Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Þorsteinn Víglundsson, varaformaður, kynntu efnahagstillögur flokksins í dag, en eðlilegt er að tala um þær sem viðspyrnutillögur í ljósi þess samdráttarskeiðs sem nú er í kortunum, eftir mikið hagvaxtartímabil.
Tillögurnar eru skynsamlegar og ábyrgar og miða að því að vinna gegn samdrætti með aukinni opinberri fjárfestingu. Hún hefur verið undir sögulegu meðaltali lengi og eðlilegt að nýta nú sterka stöðu þjóðarbússins til að vinna gegn samdrættinum.
Viðspyrna
Í tillögum Viðreisnar er lagt til að fjárfestingar ríkissjóðs verði auknar um 60 milljarða á næstu þremur árum. Meðal þess sem horft er til er að ríkissjóður selji þriðjungshlut í Íslandsbanka, og að fyrirhuguðum stórfelldum innviðaframkvæmdum - meðal annars á sviði vegaframkvæmda - verði flýtt.
Í tillögunum er enn fremur lagt til að meirihluti fjárfestinganna fari í að hraða vegaframkvæmdum sem tengjast framkvæmdum vegna Borgarlínunnar og ljúka tvöföldum bæði Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar.
Þá var lagt til að aukið verði við óvissusvigrúm fjármálastefnunnar verði aukið úr 0,4 prósent í 1,5 prósent til að skapa nauðsynlegt svigrúm og að henni verði skipt milli ríkis og sveitarfélaga.
Þau segja það óraunhæft að ætla ríkinu svigrúm án þess að byggðum landsins sé veitt sambærilegt andrými.
Þetta virðist skynsamlegt og í takt við það meginmarkmið í opinberri hagstjórn, að auka samræmingu milli ríkis og sveitarfélaga.
Óvænt hjá ríkisstjórninni
Það kemur nokkuð á óvart að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætli sér nú, sem viðbragð við verri horfum í efnahagsmálum þjóðarinnar, að draga saman seglin.
Fyrstu breytingartillögurnar á fjármálaáætlun benda til þess að það eigi að gera en ekki liggur þó endanlega fyrir enn, hvernig línurnar verða lagðar. Í mínum huga verður þessi ríkisstjórn fyrst og síðast dæmd af því hvernig hún bregst við samdrættinum núna, eftir fall WOW air og önnur áföll, svo sem loðnubrest og kyrrsetningu 737 Max véla.
Núna eru uppi aðstæður þar sem hið opinbera getur unnið gegn samdrættinum með aukinni fjárfestingu og viðspyrnu, samhliða því að Seðlabanki Íslands getur beitt sínum stjórntækjum til að koma í veg fyrir harða lendingu.
Hlustum á sérfræðinga
Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor, gerði þetta að umtalsefni í grein í Vísbendingu á dögunum, og það er ástæða til að leggja við hlustir þegar hann setur fram sín sjónarmið.
En það þýðir ekki að hið opinbera eigi ekki að vera með ábyrga fjármálastjórn. Það sem alltaf er dýru verði keypt, í aðstæðum eins og nú eru komnar upp í hagkerfinu, er þegar mikið launaskrið hefur verið í hagkerfinu, samhliða of lítilli framleiðniaukningu.
Margt bendir til þess að hagvaxtartímabilið frá árinu 2013 og fram á þetta ár, hafi verið dæmigert láglaunafroðu-hagvaxtartímabil, þar sem ekki hafi verið byggt undir góð störf til framtíðar litið, sem byggja á alþjóðlegum þekkingarstörfum.
Ástæða er til þess að minna stjórnmálamenn á að tíminn til þess að byggja undir alþjóðlega sýn fyrir landið, er ekki í framtíðinni heldur í dag og í gær.
Það er helst að það vanti meira hugrekki í tillögur sem miða að því að auka slagkraft í fjárfestingum í rannsóknir og þróun, einmitt til að sporna við þeirri stöðu sem upp er komin.
Með því tækist að leggja nýjar línur í hagstjórninni og gefa út þau skilaboð að þrátt fyrir dægurþras þá áttuðu stjórnmálamenn sig á þessu mikilvæga máli, sem efling alþjóðlegs þekkingariðnaðar er fyrir landið. Gott væri ef það tækist að skapa þverpólitískan samhljóm um þetta meginmarkmið, sem yrði þá hluti af viðspyrnunni núna.
Í viðtali Fiskifrétta við Arnljót Bjarka Bergsson, sviðsstjóra hjá Matís, á dögunum, þá má glögglega heyra áhyggjur af því að ekki væri verið að hugsa nægilega mikið um þessi mál í íslenskum sjávarútvegi. Samkeppnisforskotið gæti farið hratt og margt benti til þess að það væri að gerast þessi misserin. Þetta er dæmi um mál, sem mætti taka fastari tökum og hlusta á það sem reynslumiklir sérfræðingar telja sig vera að sjá með því að rýna gögn. Það verður að bregðast við og fjárfesta meira í rannsóknum, þróun og nýsköpun.
Óvissuský
Það má ekki gera lítið úr því að hagstjórn á Íslandi er vandasöm og óvissuskýið er alltaf í augsýn. Gengisþróunin er t.d. alltaf þáttur sem erfitt er að spá fyrir um. Þó má spyrja sig að því, hvort frekari gengissig sé ekki í kortunum, þegar eftirspurn dregst hratt saman í ferðaþjónustu og söluaðilar erlendis gefa það upp sem skýringu að verðlag sé einfaldlega alltof hátt á Íslandi.
Það er eilífðarverkefni í rekstri að finna rétt verð á vörum og þjónustu, miðað við gæði. En ástæða er til þess að spyrja að því hvers vegna Ísland ætti að komast upp með það í alþjóðlegri samkeppni, til lengdar, að vera með hærra verð á vörum og þjónustu en samkeppnislöndin, þ.e. alþjóðlegur markaður.
Hagspár gera ráð fyrir að samdráttur verði í landsframleiðslu upp á 0,2 til 0,4 prósent, en bráðabirgðartölur Hagstofunnar segja að hagvöxur hafi verið um 4,6 prósent í fyrra. Þetta er sveifla sem segja má að sé upp á um 7 þúsund töpuð störf. Óvissa er nokkur og má nefna að Seðlabankinn spáir um 10,5 prósent fækkun ferðamanna á þessu ári en Isavia um 17 prósent. Það munar eins og tveimur loðnuvertíðum á þessum fjölda.