Fötluð ungmenni fá ekki þann stuðning sem þau þurfa til að geta stundað íþróttir. Og þeim er ekki gert kleift að leggja stund á þá íþrótt sem hugur þeirra stendur til, því í sumum íþóttagreinum er alls ekki gert ráð fyrir þátttöku fatlaðra barna eða ungmenna. Garðabæjarlistinn telur brýnt að bæta þar úr.
Nýlega kom út skýrsla sérfræðihóps um málefni fatlaðra barna. Þar koma m.a. fram ummæli nokkurra ungmenna um möguleika þeirra til að taka þátt í samfélaginu og hversu mikill skortur er á stuðningi við tómstundaiðkan þeirra, sem vitnað er til hér að ofan. Þessi staða gengur þvert á skyldu okkar til að tryggja öllum börnum aðgengi að íþrótta- og tómstundastarfi. Það er beinlínis bundið í lög að ekki megi mismuna einstaklingum þegar kemur að almennri þjónustu eða þátttöku í samfélaginu.
Sveitarfélög, sem starfa eftir lögum um þjónustu við fatlað fólk, eiga að fara fram með skýru fordæmi og hvetja alla aðila sem starfa með börnum innan sveitarfélaganna að fara að lögum, hvort sem er í íþróttum eða öðrum tómstundum. Þrátt fyrir að sveitarfélögin stýri ekki starfsemi þessara aðila þá er ljóst að þau verja miklum fjármunum til íþróttafélaga og annars tómstundastarfs í gegnum samstarfssamninga. Þeim er í lófa lagið að setja ákvæði í samninga um að öll börn skuli njóta sama aðgengis og að sérstaklega beri að huga að þeim sem standa höllum fæti eða þurfa aukinn stuðning til að stunda þá íþrótt eða tómstundastarf sem áhugi þeirra beinist að.
Fyrir hönd Garðabæjarlistans legg ég fram tillögu í bæjarráði þess efnis að Garðabær geri þá skýlausu kröfu að í samningum við íþróttafélög verði skýrt tekið fram að vinna beri í takt við réttindi barna, jafnt fatlaðra sem ófatlaðra. Garðabær og íþróttafélögin eiga að ganga í takt þegar kemur að því að tryggja réttindi allra barna. Sveitarfélaginu ber að veita aðhald og hafa áhrif á þróun mála til hins betra.
Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans.