Hugtakið fullveldisframsal er oft notað í umræðunni um alþjóðamál hérlendis um það þegar ríki tekur á sig þjóðréttarlegar samningsskuldbindingar sem fela í sér að hafa ber í frammi ákveðnar athafnir eða athafnaleysi. Þetta er einkum áberandi þegar rætt er um EES-samninginn og hugsanlega aðild Íslands að ESB, t.a.m. í yfirstandandi orkupakkaumræðu. Hugtakið er ekki séríslenskt, enda finnast sambærileg hugtök á öðrum tungumálum (e. delegation of sovereignty). Almennt verður þó að telja að heppilegra sé að ræða um framsal valdheimilda frekar en fullveldisframsal.
Af dómum alþjóðlegra dómstóla leiðir að það felst í ytra fullveldi ríkja að geta framselt ríkisvald til alþjóðastofnunar. Það er svo alltaf spurning hvort slík notkun á fullveldinu sé í samræmi við stjórnlög ríkis eða teljist þjóna hagsmunum þess.
Ólafur Jóhannesson
Þann skilning má sjá í ræðu sem Ólafur Jóhannesson hélt árið 1962 og birt var í Tímariti lögfræðinga undir heitinu Stjórnarskráin og þátttaka Íslands í alþjóðastofnunum. Á þessum tíma var Ólafur prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands en í umræddri ræðu kom eftirfarandi m.a. fram:
„Næst vík ég með örfáum orðum að þeirri spurningu, hvort skuldbindingar gagnvart alþjóðastofnun geti leitt til þess, að landið verði ekki lengur talið fullvalda, þ.e.a.s. ekki lengur talið fullgildur þjóðréttaraðili. Þeirri spurningu verður almennt að svara neitandi. Það er að vísu ljóst af því, sem hér hefur verið sagt, að talsverðar fullveldistakmarkanir kunna að fylgja aðild að alþjóðastofnun. En fullveldishugtakið er afstætt. Það lagar sig eftir breyttum viðhorfum og þörfum á hverjum tíma. Fullveldistakmarkanir þær, sem t.d. leiða af þátttöku í Efnahagsbandalaginu, hefðu sennilega áður fyrr verið taldar ósamrýmanlegar óskoruðu ríkisfullveldi. En sjálfsagt kemur engum til hugar að halda því fram, að aðildarríki Efnahagsbandalagsins, Frakkland, Ítalía, Belgía o.s.frv. séu ekki eftir sem áður fullvalda ríki. Þau eru auðvitað eftir sem áður fullgildir þjóðréttaraðilar. Skuldbindingar ríkja gagnvart alþjóðastofnun munu því oftast nær engu skipta um formlegt fullveldi ríkis. Gildir það almennt jafnt, þó að alþjóðastofnun hafi verið fengið í hendur vald, sem stjórnlögum samkvæmt á að vera hjá handhöfum ríkisvalds. Sú regla er þó sjálfsagt ekki undantekningarlaus. En þátttaka í alþjóðastofnunum, jafnvel þótt valdamiklar séu, gefur almennt eigi tilefni til heilabrota um það, hvort hún sé samrýmanleg fullveldi aðildarríkjanna. Hitt er spurningin, hvort hún sé samrýmanleg stjórnlögum hvers ríkis. Þær kvaðir, sem fullvalda ríki almennt telja sér fært að undirgangast á hverjum tíma gagnvart alþjóðastofnunum, myndu eigi heldur taldar ósamrýmanlegar fullveldi Íslands. Það myndi þrátt fyrir þvílíkar fullveldistakmarkanir talið fullgildur þjóðréttaraðili. Hitt er augljóst, og þarf raunar ekki að taka fram að milliríkjasamningur getur haft í för með sér slíkar fullveldisskerðingar, [að] samningsríki verði ekki lengur talið fullvalda.“
Ræða Ólafs sker sig nokkuð úr annarri umfjöllun um fullveldishugtakið. Ólafur gerir skýran greinarmun á milli þess að vera fullvalda þjóðréttaraðili og þeirri athöfn að yfirfæra hluta innri valdheimilda ríkisvalds til alþjóðastofnunar. Af skrifum hans að dæma leit hann svo á að slík yfirfærsla hafi ekki áhrif á stöðu ríkis sem fullvalda þjóðréttaraðila en geti verið í ósamræmi við stjórnlög.
