Kjarninn varð sex ára í gær, 22. ágúst. Þetta hafa verið sex ótrúleg ár. Þau hafa verið gefandi og skemmtileg, en líka erfið og lýjandi. Við sem að miðlinum stöndum höfum gert það af heilindum og teljum okkur hafa staðið undir því loforði að eini trúnaður okkar er við almannaheill og lesendur. Það eina sem vakir fyrir okkur er að upplýsa og veita aðhald. Það höfum við gert við rekstraraðstæður sem er í besta falli hægt að segja að séu krefjandi, og í versta falli galnar.
Í nýlegri yfirlýsingu sem formaður Blaðamannafélags Íslands sendi frá sér sagði meðal annars: „Lýðræði þrífst ekki án sjálfstæðra fjölmiðla.“ Það þarf ekki að horfa langt til að sjá að þessi yfirlýsing byggir sannarlega ekki á sandi. Í Póllandi hefur til að mynda verið þrengt mjög að sjálfstæði fjölmiðla og ríkismiðillinn þykir orðinn líkari áróðursstofnun fyrir ríkjandi stjórnvöld en faglegur fjölmiðill. Í Ungverjalandi hefur sama þróun átt sér stað. Þá eru auðvitað ótalin Rússland og Tyrkland. Það þarf ekki að hafa mörg orð um stöðu fjölmiðla þar.
Allt eru þetta þó lýðræðisríki að nafninu til. En lýðræðið á undir högg að sækja í þeim öllum meðal annars vegna aðgerða stjórnvalda gagnvart fjölmiðlafrelsi.
Nú eru fyrirætlanir um að það hjá stærsta samfélagsmiðlinum Facebook að ráða blaðamenn til að velja fréttir sem birtast í sérstakri fréttaveitu sem hann ætlar að setja upp. Ritstjórnarvaldið sem fyrirbærið ætlar að taka sér verður þar af leiðandi orðið nær algjört. Það má slá því föstu, í ljósi þeirra áhrifa sem misnotkun á Facebook hefur haft á lýðræðislegar kosningar, þeim tólum sem þetta alþjóðlega hagnaðardrifna stórfyrirtæki hefur fært þeim sem vilja valda samfélagslegum skaða með dreifingu rangra eða afbakaðra upplýsinga og falsfrétta og með því að hirða tekjustrauma hefðbundinna fjölmiðla að fátt ógni grunnstoðum lýðræðis jafn mikið í dag og Facebook.
Spekilekinn og samdráttur í getu
Hérlendis hefur staða flestra fjölmiðla hríðversnað á örfáum árum, líkt og margoft hefur verið rakið. Það þarf ekkert að takast um það. Samkvæmt tölum Hagstofu Ísland hafa tekjur þeirra dregist verulega saman á áratug, sérstaklega þeirra sem sinna fréttavinnslu en einblína ekki einvörðungu á afþreyingu. Auglýsingatekjur hafa til að mynda helmingast.
Flestir íslenskir einkamiðlar eru reknir í tapi. Og jafnvel þeir sem reknir eru í jafnvægi, líkt og Kjarninn, eru það vegna þess að þeir taka ábyrgar rekstrarákvarðanir þegar augljóst er að tekjur standa ekki undir starfseminni. Á mannamáli þýðir það að fækka starfsfólki, að fjölga verkefnum hjá hverjum og einum starfsmanni eða draga úr umfangi þess sem fjölmiðilinn ætlar sér að gera. Blaðamönnum í Bandaríkjunum, vöggu vestrænnar fjölmiðlunar, hefur fækkað um 50 prósent á áratug. Ekki er ólíklegt að fækkunin sé sambærileg á Íslandi.
Margt reynslumikið hæfileikafólk hefur horfið úr geiranum og allt of stórt hlutfall þeirra sem þar starfa í dag eru með litla sem enga sérhæfingu eða starfsreynslu. Spekileki hefur átt sér stað. Það sést til að mynda á því að telja þá starfandi blaðamenn sem fjalla um efnahagsmál og viðskipti sem hafa starfað í fjölmiðlum frá því fyrir hrun, og hafa því yfirsýn yfir samhengi þess tímabils. Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar.
Kjöraðstæður lobbýista
Á sama tíma hefur staða hagsmunargæsluaðila, og geta þeirra til að koma sínum málstað á framfæri í umræðunni aukist. Það á við um gríðarlega vel fjármögnum hagsmunasamtök svokallaðra lobbýista sérstakra atvinnugreina sem og almannatenglafyrirtæki sem dafna vel lítið eða óséð í skugga samfélagsins í allskyns áróðursstarfsemi.
Meira að segja íslensku stjórnarmálaflokkarnir hafa tekið ákvarðanir um að margfalda framlög til sinnar starfsemi úr ríkissjóði. Þau hafa farið frá því að eiga að vera 286 milljónir króna fyrir tæpum tveimur árum í að vera 744 milljónir króna í ár.
Allir ofangreindir aðilar hafa nefnilega hag af því að selja sinn sannleika. Og setja hann fram með sínum hætti til að ná árangri fyrir sig og sína skjólstæðinga.
