Fátt skiptir fólki jafn kirfilega í aðgreind mengi og notkun reiðhjóla. Að frátöldum þeim hjólum sem augljóslega eru barnaleikföng, er engu líkara en önnur reiðhjól séu annað hvort heillandi gripir fyrir búðaferðir í góðu veðri (góð hjól) eða hin verstu drápstól, illa séð á flestum stígum, aðskotahlutir á götum og í alla staði ómöguleg (reið hjól).
Í vetrarmyrkrinu sem nú er að skella á má búast við meiri umfjöllun fjölmiðla um þessi umdeildu fyrirbæri. Árvissar predikanir um að hjólreiðafólk eigi helst að vera klætt í ákveðin föt og líta út eins og blikkandi jólatré eru þegar farnar að sjást. Undanfarin ár hefur umræðan orðið mjög tilfinningaþrungin, þar sem ýmsir blaðamenn hafa gaman af að kynda vel undir fordómum og misvel ígrunduðum skoðunum fólks, í trú sinni á að tilgangslausar deilur selji áskriftir deyjandi dagblaða. Færri eru uppteknir af því að kynna sér hvað er rétt eða rangt. Það er því bæði einföld en um leið alröng ályktun að samfélagsmiðlar og sú tóntegund sem þar er iðkuð hafi á einhvern hátt skapað eða ýtt undir þessa eldfimu heift. Dæmin sanna að svo er ekki. En þó reiðhjól eigi sér rúmlega 200 ára sögu kviknaði þörfin fyrir almennar umferðarreglur og lög þó ekki fyrr en bifreiðar koma til sögunnar um það bil 100 árum síðar. Hvers vegna ætli það sé?
Ný umferðarlög
Endurskoðuð umferðarlög sem taka gildi næstu áramót voru í smíðum í tæplega 20 ár. Við hverja yfirferð voru dregnar fram ýmsar tillögur til úrbóta gjarna byggðar á reynslu annarra þjóða, umsagna leitað hjá hagsmunaaðilum, nefndarfundir haldnir til að ræða nauðsyn og mikilvægi allra þátta og alls kyns úrlausna leitað. Vinnustundir við hverja slíka umferð teljast í þúsundum. Allri þessari vinnu var svo iðulega fórnað í hefðbundnum hrossakaupum um næsta ál- eða orkuver. Þingmenn vilja nefnilega gjarna leggja nafn sitt við mengandi stóriðju svo þeir teljist atvinnubjargvættir í sinni heimabyggð en kjarkinn brestur þegar á að bæta það lagaumhverfi sem tryggir að kjósendur þeirra komist lifandi til og frá vinnu í málmverinu. Það má því teljast einhvers konar kraftaverk að heildarendurskoðun laganna lauk á þessu ári. Því miður var við það tilefni horft framhjá fjölmörgum hlutum sem hefði þurft að laga. Það veit til dæmis enginn ennþá hvernig á að framfylgja þeirri nýju reglu að þegar ökutæki er ekið framúr hjólreiðafólki á að halda að lágmarki 1,5 metra millibili. Brot á þessari reglu er heldur ekki tengt neins konar viðurlögum og hlýtur því í besta falli að teljast alger markleysa af verstu gerð. Þessu verður að breyta.
Samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra eru nú 247.344 ökuskírteini í gildi sem staðfesta réttindi fólks til að aka bifreið af algengustu gerð. Tölfræði frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sýnir að á árinu 2018 áttu um það bil 1.500 umferðarlagabrot sér stað í hverri viku. Fólk þarf því ekki að líta lengi í kringum sig í daglegri umferð til að koma auga á ökumenn sem sárlega þurfa á endurmenntun að halda. Þetta gerist þrátt fyrir það að ökukennsla sé almennt nokkuð góð og umferðaröryggi mikið í umræðunni. Hversu slæmt getur ástandið þá orðið á þeim sviðum þar sem ökumenn fá litla sem enga leiðsögn? Af hverju er í lagi að senda ár eftir ár nýja kynslóð af ökumönnum út á vegina án þess að þeir fái haldbæra kennslu í því að umgangast þann ört vaxandi hóp vegfarenda sem hjólreiðafólk er? Þessu þarf að breyta.
Kanntu að keyra?
Að upplýsa fólk vel í upphafi um hvað er rétt hegðun hefur mun meiri og betri áhrif en að lemja fólk til hlýðni síðar meir með boðum, bönnum og sektum. Þess vegna vekur það furðu hversu illa íslensk ökukennsla stendur að vígi þegar talið berst að hjólreiðum. Samkvæmt núgildandi námsskrá til ökuréttinda og samtali við sérfræðing Samgöngustofu virðist engin krafa gerð um að nýir ökumenn þekki þær merkjasendingar sem hjólreiðafólk notar. Einföldustu stöðvunar- og stefnumerki eru ekki nefnd í því kennsluefni sem í dag er í fullu gildi. Það alversta við þessa staðreynd er að það er ekki einu sinni hægt að kenna því um að efnið sé orðið gamalt og úrelt. Sú útgáfa kennslubókar sem er notuð er við kennslu til almennra ökuréttinda er einungis 3ja ára gömul og útgefin af Ökukennarafélagi Íslands, með samþykkt Samgöngustofu. Þar er reyndar meira púðri eytt í að vara ökumenn við að aka á brautarteinum sporvagna en að fara varlega nærri hjólreiðafólki, enda er kennslubókin þýdd beint úr finnsku og miðuð við aðstæður þar. Það er því augljóst að þeir aðilar sem eiga að tryggja að nýir ökumenn kunni það sem kunna þarf eru ekki að rækja sínar skyldur. Þessu verður að breyta.
Hvað gerðist?
Víða erlendis hefur hjólreiðafólk þann sið að nota upptökutæki til að skjalfesta þau atvik sem verða í umferðinni. Myndavélar festar á stýri reiðhjólsins taka þá upp allt það sem gerist fyrir framan hjólið. Sams konar myndavélar eru enn algengari í bílum og upptökur frá þeim hafa þegar nýst vel við að leysa úr umferðaróhöppum. Slíkar upptökur auðvelda aðilum máls að fá sanna og skýra mynd af atburðarás í aðdraganda óhapps. En á einhvern óútskýrðan hátt hefur íslensk löggæsla komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki hægt að gera í tengslum við hjólreiðar. Það er engu líkara en hjólreiðafólk sé af lögreglu almennt talið svo óáreiðanlegt að meira að segja myndavélum þess verði ekki treyst. Þessu verður að breyta.
Hvenær sem hópar myndast, hvort sem samnefnarinn er bakstur, akstur, hjólreiðar eða eitthvað annað, munu alltaf verða til einstaklingar innan hvers hóps sem skera sig úr. Það er alltaf einhver mesti kjáninn í hópnum. Það þýðir samt ekki að það sé sanngjarnt eða réttlátt að gagnrýna alla meðlimi hópsins fyrir það sem kjáninn gerir. Við vitum öll að það eru fjölmargir bílstjórar sem fara ekki að umferðarlögum. Það þýðir samt ekki að við fordæmum alla bílstjóra hvar sem við mætum þeim. Að einhver aki bifreið á móti rauðu ljósi þýðir ekki að hægt sé að gagnrýna hvaða bílstjóra sem er fyrir það. Að einhver leggi bíl sínum á röngum stað þýðir ekki að við getum leyft okkur að garga framan í hvern sem er: “ÞIÐ BÍLSTJÓRAR KUNNIÐ EKKI AÐ KEYRA!”. Þessu virðist öfugt farið þar sem hjólreiðafólk á í hlut. Þá finnst mörgum það í góðu lagi að beina slíkri gagnrýni á hvern sem er og líta á þessa tegund vegfarenda sem eina órofa heild. Hvaða hjólreiðamaður sem er þarf að vera viðbúinn því að hlusta reglulega á bílstjóra kvarta yfir öðru hjólreiðafólki. Hvaða hjólreiðamaður sem er á það á hættu að lenda í nauðvörn við hættulegan framúrakstur, oft af því bílstjórinn telur sig eiga harma að hefna. Hvaða hjólreiðamaður sem er þarf að vera viðbúin því að ökumaður aki allt of nálægt eða sýni ekki tilhlýðilega tillitssemi, einfaldlega af því ökumaðurinn varð einhvern tíma fyrir barðinu á kjána á reiðhjóli. Þessu verður að breyta.
Ef við ætlum að treysta á virka samgöngumáta, gangandi, hjólandi osfrv, auk þess að fjölga hljóðlausum rafbílum á götum og vegum, verðum við að taka ábyrgðina alvarlega. Annars tekst okkur ekki að fækka dauðaslysum í íslenskri umferð. Nær 20 líf á hverju ári er þegar of mikið.