Fjórmenningarálitið
Í síðari tíma skrifum, t.a.m. í áliti hinnar svokölluðu fjórmenninganefndar frá 1992, sem leggur grunninn að þeirri nálgun sem síðar hefur verið fylgt um samspil EES-samningsins og íslenskrar stjórnskipunar, er ekki að finna þennan greinarmun sem Ólafur gerir í umfjöllun sinni. Reyndar segir í álitinu að Ísland sé aðili að þjóðarétti og geti tekið á sig skuldbindingar en ekki er útskýrt frekar í hverju það felst.
Í fjórmenningaálitinu er þá varfærnislegu fullyrðingu að finna að unnt sé „að færa rök fyrir því að skýra beri íslensk stjórnskipunarlög í samræmi við gildandi þjóðarétt á hverjum tíma“. Taka verður undir þessa fullyrðingu nefndarinnar. Lykilhugtak þjóðaréttar til að lýsa valdheimildum ríkja er fullveldishugtakið, hvort heldur um er að ræða innri eða ytri vídd þess – innri fullveldisrétt eða ytri fullveldisrétt. Fullveldishugtakið á rætur sínar í þjóðarétti og því er ekki hægt að skoða það í íslensku tómarúmi. Í þessu samhengi er rétt að benda á ummæli franska dómarans Charles André Weiss, úr séráliti hans í Lotus-málinu frá 1927, einu af grundvallarmálum þjóðaréttarins, um að ef ríki væru ekki fullvalda væri enginn þjóðaréttur mögulegur. Um miðbik síðustu aldar benti Hans Kelsen, einn helsti réttarheimspekingur 20. aldar, á að þessu væri einnig öfugt farið, þ.e. þjóðaréttur geri ríkjum kleift að vera til. Án hans geti ríki ekki verið til. Þjóðaréttur er því forsenda fyrir fullveldi ríkja og fullveldi ríkja forsenda fyrir þjóðarétti. Hugtökin þjóðaréttur og fullveldi eru tengd órjúfanlegum böndum.
Bjarni Jónsson frá Vogi og Einar Arnórsson
Helstu forystumenn Íslendinga í samningaviðræðunum við Danmörku um dansk-íslensku sambandslögin (sem alltof sjaldan er minnst á), þeir Bjarni Jónsson frá Vogi og Einar Arnórsson áttuðu sig á umræddri tengingu.
Í umræðum á Alþingi um frumvarpið að dansk-íslensku sambandslögunum birtist þetta t.a.m. í eftirfarandi ummælum Bjarna:
„Í umræðunum í dag hefir komið fram þetta ónákvæma orðalag: „skerðing fullveldis“; orðalag þetta er sjálfsmótsögn. Annaðhvort er maður lifandi eða dauður; annað hvort er um fullveldi að ræða eða ekki. Hitt er annað mál, og við það hefir líklega verið átt að fullvalda ríki getur gengist undir samning sem því er óhagfeldur.“
Þessi skilningur á fullveldishugtakinu birtist jafnframt þegar Bjarni svaraði Benedikt Sveinssyni vegna áhyggna þess síðarnefnda um 6. gr. sambandslaganna sem kvað á um að danskir ríkisborgarar nytu að öllu leyti sama réttar á Íslandi sem íslenskir ríkisborgarar fæddir þar, og gagnkvæmt:
„En þetta er rangt, því að hversu illa sem honum líkar 6. gr., þá getur hún aldrei tekið af oss fullveldið, því að það er hvergi tekið fram, að Danir hafi nokkurn rjett til að ákveða um atvinnumál hjer eða annað, fremur en Íslendingar um dönsk atvinnumál. Það eru rjettindi, sem ein fullvalda þjóð veitir annari hjá sjer, gegn sömu rjettindum frá hinni þjóðinni. Þær rjettindaveislur geta haft skaðlegar, fjárhagslegar afleiðingar, en aldrei skert fullveldið. Held jeg því óhætt að fullyrða, að það verði ekki hrakið, að hjer sje um að ræða fullveldi, skýlaust og skýrt og hvergi takmarkað.“
