Auglýsing

Kjarn­inn varð sex ára í gær, 22. ágúst. Þetta hafa verið sex ótrú­leg ár. Þau hafa verið gef­andi og skemmti­leg, en líka erfið og lýj­andi. Við sem að miðl­inum stöndum höfum gert það af heil­indum og teljum okkur hafa staðið undir því lof­orði að eini trún­aður okkar er við almanna­heill og les­end­ur. Það eina sem vakir fyrir okkur er að upp­lýsa og veita aðhald. Það höfum við gert við rekstr­ar­að­stæður sem er í besta falli hægt að segja að séu krefj­andi, og í versta falli galn­ar. 

Í nýlegri yfir­lýs­ingu sem for­maður Blaða­manna­fé­lags Íslands sendi frá sér sagði meðal ann­ars: „Lýð­ræði þrífst ekki án sjálf­­­stæðra fjöl­miðla.“ Það þarf ekki að horfa langt til að sjá að þessi yfir­lýs­ing byggir sann­ar­lega ekki á sandi. Í Pól­landi hefur til að mynda verið þrengt mjög að sjálf­stæði fjöl­miðla og rík­is­mið­ill­inn þykir orð­inn lík­ari áróð­urs­stofnun fyrir ríkj­andi stjórn­völd en fag­legur fjöl­mið­ill. Í Ung­verja­landi hefur sama þróun átt sér stað. Þá eru auð­vitað ótalin Rúss­land og Tyrk­land. Það þarf ekki að hafa mörg orð um stöðu fjöl­miðla þar. 

Allt eru þetta þó lýð­ræð­is­ríki að nafn­inu til. En lýð­ræðið á undir högg að sækja í þeim öllum meðal ann­ars vegna aðgerða stjórn­valda gagn­vart fjöl­miðla­frelsi. 

Auglýsing
Tækni- og upp­lýs­inga­bylt­ingin ógnar líka frjálsri fjöl­miðl­un, og þar með grunn­stoð lýð­ræð­is. Sam­fé­lags­miðlar hafa nýst sem ódýr dreif­ing­ar­leið á efni hefð­bund­inna fjöl­miðla en þeir hafa líka gert það að verkum að allir fá rödd á umræðu­torgi þeirra, líka þeir sem vilja koma á fram­færi bjög­uðum upp­lýs­ingum til að skapa umræðu eða afleið­ingar sem eiga sér ekki stað­reynd­ar­mið­aðan til­veru­rétt í raun­heim­um. Ef þvæla er end­ur­tekin nægi­lega oft þá öðl­ast hún sjálf­stætt líf sem val­kvæð stað­reynd. Þau hafa vit­an­lega einnig grafið undan rekstr­ar­grund­velli fjöl­miðla, með því að taka til sín í síauknum mæli tekjur sem áður röt­uðu til fjöl­miðla. 

Nú eru fyr­ir­ætl­anir um að það hjá stærsta sam­fé­lags­miðl­inum Face­book að ráða blaða­menn til að velja fréttir sem birt­ast í sér­stakri frétta­veitu sem hann ætlar að setja upp. Rit­stjórn­ar­valdið sem fyr­ir­bærið ætlar að taka sér verður þar af leið­andi orðið nær algjört. Það má slá því föstu, í ljósi þeirra áhrifa sem mis­notkun á Face­book hefur haft á lýð­ræð­is­legar kosn­ing­ar, þeim tólum sem þetta alþjóð­lega hagn­að­ar­drifna stór­fyr­ir­tæki hefur fært þeim sem vilja valda sam­fé­lags­legum skaða með dreif­ingu rangra eða afbak­aðra upp­lýs­inga og fals­frétta og með því að hirða tekju­strauma hefð­bund­inna fjöl­miðla að fátt ógni grunn­stoðum lýð­ræðis jafn mikið í dag og Face­book. 

Speki­lek­inn og sam­dráttur í getu

Hér­lendis hefur staða flestra fjöl­miðla hríð­versnað á örfáum árum, líkt og margoft hefur verið rak­ið. Það þarf ekk­ert að takast um það. Sam­kvæmt tölum Hag­stofu Ísland hafa tekjur þeirra dreg­ist veru­lega saman á ára­tug, sér­stak­lega þeirra sem sinna frétta­vinnslu en ein­blína ekki ein­vörð­ungu á afþr­ey­ingu. Aug­lýs­inga­tekjur hafa til að mynda helm­ing­ast. 

