Hvað gerir sorp að sorpi? Í sem skemmstu máli má sennilega segja að þegar við sem einstaklingar sjáum ekki lengur persónulegt hagnýtt gildi í einhverri vöru verður hún að sorpi í okkar augum. Hvort heldur um er að ræða umbúðir, úrsérgengin húsgögn, föt, tól eða tæki eða einfaldlega matvæli sem við höfum ekki lyst á lengur þá fær varan stimpilinn; sorp. Og það sem meira er, það er eins og hún sé ekki lengur á ábyrgð okkar sjálfra.
Reyndar hafa flest samfélög kosið þá leið að safna sorpi frá heimilum og fyrirtækjum með því að sækja það heim að bæjardyrum. Fyrir þessa þjónustu greiðum við vissulega, bæði söfnunina og úrvinnsluna. Jafnframt hefur flokkun og endurvinnsla aukist verulega síðustu áratugi en sem róttækur umhverfissinni finnst mér hvergi nóg að gert. Og til að vera ekki bara sá sem nöldrar langar mig að benda á atriði sem breytt gætu ástandinu.
Leggjum niður opinbera sorphirðu
Við berum flest sjálf heim innkaupapokana úr Bónus og ökum sjálf heim vörunum úr IKEA og greiðum fús og frjáls undir póstsendingar frá Kína, en viðhorfið breytist þegar við þurfum að losna við umbúðirnar og hluti sem við teljum okkur ekki lengur hafa þörf fyrir. Þá þarf sveitarfélagið að leggja okkur til tunnur og halda úti tækjum og mannskap til að sækja heim til okkar restina af því sem við skömmu áður bárum heim glöð og ánægð og óumbeðin. Og ég er ekki bara að tala um okkur hrausta fólkið og okkur sem eigum bíla. Það leysa nefnilega allir innkaupamál sín sjálfir eða með aðstoð ættingja og vina.
Tillaga mín er því sú að sveitarfélög leggi í framtíðinni af sameiginlega sorphirðu og okkur íbúunum verði gert að koma sjálf með „afgangana“ á móttökustöðvar. Aðalatriðið við þessa kerfisbreytingu er að nú breytist sorpið í seðla. Við munum ekki sætta okkur við að bera út heilu ruslapokana af dósum og flöskum, frauðplast og bylgjupappa, mjólkurfernur og kornflakespakka, niðursuðudósir og glerkrukkur og allt annað sorp þar sem 80% er loft!! Og þá er ég kominn að öðrum þætti þessara kerfisbreytinga.
Úrvinnsluvélar inn á heimilin
Í velflestum nútímaeldhúsum finnum við eldavél, ísskáp, uppþvottavél, bakarofn og loftræstiviftu sem hluta af svokallaðri eldhúsinnréttingu. Auk allra minni eldhústækjanna; hrærivélar, kaffivélar, brauðristar, hitakönnu, blandara, poppkornsvélar, samlokugrilla og nefndu það bara. Tækjaframleiðendur heimsins hafa verið óþrjótandi við að uppfylla kröfur okkar um þessi sjálfsögðu þægindi sem við skilgreinum svo. En afhverju hefur þróunin sem lýtur að meðferð á sorpi einskorðast til skamms tíma við ruslafötu í vaskaskápnum og umdeilda sorpkvörn í eldhúsvöskum? Framsæknasta hugmyndin er kannski innbyggða sorprennan í fjölbýlishúsum niður í ruslatunnugeymsluna!
Er ekki kominn tími á að við sjáum úrvinnsluvélar, kannski í ísskápsstærð, í hýbýlum nútímafólks? Tæki sem tætir niður pappa og/eða pressar hann í staðlaða stærð af böggum (40x40cm til að nefna eitthvað), pressar allt plast úr viðeigandi flokki með sama hætti, pressar áldósir og niðursuðudósir, brýtur glerumbúðir og hakkar lífrænan úrgang sem við getum svo bætt tilbúnum stoðefnum við og skilar moltu að fáeinum vikum liðnum eða gert næringarvökva í þar til gerðum blandara. Með þessu yrðu til staðlaðar einingar inn á heimilunum sem væru þar með orðnar verðmæti fyrir frekari úrvinnslu.