Bjarni var ekki einn um að leggja þennan skilning á fullveldishugtakinu til grundvallar. Slíkur skilningur birtist berlega hjá Einari Arnórssyni, einkum í fyrrnefndu riti hans Þjóðréttarsamband Íslands og Danmerkur sem Hið íslenzka bókmenntafélag gaf út árið 1923. Í riti sínu kemst hann svo að orði um 8. gr. sambandslaganna sem kvað á um að Danmörk hefði á hendi „gæzlu fiskveiða í íslenskri landhelgi undir dönskum fána, þar til Ísland kynni að ákveða að taka hana í sínar hendur, að öllu eða nokkru leyti, á sinn kostnað“:
„Nú er landið er fullvalda ríki, þá leiðir af því, að það hefir ríkisforræði yfir landhelginni, því að samningur við Danmörk um gæzlu fiskiveiða í íslenzkri landhelgi er ekki fremur afsal þess forræðis á henni, en það væri afsal forræðis á jörð, að eigandi hennar fæli öðrum að reka skepnur úr túni jarðarinnar.“
„Hinsvegar verður því ekki neitað, að umboðið takmarkar athafnafrelsi Íslands, en takmörkun á athafnafrelsi ríkis sviftir það ekki alment fullveldi fremur en takmörkun á athafnafrelsi manns sviftir hann lögræði. Umboðið er skiljanlega líka takmörkun á athafnafrelsi Danmerkur, því að henni er samkvæmt því skylt að fara með íslenzk utanríkismál næstu 25 árin eftir 1. des. 1918. Danmörk hefir þar með tekið á sig verkkvöð fyrir Ísland næstu 25 ár. Það, að Ísland getur veitt slíkt umboð, sýnir eitt með fleiru, að það er fullvalda ríki, því að ekkert ófullvalda ríki – ef tala má um ófullvalda ríki – getur veitt öðru ríki umboð til að fara með eina tegund mála sinna.“
Fullveldi og lögræði
Merkilegur samhljómur er í skrifum Einars og McNair lávarðs tæplega fjórum áratugum síðar. McNair var einn þekktasti þjóðréttarsérfræðingur Breta á 20. öldinni og gegndi m.a. stöðu dómara við Alþjóðadómstólinn og varð síðar fyrsti forseti Mannréttindadómstóls Evrópu. Í riti sínu The Law of Treaties frá 1961 bendir McNair á að líkt og manneskja sem undirgengst ráðningarsamning hættir ekki að vera frjáls, hætti ríki ekki að vera sjálfstætt eða fullvalda við að taka á sig samningsskuldbindingar gagnvart erlendu ríki eða fyrirtæki. Í skrifum Einars og McNair birtist sú hugmynd að fullveldishugtakið sé í þessum skilningi eins og lögræðishugtakið: lögráða einstaklingur sem undirgengst samningsskuldbindingar, svo sem með ráðningarsamningi eða lánssamningi, framselur ekki lögræði sitt, heldur nýtir hann lögræði sitt annars vegar með ráðstöfun tíma síns og hins vegar með bindingu aflahæfis. Eðli lögræðis og fullveldis er hið sama að þessu leyti. Rétturinn til að taka á sig skuldbindingar er einn af eiginleikum lögræðis með sama hætti og rétturinn til að gangast undir samningsskuldbindingar í þjóðarétti eru einn af eiginleikum fullveldis. Hafa mætti það í huga í orkupakkaumræðunum.
Sjá nánar Bjarni Már Magnússon og Finnur Magnússon, Ytra fullveldi frá sjónarhóli þjóðaréttar í Guðmundi Jónssyni (ritstj.) Frjálst og fullvalda ríki (Sögufélagið 2018) bls. 175-204.