Flestir íslenskir einka­miðlar eru reknir í tapi. Og jafn­vel þeir sem reknir eru í jafn­vægi, líkt og Kjarn­inn, eru það vegna þess að þeir taka ábyrgar rekstr­ar­á­kvarð­anir þegar aug­ljóst er að tekjur standa ekki undir starf­sem­inni. Á manna­máli þýðir það að fækka starfs­fólki, að fjölga verk­efnum hjá hverjum og einum starfs­manni eða draga úr umfangi þess sem fjöl­mið­il­inn ætlar sér að gera. Blaða­mönnum í Banda­ríkj­un­um, vöggu vest­rænnar fjöl­miðl­un­ar, hefur fækkað um 50 pró­sent á ára­tug. Ekki er ólík­legt að fækk­unin sé sam­bæri­leg á Ísland­i. 

Margt reynslu­mikið hæfi­leika­fólk hefur horfið úr geir­anum og allt of stórt hlut­fall þeirra sem þar starfa í dag eru með litla sem enga sér­hæf­ingu eða starfs­reynslu. Speki­leki hefur átt sér stað. Það sést til að mynda á því að telja þá starf­andi blaða­menn sem fjalla um efna­hags­mál og við­skipti sem hafa starfað í fjöl­miðlum frá því fyrir hrun, og hafa því yfir­sýn yfir sam­hengi þess tíma­bils. Þeir eru telj­andi á fingrum ann­arrar hand­ar. 

Kjörað­stæður lobbý­ista

Á sama tíma hefur staða hags­mun­ar­gæslu­að­ila, og geta þeirra til að koma sínum mál­stað á fram­færi í umræð­unni auk­ist. Það á við um gríð­ar­lega vel fjár­mögnum hags­muna­sam­tök svo­kall­aðra lobbý­ista sér­stakra atvinnu­greina sem og almanna­tengla­fyr­ir­tæki sem dafna vel lítið eða óséð í skugga sam­fé­lags­ins í allskyns áróð­urs­starf­sem­i. 

Meira að segja íslensku stjórn­ar­mála­flokk­arnir hafa tekið ákvarð­anir um að marg­falda fram­lög til sinnar starf­semi úr rík­is­sjóði. Þau hafa farið frá því að eiga að vera 286 millj­ónir króna fyrir tæpum tveimur árum í að vera 744 millj­ónir króna í ár. 

Allir ofan­greindir aðilar hafa nefni­lega hag af því að selja sinn sann­leika. Og setja hann fram með sínum hætti til að ná árangri fyrir sig og sína skjól­stæð­inga. 

Auglýsing
Hin sam­hliða kerf­is­bundna veik­ing fjöl­miðla gerir það að verkum að gagn­rýnin umræða, aðhald, fjöl­breyttar skoð­­anir og sjón­­­ar­mið, menn­ing­­ar­­leg fjöl­breytni og rann­­sókn­­ar­­blaða­­mennska standa ekki á nægi­lega sterkum stoð­um. Hægt og rólega hættir umræðan að vera stað­reynda­mið­uð, skyn­söm og vit­ræn. Eftir standa hann­aðar upp­lýs­ingar sem þjóna ekki lýð­ræð­is­legum til­gangi, heldur sér­hags­munum sem oft á tíðum eru and­stæðir almanna­hags­mun­um. Og yfir­gengi­legt magn af þvælu. 

Það er auð­vitað draumur lobbý­ist­ans,  og sumra stjórn­mála­manna, að geta óhindrað verið í hlut­verki sögu­manns­ins í sam­fé­lag­inu. Sá sem ræður því hvernig atburðir eru túlk­aðir í sam­tíma og hvernig sagan geymir þá. Ef frjáls­ir, fjöl­breyttir og sjálf­stæðir fjöl­miðl­ar, í ólíku eign­ar­haldi með sterkar og fyr­ir­sjá­an­legar rekstr­ar­for­send­ur, eru ekki til staðar þá fá slíkir aðilar það hlut­verk end­an­lega. 

Til­raun til að auka fjöl­miðla­frelsi

Á Norð­­ur­lönd­un­um, sem eru þau sam­­fé­lög sem Ísland ber sig mest saman við, má rekja rekstr­­ar­­stuðn­­ing hins opin­bera til einka­rek­inna fjöl­miðla aftur til árs­ins 1990. Í Nor­egi og Sví­­þjóð hefur stuðn­­ing­­ur­inn verið auk­inn umtals­vert und­an­farin mis­s­eri. Dönsk stjórn­­völd kynntu einnig aðgerðir til að bregð­­ast við rekstr­­ar­­stöðu fjöl­miðla í fyrra, sem fólust meðal ann­­ars í því að draga saman umfang DR, danska rík­­is­­sjón­varps­ins.

Í næsta mán­uði mun mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra mæla fyrir frum­varpi sem felur í sér að það eigi að taka upp end­ur­greiðslu­kerfi á kostn­aði við rekstur rit­stjórna. Verði það að lögum munu fjöl­miðlar geta fengið greitt 25 pró­sent af rit­stjórn­ar­kostn­aði upp að 50 milljón króna þaki, auk þess sem trygg­ing­ar­gjald verður í raun fellt niður á blaða­menn undir ákveðnu launa­há­marki í formi við­bót­ar­end­ur­greiðslu. Sam­an­lagt er áætl­aður kostn­aður við þetta 520 millj­ónir króna á ári og fer að meg­in­uppi­stöðu til þriggja stórra fjöl­miðla­húsa: Árvak­urs, Frétta­blaðs­ins og Sýn­ar. 

