstrartekjum, niður að langtímamarkmiði, en það er núna um 45 prósent.
Íslandsbanki og Arion banki hafa verið með mun hærri kostnaðarhlutföll og hafa þau verið á bilinu 60 til 70 prósent undanfarin misseri.
Þetta er hátt í alþjóðlegum samanburði.
Þá hefur arðsemi á eigið fé verið lítil að undanförnu, sem er annar algengur mælikvarði á heilbrigði rekstrar banka.
Bankar eru núna að ganga í gegnum miklar tæknibreytingar og í slíkum aðstæðum, er mikið kæruleysi af hálfu ríkisins að vera með mikið óhagræði í bankakerfinu.
Það getur varla verið markmiðið að bankakerfið verði eins og ríki í ríkinu, sem er til fyrir þá sem starfa í bönkunum. Sérstaklega er augljóst að það gengur ekki þegar skattborgarar eiga bankakerfið að mestu leyti.
Þegar tæknibreytingar munu koma hraðar inn, þá verður það ríkinu dýrkeypt, ef ekki verður búið að hagræða og gera bankanna tilbúna fyrir það sem koma skal.
Samtök fjármálafyrirtækja hafa lengi bent á að skattalegt umhverfi sé ekki nógu gott fyrir íslenska bankakerfið, og að það sé ein ástæðan fyrir því að kjör eru verri hér en víðast hvar annars staðar.
Það fer hins vegar minna fyrir því að þrír stærstu bankarnir séu mögulega ofmannaðir um mörg hundruð starfsmenn, sem bitnar beint á viðskiptakjörunum til fyrirtækja og heimila.
Nú þegar herðir að í hagkerfinu þá er þetta sérstaklega dýrkeypt og mikilvægt að bankarnir finni fyrir aðhaldi frá heimilum og fyrirtækjum.
Eigið fé þriggja stærstu banka landsins er nú í kringum 630 milljarðar króna og í fullri sanngirni sagt, þá hefur uppbygging þeirra eftir hrunið verið verulegt afrek í sjálfu sér.
Rekstrargrunnurinn er sterkur og ólíkt því sem var fyrir hrunið, þá eru þeir með sterkt eigið fé og raunverulegar eignir - ekki froðueignir sem byggðu á kolólöglegri fjármögnun á eigin hlutafé, sem samt voru færðar til bókar á fullu verði.
En nú er komið að tímamótum hjá bönkunum. Þeir eiga að geta stutt við viðspyrnuna sem þarf að eiga sér stað. Til þess að þeir geti gert það, þurfa þeir að hugsa meira um að hagræða í rekstri og tryggja að þeir séu að bjóða betri kjör til heimila og fyrirtækja. Þeir eru í einokunarstöðu á ISK-markaði og mega ekki verða kærulausir. Það bitnar beint á almenningi og nú á versta tíma.