Hér má lesa hvaða afleiðingar fölsk ásökun hefur í för með sér. Dæmið er frá Danaveldi og er ekki einsdæmi þar. Hér á landi gerist það sama og því miður er heldur mikil þöggun um þennan málaflokk. Þörf er á að ræða vandann samhliða öðru ofbeldi þegar sú umræða á sér stað í samfélaginu, af skynsemi og raunsæi.
Leita þarf leiða til fræða nemendur um hvaða afleiðingar fölsk ásökun getur haft í för með sér. Um leið og við fræðum þau um að enginn eigi að líða ofbeldi eða búa við á samhliða að taka á þessum málaflokki, fölskum ásökunum. Ofbeldi er m.a. barsmíðar, ljót orð, andlegt, einelti, foreldraútilokun, tálmum, fölsk ásökun og kynferðislegt en ekki verður farið dýpra í ofbeldisflokkana.
Fyrir nokkrum árum birtist grein í Poltiken, í Danmörku, um hvaða afleiðingar lygar nemenda í garð íþróttakennara hafði í för með sér. Nemendur lugu barnaníði upp á kennara. Ljótur leikur. Það getur enginn, sem ekki hefur upplifað slíkt, sett sig í spor einstaklings sem borinn er svo þungum sökum.
Drengir í 6. bekk (7. bekk samkvæmt íslensku kerfi) komu sögusögnum af stað. Þeir sögðu íþróttakennara sinn hafa tekið myndir í búningsklefanum af nöktum drengjum. Sálfræðingur í Danaveldi segir þetta hina hlið barnaníðsins, falskar ásakanir.
Í íþróttatíma bað kennari nemendur í 6. bekk í skóla í Kolding að hlaupa hringi til að hita upp fyrir tímann. Því nenntu ekki 6 drengir. Þess í stað eyddu þeir tíma sínum í að agnúast út í íþróttakennarann sem er karlkyns. Áður en skóladegi lauk komu þeir af stað orðróm um að kennarinn hefði tekið nektarmyndir í búningsklefanum af strákum. Hann hefði auk þess rifið handklæðið af þeim þegar þeir komu úr sturtunni.
Orðrómurinn flaug á milli nemenda, í smáskilaboðum og netpósti, þar til aðstoðarskjólastjóri heyrði af tilviljun af orðrómnum. Nemendur viðurkenndu að þetta var uppspuni frá upphafi til enda. Drengjunum var vísað úr skóla í nokkra daga. Málið var mun erfiðara fyrir kennarann sem fékk áfallahjálp hjá sálfræðingi. Hann valdi að snúa aftur til vinnu eftir nokkra veikindadaga.
Staðan er verulega sorgleg – ekki síst fyrir kennarann sagði aðstoðarskólastjórinn. Svona uppákoma mun ávallt fylgja viðkomandi kennara, þrátt fyrir að allar ásakanir eru dregnar til baka. Hann íhugaði að senda drengina í annan skóla en leyfði þeim að halda áfram á þeirri forsendu að þeir áttuðu sig ekki á hvaða afleiðingarnar lygi þeirra ollu. Þetta er skýrt dæmi um að fræða þarf nemendur um alvarleika ásakana af þessu tagi, hvort sem þær beinast að kennara, stjórnanda eða öðrum nemanda.
Þrátt fyrir að ásökun um barnaníð sé ekki daglegt brauð í grunnskólanum hefur slíkt aukist undanfarin ár um allt land segja kennarasamtökin í Danmörku. Við höfum séð sömu takta víðar og oft með skelfilegum afleiðingum. Þetta hangir alltaf yfir höfðinu á kennara sem lendir í þessu þrátt fyrir sönnun um ranga ásökun. Við höfum mörg dæmi um að svona tilfelli hafi brotið kennara niður. Þeir hafa ekki komist í gang aftur segir formaður danska kennarafélagsins.
Menn eru sammála um að það sé ómögulegt að vernda kennara gagnvart fölskum ásökunum, svo nemendur hafa árangursríkt vopn gegn óvinsælum kennurum segja þeir í Danaveldi. Þetta er bakhliðin á verðlaunapeningnum af þeirri athygli sem barnaníð fær segir sálfræðingur samtakana „Red barnet“. ,,Börnin hafa fundið út hvernig þau geta notað athyglina á neikvæðan hátt. Þetta er sterkt meðal að nota, því kennarinn er stimplaður af samfélaginu.“
Sálfræðingurinn telur kennara sem borinn er röngum ásökunum eiga erfitt með að snúa aftur til starfa. Það krefst að viðkomandi sé vel liðinn og hafi virðingu foreldra því barnaníð kallar fram gífurlegar tilfinningar hjá foreldrum. Þrátt fyrir að ásökun sé röng munu foreldrarnir alltaf vera í vafa, hvort sannleikskorn sé í ásökuninni. Hann mælir með að ásökun sé rannsökuð, þó erfiðar aðstæður geti komið upp. „Það er áhætta, en áhættan fyrir falskar kærur þarf að vega upp á móti því að þegja um ofbeldi gegn börnum.“
Skólasamfélagið og foreldrar þurfa að leggjast á eitt til að slík dæmi endurtaki sig ekki ár eftir ár. Á Norðurlöndunum hefur fölskum ákærum vaxið ásmegin sem er í meira lagi sorglegt. Eins og Danir segir, kennarar eru berskjaldaðir fyrir ásökunum af þessu tagi. Einföld lausn er ekki til en ljóst að málaflokkurinn þarf að líta dagsins ljós, foreldrar, samfélagið og kennarar þurfa að vera meðvitaðir um áhættuna. Þöggun í málaflokknum má ekki viðgangast. Það er of mikið að missa einn kennara af vinnumarkaðnum vegna falskra ásakana um ofbeldi, sama hvers konar. Við þurfum að leita lausna. Fræðum börn og hvert annað um falskar ásakanir og afleiðingarnar. Falskar ásakanir hafa áhrif á vinnuumhverfi kennara, einn af streituvöldunum í starfi, og okkur á að koma þetta við sem fagfólki, einstaklingum og KÍ sem regnhlífasamtök.
„Afrekum hefur aldrei verið náð með því að aðhafast ekki neitt.“
Höfundur er M.Sc. M.Ed. og starfar sem grunnskólakennari og situr í vinnuumhverfisnefnd KÍ fyrir hönd grunnskólakennara.