Það er auðvitað draumur lobbýistans, og sumra stjórnmálamanna, að geta óhindrað verið í hlutverki sögumannsins í samfélaginu. Sá sem ræður því hvernig atburðir eru túlkaðir í samtíma og hvernig sagan geymir þá. Ef frjálsir, fjölbreyttir og sjálfstæðir fjölmiðlar, í ólíku eignarhaldi með sterkar og fyrirsjáanlegar rekstrarforsendur, eru ekki til staðar þá fá slíkir aðilar það hlutverk endanlega.
Tilraun til að auka fjölmiðlafrelsi
Á Norðurlöndunum, sem eru þau samfélög sem Ísland ber sig mest saman við, má rekja rekstrarstuðning hins opinbera til einkarekinna fjölmiðla aftur til ársins 1990. Í Noregi og Svíþjóð hefur stuðningurinn verið aukinn umtalsvert undanfarin misseri. Dönsk stjórnvöld kynntu einnig aðgerðir til að bregðast við rekstrarstöðu fjölmiðla í fyrra, sem fólust meðal annars í því að draga saman umfang DR, danska ríkissjónvarpsins.
Í næsta mánuði mun mennta- og menningarmálaráðherra mæla fyrir frumvarpi sem felur í sér að það eigi að taka upp endurgreiðslukerfi á kostnaði við rekstur ritstjórna. Verði það að lögum munu fjölmiðlar geta fengið greitt 25 prósent af ritstjórnarkostnaði upp að 50 milljón króna þaki, auk þess sem tryggingargjald verður í raun fellt niður á blaðamenn undir ákveðnu launahámarki í formi viðbótarendurgreiðslu. Samanlagt er áætlaður kostnaður við þetta 520 milljónir króna á ári og fer að meginuppistöðu til þriggja stórra fjölmiðlahúsa: Árvakurs, Fréttablaðsins og Sýnar.
Eins og hin styrktarkerfin
Þetta kerfi sem lagt er til að verði tekið upp er alveg eins uppbyggt og styrkjakerfi fyrir kvikmyndaiðnaðinn, bókaútgáfu og rannsóknir og þróun hérlendis þar sem milljarðar króna eru endurgreiddir árlega vegna kostnaðar. Kvikmyndaiðnaðurinn hefur fengið milljarða króna á síðustu árum í endurgreiðslur. Þær hafa ratað bæði til innlendra aðila sem standa í sjálfstæðri framleiðslu en líka erlendra aðila, sem ráða síðan íslenska fagmenn í verkefni sín og stuðla þar af leiðandi að aukinni reynslu, þekkingu og sérhæfingu hjá íslensku kvikmyndagerðarfólki. Kvikmyndin Fast & Furious 8 sem tekin var upp hérlendis árið 2016 fékk til að mynda 509 milljónir króna endurgreiddar úr ríkissjóði, eða 98 prósent þeirrar upphæðar sem til stendur að veita til styrktar á íslensku fjölmiðlaumhverfi árlega samkvæmt frumvarpinu.
Heildarafsláttur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar var samtals um 2,75 milljarðar króna árið 2017. Síðan þá hefur þak hans verið hækkað. Búist er við því að bókaforlög fá á bilinu 300 til 400 milljónir króna í endurgreiðslu á ári frá hinu opinbera vegna nýrra laga um 25 prósent endurgreiðslu kostnaðar til þeirra.
Þetta eru líka góð skref og ráðherrann getur náð fram skynsömum breytingum á starfsemi RÚV, þar sem hlutverk fyrirtækisins og tekjumöguleikar eru skilgreindir skýrt, í gegnum nýjan þjónustusamning sem á að taka gildi í byrjun næsta árs, og verið er að semja um nú.
Tækifærið er núna
Samandregið þá munu allar þessar aðgerðir gefa faglegum íslenskum fjölmiðlum tilverugrundvöll. Þeir mun líka setja aukna ábyrgð á þá að standa undir því hlutverki sínu gagnvart almenningi.
Það er nefnilega misskilningur að stjórnmálamenn séu með þessu að skammta fjölmiðlum rekstrarfé sem gæti leitt til þess að þeir vilji ekki bíta í hendina sem fóðrar þá. Stjórnmálamenn eiga ekki ríkissjóð, almenningur á hann og það er gagnvart honum sem miðlarnir þurfa að standa skuldaskil.
Það er líka hægt að horfa til hinna Norðurlandanna í þessu sambandi. Þeirra sömu sem hafa áratugum saman haldið úti opinberum styrkjakerfum fyrir fjölmiðla. Á lista Reporters without borders, eða Blaðamanna án landamæra, eru Noregur í efsta sæti yfir þau lönd þar sem ríkir mest fjölmiðlafrelsi. Finnland er í öðru sæti og Svíþjóð í því þriðja. Danmörk er í fimmta sæti. Ísland er í 14. sæti og hefur hríðfallið niður listann á undanförum árum.
Tækifærið til að laga þessa stöðu er núna. Það er undir ábyrgum stjórmálamönnum að grípa það á næstu vikum og mánuðum.