Eins og hin styrkt­ar­kerfin

Þetta kerfi sem lagt er til að verði tekið upp er alveg eins upp­byggt og styrkja­kerfi fyrir kvik­mynda­iðn­að­inn, bóka­út­gáfu og rann­sóknir og þróun hér­lendis þar sem millj­arðar króna eru end­ur­greiddir árlega vegna kostn­að­ar. Kvik­mynda­iðn­að­ur­inn hefur fengið millj­arða króna á síð­ustu árum í end­ur­greiðsl­ur. Þær hafa ratað bæði til inn­lendra aðila sem standa í sjálf­stæðri fram­leiðslu en líka erlendra aðila, sem ráða síðan íslenska fag­menn í verk­efni sín og stuðla þar af leið­andi að auk­inni reynslu, þekk­ingu og sér­hæf­ingu hjá íslensku kvik­mynda­gerð­ar­fólki. Kvik­­myndin Fast & Furi­ous 8 sem tekin var upp hér­lendis árið 2016 fékk til að mynda 509 millj­ónir króna end­ur­greiddar úr rík­is­sjóði, eða 98 pró­sent þeirrar upp­hæðar sem til stendur að veita til styrktar á íslensku fjöl­miðlaum­hverfi árlega sam­kvæmt frum­varp­in­u. 

Heild­­ar­af­­sláttur vegna rann­­sókna- og þró­un­­ar­­kostn­aðar var sam­tals um 2,75 millj­­arðar króna árið 2017. Síðan þá hefur þak hans verið hækk­að. Búist er við því að bóka­for­lög fá á bil­inu 300 til 400 millj­ónir króna í end­ur­greiðslu á ári frá hinu opin­bera vegna nýrra laga um 25 pró­sent end­ur­greiðslu kostn­aðar til þeirra. 

Auglýsing
Mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra gaf það líka nýverið út að í und­ir­­bún­­ingi sé að RÚV hverfi af aug­lýs­inga­­mark­aði en að rík­­is­mið­l­inum verði bætt upp það tekju­tap með greiðslum úr rík­­is­­sjóði. Ráðu­­neyti hennar sé einnig að skoða leiðir til að jafna stöðu ís­­­lenskra og er­­­lendra fjöl­miðla á aug­lýs­inga­­­mark­aði, en íslenskir fjöl­miðlar greiða til að mynda virð­is­auka­skatt af aug­lýs­inga­­sölu sem erlendir aðilar á þeim mark­aði, sem taka sífellt til sín stærri sneið hans, gera ekki.

Þetta eru líka góð skref og ráð­herr­ann getur náð fram skyn­sömum breyt­ingum á starf­semi RÚV, þar sem hlut­verk fyr­ir­tæk­is­ins og tekju­mögu­leikar eru skil­greindir skýrt, í gegnum nýjan þjón­ustu­samn­ing sem á að taka gildi í byrjun næsta árs, og verið er að semja um nú. 

Tæki­færið er núna

Sam­an­dregið þá munu allar þessar aðgerðir gefa fag­legum íslenskum fjöl­miðlum til­veru­grund­völl. Þeir mun líka setja aukna ábyrgð á þá að standa undir því hlut­verki sínu gagn­vart almenn­ing­i. 

Það er nefni­lega mis­skiln­ingur að stjórn­mála­menn séu með þessu að skammta fjöl­miðlum rekstr­arfé sem gæti leitt til þess að þeir vilji ekki bíta í hend­ina sem fóðrar þá. Stjórn­mála­menn eiga ekki rík­is­sjóð, almenn­ingur á hann og það er gagn­vart honum sem miðl­arnir þurfa að standa skulda­skil. 

Það er líka hægt að horfa til hinna Norð­ur­land­anna í þessu sam­bandi. Þeirra sömu sem hafa ára­tugum saman haldið úti opin­berum styrkja­kerfum fyrir fjöl­miðla. Á lista Reporters wit­hout borders, eða Blaða­manna án landamæra, eru Nor­egur í efsta sæti yfir þau lönd þar sem ríkir mest fjöl­miðla­frelsi. Finn­land er í öðru sæti og Sví­­þjóð í því þriðja. Dan­­mörk er í fimmta sæti. Ísland er í 14. sæti og hefur hríð­fallið niður list­ann á und­an­förum árum. 

Tæki­færið til að laga þessa stöðu er núna. Það er undir ábyrgum stjór­mála­mönnum að grípa það á næstu vikum og mán­uð­u­m. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari