Hagspár eru misvísandi nú sem oft áður, en sé miðað við spár Seðlabanka Íslands, Hagstofunnar og nú síðast OECD, þá verður einhversstaðar á bilinu -0,4 til 0,2 prósent hagvöxtur á þessu ári.
Við blaðamenn gerum mikið af því að fjalla um hagtölur og það er eðilegt, í ljósi þess að þær eru oftar en ekki forsendur fyrir ákvörðunum stjórnmálamanna, fyrirtækja, stéttarfélaga og annarra sem að þeim koma.
Ekki öll sagan
En hagtölur segja ekki alla söguna og mikilvægt er að muna að hagvöxtur er bara einn mælikvarði af mörgum til að mæla efnahagslega þróun.
Hagstofa Íslands birti á dögunum yfirlit um þróun í hagkerfinu sem gefur tilefni til að staldra við og velta því upp hvort hagkerfið sé að þróast með æskilegum hætti.
Sérstaklega er það þróun í tækni- og hugverkageiranum, sem oft er nefndur bakbeinið í alþjóðlega hluta hagkerfisins, sem ætti að vekja stjórnvöld og fyrirtæki til umhugsunar. Á undanförnu ári hefur störfum í þessum geira fækkað um 2,5 prósent, eða um 400. Samtals voru 13.300 störf skilgreind í þessum geira um mitt ár í fyrra en þau voru 12.900 á þessu ári.
Það hefur því verið afturför, sé horft til þessara talna. Stjórnvöld hafa þó aukið við fjárfestingu í nýsköpun, með auknum framlögum í ívilnanir ýmis konar og rannsóknar- og tækniþróunarsjóði. En það er ekki það sem öllu skiptir, þó það sé jákvætt að meiri kraftur einkenni nú þessi mál en áður.
Ísland hefur ekki mikla möguleika á því að skapa aðstæður fyrir uppbyggingu alþjóðlegs þekkingariðnaðar. Ástæðan er meðal annars smæðin og takmarkaðir möguleikar þegar kemur að fjármagni og þekkingu.
Ein ástæðan er aðstaðan og ákjósanlegur jarðvegur, eins og víða er að finna í borgum þar sem best gengur að örva nýsköpun.
Það sárvantar að nýta möguleika á því að efla rannsóknar- og þekkingarsamfélagið sem er hjartavöðvinn í mannauði landsins. Það er háskólasamfélagið. Þar ekki endilega aðalmálið að auka við fjármagn. Heldur ekki síður að styðja við samfélagslega þætti þess.
Merkilegt er að hugsa til þess hversu stutt vegalengd er á milli Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands. Það er líka merkilegt að þar á milli sé flugvöllur sem notaður er fyrir deyjandi innanlandsflug og síðan einkaþotur, þar sem boðið er upp á niðurgreiddan lúxus fyrir auðmenn; að lenda inn í miðborginni og hafa það náðugt.
Þetta er kjörlendi fyrir suðupott nýsköpunar og mannlífs í háskólasamfélagi, sem myndi glæða borgarsvæðið - það eina á Íslandi - miklu lífi. Það er færi þarna á því að búa til jarðveg fyrir frjóa hugsun frumkvöðla; uppsprettu alþjóðageirans. Það sem hefur nú þegar risið í nágrenni við háskólanna, meðal annars rannsóknarsetur á sviði heilbrigðis- og lyfjavísinda og starfsstöðvar hugbúnaðarfyrirtækja, hefur haft mikil jákvæð áhrif á nærumhverfið og mun gera það inn í framtíðina.
Ekki einkamál flugáhugafólks
Deilurnar um flugvöllinn í Vatnsmýri mættu oftar snúast um þetta, sem minnst er á hér að ofan. Að svæðið sem í dag er lagt undir flugvöll sé í reynd eina svæðið á Íslandi sem tengir saman stærstu háskóla landsins, mannlífið í miðborginni og rannsóknar- og nýsköpunarstarf fyrirtækja og stofnanna í grennd, meðal annars á sviði heilbrigðisvísinda.
Það er mikilvægt að muna að áhugafólk um flug á engan einkarétt á rökræðum um svæðið, eins og stundum mætti ætla af opinberri umræðu um Vatnsmýrina. Margt annað - og mun mikilvægara en flug - kemur upp í hugann þegar heildarmyndin á þessu svæði er skoðuð.