Loftbrúin til og frá Íslandi er mikilvægasta efnahagslega fyrirbærið sem Ísland reiðir sig á. Gjaldeyristekjur landsins standa að miklu leyti og falla með loftbrúnni. Ekki aðeins ferðaþjónustan heldur líka vöruflutningar, að miklu leyti. Flug til og frá landinu er orðið enn mikilvægara en það var, eftir ævintýralegan uppgang ferðaþjónustunnar á árunum 2011 til 2018.
Það skiptir miklu máli fyrir Ísland að flugfélögin sem sinna flugþjónustu til og frá landinu séu burðug og hafi nægilegan styrk - fjárhagslega og skipulagslega - til að sinna þjónustu sinni af áreiðanleika.
Mikil sókn erlendra flugfélaga í að sinna þessu hlutverki hefur aukið samkeppni og valmöguleika. Þetta hefur skipt miklu máli fyrir þjóðarbúið og vonandi tekst að viðhalda og auka enn frekar vinsældir Íslands sem áfangastaðar.
Áhorfendur að mikilvægi
Með falli WOW air voru landsmenn áhorfendur að því hvað getur gerst þegar ógagnsæi ríkir um stöðu mála, þegar lofbrúin er annars vegar.
Það skiptir máli að upplýsingar um stöðu mála í flugrekstri séu uppi á borðum. Þar er starfsemin sjálf ekki aðalatriðið, heldur miklu frekar hið kerfislæga mikilvægi fyrir þjóðarbúið. Til dæmis hefur þjóðarbúið ekki efni á því að Icelandair fari á hausinn, líkt og WOW air gerði, vegna þess hve mikilvægt félagið er fyrir ferðaþjónustuna og þjóðarbúið.
Þegar lítið samfélag, einungis 360 þúsund íbúa, rekur sjálfstæða mynt og peningamálastjórn - og reiðir sig jafn mikið og raunin er á ferðaþjónustu og loftbrúna - þá er undarlegt að leynimakk um alþjóðlegan flugrekstur geti fengið að viðgangast.
Nú berast fréttir af því að sala á farmiðum muni hefjast í vikunni, undir vörumerki WOW air. USAerospace Associates LLC á að hafa keypt eignir úr þrotabúi WOW air, og stefnir að lággjaldaflugfélagsrekstri frá og með haustmánuðum. Búið er að halda einn opinberan blaðamannafund þar sem frú Ballarin tjáði sig um stórhuga áform og endurreisn.
Vonandi, fyrir íslenska neytendur, eykst samkeppnin og að þeir sem vilja stunda flugrekstur til og frá landinu reynist traustsins verðir. Það sem er áhyggjuefni í þessu, er að ekkert liggur fyrir um áreiðanleika. Þetta er mikill ábyrgðarhluti í ljósi mikilvægis íslensku lofbrúarinnar fyrir hagkerfið. Ef flugrekstrarleyfi liggja ekki fyrir eða eitthvert innistæðuleysi einkennir þessi opinberu áform, þá er það ekki góð hugmynd að byrja fljótlega að selja neytendum þjónustu.
Stjórnvöld ættu að gefa þessu gaum og gera kröfur - með lögum og reglum - um gagnsæi við upplýsingagjöf og útgáfu flugrekstrarleyfa. Eftirlitið verður líka að lúta sömu lögmálum. Til dæmis væri hægt að skylda öll félög með flugrekstrarleyfi til að skila skýrslum um fjárhagsstöðu, farþegafjölda og vöruútflutning, mánaðarlega. Allt verði þetta opinbert og uppi á borðum, öllum stundum.
Þá ætti líka að gera kröfur til þeirra sem auglýsa opinberlega áform um að hefja sölu á flugþjónustu á netinu, um að allt sé uppi á borðum og óumdeilt sé að viðkomandi geti staðið við sitt þegar farið er af stað, og sé að fara að lögum og reglum.
Heppnin með okkur hinum
Íslenska loftbrúin á undir högg að sækja þessi misserin, meðal annars vegna kyrrsetningu 737 Max vélanna, eins og þekkt er. Ekki liggur fyrir hvenær flug þeirra véla verður heimilað. Það er hollt fyrir okkur, sem erum svo heppin að vera ekki aðstandur þeirra 346 sem létust í flugslysunum sem eru ástæða kyrrsetningarinnar, að sýna rannsókn á göllum í vélunum þolinmæði.
Líklega mun umfang hagkerfisins íslenska minnka hér eftir, eftir því sem kyrrsetningin er lengur í gildi, en það skiptir minna máli heldur en öryggi og réttlæti í þessu máli. Rannsóknir verða að hafa sinn gang og mikilvægast er allt verði dregið fram í dagsljósið sem máli skiptir.
Atburðir síðustu mánaða og vikna þegar kemur að flugbrúnni - fall WOW air, kyrrsetningin á Max vélunum og nú endurreisn á flugþjónustu undir merkjum WOW air - ættu að vekja stjórnvöld til umhugsunar um mikilvægi gagnsæis þegar loftbrúin er annars vegar. Það verður að læra af mistökunum.
Það verður að segjast eins og er að það er lélegt hjá stjórnvöldum að vera ekki búin að grípa til markvissari aðgerða, til að draga allt fram í dagsljósið sem máli skiptir og hafa það aðgengilegt öllum stundum. Það er hluti af því að tryggja áreiðanleika fyrir flugþjónustuna og vernda þjóðaröryggi, hvorki meira né minna, vegna kerfislægs mikilvægis loftbrúarinnar fyrir hagkerfið.