David Gunnlaugsson, sem við þekkjum sem Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Miðflokksins, er maður sem er ansi sýnilegur í breskum fjölmiðlum þessa dagana. Hann skrifaði grein í Spectator nýverið og í morgun var hann til viðtals á Sky sjónvarpsstöðinni þar sem hann sagði Bretum að tímabundin aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) muni „solve all your difficulties“ og að Bretland muni vera „able to get the good things without many of the bad“ með þessari leið sem hann sé að opna augu þeirra fyrir. David telur að Bretar geti farið út úr Evrópusambandinu og inn í EES-samninginn fyrir októberlok. Þ.e. á rúmum tveimur mánuðum.
Við þennan málflutning er nokkuð margt að athuga.
Til að byrja með hefur breska þingið þegar kosið um það hvort Bretland eigi að láta reyna á það að ganga í EES, og hafnað því. Í öðru lagi eru þau markmið sem Bretar vilja ná með útgöngu úr Evrópusambandinu, meiri yfirráð yfir sínum málum, meiri stjórn á landamærum sínum, útganga úr innri markaði Evrópu og útganga úr evrópska tollabandalaginu allt ósamrýmanleg því að taka upp EES-samninginn. Í honum felst enda nánast full upptaka fjórfrelsis Evrópusambandsins – meðal annars þegar kemur að frjálsri för vinnuafls – og sú staða að taka upp meginþorra regluverks sambandsins, með nokkrum vel skilgreindum undantekningum, án þess að hafa bein áhrif á samningu þess eða samþykkt.
Já, og svo þarf að borga í svokallaðan uppbyggingarsjóð EES fyrir þessa aukaaðild. Fyrir tímabilið 2014 til 2021 nemur sá verðmiði 1.584 milljónum evra. Ísland borgar þrjú til fjögur prósent þeirra upphæðar, Liechtenstein minna en Noregur nánast allt, eða um 95 prósent. Ef Bretar myndu ganga inn í þetta fyrirkomulag myndi þessi tala væntanlega hækka og Bretar þurfa að borga mjög stóran hluta hennar.
Stjórnarandstöðuþingmenn veita ekki aðgengi að EES
En það er líka hægt að kafa dýpra til að sýna hversu fjarstæðukennt skrum þessi framsetning er, að Bretar geti bara gengið tímabundið inn í EES á nokkrum vikum, óháð því hversu samrýmanleg hún yrði Brexit-markmiðunum.
Til að ganga í EFTA þurfa t.d. bæði Noregur (aðili að EES) og Sviss (aðili að EFTA en ekki EES) að samþykkja slíkt. Það verður að teljast ólíklegt að þau tvö ríki, sem eru mjög ánægð að uppistöðu með það sem EFTA færir þeim í dag og þau áhrif sem þau hafa innan samstarfsins, muni vilja Breta aftur þangað inn.
En segjum, rökræðunnar vegna, að slíkt myndi ganga eftir og Bretar myndu snúa aftur í EFTA, samtök sem ríkið yfirgaf árið 1972 til þess að ganga í Evrópusambandið. Bretar þyrftu þá að semja við Evrópusambandið, sértækt við öll 27 eftirstandandi ríki Evrópusambandsins og þau þrjú ríki sem standa að EES-samningnum að fá að ganga inn í hann. Stjórnarandstöðuþingmenn á Íslandi geta ekki einhliða veitt Bretum aðgengi að samningnum, hvort sem um væri að ræða tímabundna eða varanlega ráðstöfun. Þjóðþing allra ofangreindra ríkja þyrftu svo að samþykkja aðild Breta að EES-samningnum.
Við það að taka upp EES-samninginn myndu Bretar síðan taka þátt í stofnunum EES, enda felur samningurinn í sér tveggja stoða kerfi, sem taka ákvarðanir um innleiðingu og beitingu EES-reglna innan þeirri ríkja sem eru hluti af EES. Helstu stofnanir eru EES-ráðið og Sameiginlega EES-nefndin sem tryggir virka framkvæmd samningsins. Innan síðarnefndu stofnunarinnar myndu Bretar meðal annars sitja með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og taka ákvarðanir um innleiðingu gerða sem þeir höfðu ekkert að gera með þegar þær voru samdar. Sem, aftur, er í algjörri andstöðu við það sem Bretar vilja ná fram með Brexit.
Vandræðalegt en þjónar ákveðnum tilgangi
Adam Boulton, fréttaþulur Sky News, benti David Gunnlaugsson á sumt af ofangreindu, án þess að það hafi haft nein áhrif á framsetninguna. En samandregið er þessi framsetning lítið annað en illa ígrunduð og vandræðaleg þvæla, sérstaklega þegar hún er sett fram af fyrrverandi forsætisráðherra Íslands í viðtali við alþjóðlega sjónvarpsstöð sem hefur gríðarlega mikla útbreiðslu.
Kannski er þetta til heimabrúks, enda hefur sú vegferð að grafa undan og tortryggja EES-samningnum og Schengen-samstarfinu náð áður óþekktu flugi í íslenskum stjórnmálum undanfarið með framgöngu Miðflokksins og yfirlýsingum valinna áhrifamanna innan Sjálfstæðisflokksins um að það sé nauðsynlegt að endurskoða eðli og inntak EES-samningsins, án þess að nokkuð efnislegt sé tilgreint í þeim efnum. Með nokkuð góðum árangri. Þar hefur þeirri aðferð að mestu verið beitt að skeyta engu um staðreyndir, heldur að beita hræðsluáróðri og skrumi til að ná markmiðum sínum. Það hljómar kannski mótsagnarkennt að tilraun til að draga Breta inn í EES sé hluti af vegferð til að grafa undan EES, en það á ekki að koma neinum á óvart að pólitísk orðræða úr þessari átt sé mótsagnarkennd og án raka. Það sætti frekar tíðindum ef hún væri það ekki.
Eitt er víst, að hér hafa menn lært margt af orðræðunni í Brexit. Þeir hafa búið til strámenn í útlöndum sem eru að taka einhver ímynduð völd af íslenskum almenningi og vilja helst allt gera til að draga úr lífsgæðum hans. Þeir tala um „glóbalista“ og óskilgreind erlend hagsmunaöfl sem reyni að bregða fæti fyrir frelsishetjur í hverju skrefi þeirra. Þeir teikna upp víglínur í stríði gegn þeim stórauknu tækifærum, réttindum og lífsgæðum sem alþjóðasamstarf hefur fært Íslendingum.
Þessu skulum við venjast vegna þess að stjórnmálaumræðan hérlendis virðist vera að fara að hverfast um þessa víglínu.