Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stendur nú frammi fyrir sínu stærsta verkefni til þessa, sem er að móta áætlun og stefnu til að bregðast við erfiðleikum í efnahagslífinu.
Eftir mikinn uppgangstíma og hagvaxtarskeið - sem keyrt var áfram af vexti í láglaunastörfum innan ferðaþjónustunnar og byggingariðnaðarins - þá er veruleikinn breyttur. Hagspár gera ráð fyrir dramatískri breytingu frá því sem var í fyrra og að landsframleiðsla verði 0,2 til 0,4 prósent minni en hún var í fyrra, þegar hagvöxtur mældist 4,6 prósent.
Viðsnúningur til hins verra
Engin dæmi eru um viðlíka viðsnúning til hins verra í efnahagslífinu hjá þróuðum ríkjum þessi misserin, en hafa ber í huga að fá dæmi voru heldur fyrir þeim mikla uppgangi - og styrkingu á stöðu ríkissjóðs samhliða afnámi hafta og uppgjöri slitabúa föllnu bankana - sem átti sér stað á Íslandi á árunum 2011 til og með 2018.
Það var ekki síst höfuðborgarsvæðið sem fann fyrir þessu og almenningur fékk að horfa á virði fasteigna sinna hækka í verði. Stöðnun - og mögulega verðfall - er hins vegar í kortunum þessi misserin.
Önnur staða blasir nú við, eftir fall WOW air og samdrátt í ferðaþjónustunni vegna fyrirsjáanlegra vandamála vegna áframhaldandi kyrrsetningar 737 Max véla Boeing.
Óþarfi er þó að tala stöðuna niður því innviðir á Íslandi er sterkir í alþjóðlegum samanburði og það ætti að vera hægt að spyrna þannig við fótum, að hagkerfið jafni sig fljótt á nýjan leik.
75 prósent af heildinni
Eitt af því sem ríkisstjórnin mætti hafa í huga, er hvernig hún getur stutt við stöðu lítilla fyrirtækja þannig að þau komist fljótt í þau stöðu að skapa fleiri störf. Þar ætti að horfa til stuðningsaðgerða við öll fyrirtæki sem eru með undir 100 starfsmenn, en þau mynda um 75 prósent af hagkerfinu samanlagt, en um 209 þúsund einstaklingar eru nú á vinnumarkaði á Íslandi. Þetta eru fyrirtæki í nýsköpun og þjónustu ýmis konar og gegna mikilvægu hlutverki, eins og augljóst er öllum.
Það er gömul saga og ný að heyra þau sjónarmið, frá þeim sem eru í nýsköpun og rekstri lítilla fyrirtækja, að lækkun tryggingargjalds og annarra launatengdra gjalda, geti styrkt verulega stöðu fyrirtækjanna og gert þeim mögulegt að ráða fleiri og styrkja reksturinn.
Oft fer umræða um þetta á flug, skömmu fyrir áramót ár hvert, en þá reyna þeir sem stunda rekstur lítilla fyrirtækja af veikum mætti að benda á skaðsemi þess að leggja of þung launatengd gjöld á lítil fyrirtæki.
Því miður hefur hægt gengið að lækka þessi gjöld frá því þau hækkuðu í kjölfar hrunsins. Í dag eru gjöldin ígildi níunda hvers starfs, að meðaltali. Allir gera sér grein fyrir að fjármagna þarf ríkissjóð og velferðarkerfið, en stuðningsaðgerðir við lítil og meðalstór fyrirtæki eru þekkt alþjóðlegt fyrirbæri, sem hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og leitt til meiri skatttekna fyrir hið opinbera víða.
Svigrúmið nýtt
Ef þessi gjöld lækka, þá ætti að skapast betra svigrúm fyrir fyrirtæki til að ráða fólk í vinnu, og vinna þannig gegn vaxandi atvinnuleysi. Sterka stöðu ríkissjóðs mætti nýta til að styrkja hagkerfið með þessum hætti, þannig að stuðningurinn skili sér beint inn í reksturinn hjá þeim fyrirtækjum sem mynda hryggjarstykkið í hagkerfinu. Heildareignir ríkissjóðs í árslok 2018 námu 2.224 milljörðum króna, skuldir voru 1.611 milljarðar og eigið fé var 613 milljarðar, en það hækkaði um 117 milljarða króna milli ára. Svigrúmið til að styðja við undirstöðurnar í hagkerfinu er því fyrir hendi.
Það er tilraunarinnar virði að horfa út fyrir boxið, nú þegar samdráttur blasir við. Stjórnarflokkarnir mega ekki falla í þá gildru að halda að tekjustofnar hins opinbera lifni við af sjálfu sér, vegna þess að samdrátturinn muni ekki vara lengi samkvæmt spám hagfræðinga. Þeir hafa enga vissu fyrir einu eða neinu og spár eru ekkert annað en innihaldslausar tölur á blaði, annað en rauntölurnar úr rekstri fyrirtækjana. Nú þegar atvinnuleysi fer vaxandi ætti það að vera kappsmál að leita leiða til að styðja við sköpun starfa, ekki síst í nýsköpun. Þar er lækkun íþyngjandi launatengdra gjalda á lítil fyrirtæki áhrifamikil aðgerð, sem án vafa nýtur mikils stuðnings hjá þjóðinni og mun renna sterkari stoðum undir hagkerfið til lengdar litið.