Umhverfisvænni umbúðir
Þegar neytendur eru komnir með úrvinnsluvélar inn á heimilin og farnir að fá greitt fyrir „afurðirnar“, og hafa fyrir því að fara með þær sjálfir á úrvinnslustöðvar, verður krafa þeirra um að umbúðirnar falli að vélunum og úrvinnslumeðferðinni sjálfsögð. Þetta leiðir til þess að framleiðendur verða í stórauknum mæli að endurhanna umbúðir og gera þær umhverfis- og notendavænni. Umbúðir úr samsettum endurvinnsluflokkum munu eiga undir högg að sækja, magn þeirra sömuleiðis og ekki síst verður krafan um endurnýtingu sjálfsögð. Matvælamengaðar umbúðir sem erfitt reynist að þrífa detta út og trúlega munu filmur og bakkar úr niðurbrjótanleg efni taka yfir. Eftir að þessi grundvallarbreyting hefur fest sig í sessi meðal einstaklinga í heimilisrekstri munu fyrirtækin og framleiðslugeirinn fylgja í kjölfarið.
Afleiðingarnar alls þessa verða stóraukin umhverfismeðvitund, stórkostleg minnkun á sorpi og samhliða stóraukin endurnýting. Ef Íslendingar ríða á vaðið næðu þeir ákveðnu forskoti, landi og þjóð til heilla. En grunnurinn að öllu þessu er að við verðum sjálf að bera ábyrgð á sorpinu okkar innan heimilisins. Og við verðum að geta treyst því að sú flokkun og úrvinnsla sem þar fer fram skili sér ferilinn á enda þ.e. að örlög flokkaða sorpsins séu tryggð til enda en því ekki ávísað til fátækari landa eða til urðunar.
Setjum stórauknar kröfur á vöruframleiðendur
Og þá er komið að síðasta skrefinu í þessum pælingum. Í dag höfum við ítarleg lög og alþjóðasamninga um heilbrigðiskröfur, öryggiskröfur og innihaldslýsingar vöru, þannig að fordæmi fyrir lagasetningu á hendur framleiðendum eru sannarlega fyrir hendi en eins og víða sannast, höfum við ekki hugsað fyrir örlögum vöru og efna að notkun lokinni. Þó endurvinnsla og flokkun úrgangs hafi vissulega komist á dagskrá fyrir nokkrum áratugum á sú framkvæmd langt í land og nægir að benda á fréttamyndir af íslenskum urðunarsvæðum og plasti í höfunum í því sambandi. Með kröfum um merkingar í hvaða förgunarflokk og/eða förgunarferli hver einstakur hlutur á að fara væri lögð skylda á framleiðendur að sýna samfélagsábyrgð og vinna með stjórnvöldum í hverju landi og stíga þannig gríðarstórt skref til að draga úr magni sorps sem fer til brennslu og urðunar. Sem dæmi um þessa breyttu hugsun mætti annars vegar nefna að MS yrði að merkja sérstaklega öskjuna, filmuna og plastlokið utan um smjörvann og hins vegar að Coke mætti ekki selja gosdrykki í Kenýa nema úrvinnslustöðvar fyrir drykkjarvöruumbúðir væru til staðar í landinu. Lokamarkmiðið væri að flóknum samsettum hlutum, eins og raftækjum og bílum, yrðu að fylgja ítarlegar upplýsingar um úrvinnsluferðið og að auki væri ekki heimilt að selja inná markaði sem ekki hefðu yfir viðeigandi lausnum að ráða.
Augljóslega eru hér lagðar til mjög róttækar breytingar sem hefðu í för með sér miklar breytingar á alþjóðaviðskiptum. Við gerum okkur hins vegar flest grein fyrir að stórkostlegra breytinga er þörf á flestum sviðum lifnaðarhátta okkar nútímafólks. Segja má að loftslagsváin hafi tekið yfir sviðið síðustu misseri, að nokkru á kostnað umræðu um sjálfbærni og endimörk vaxtarins. Allt ber þetta þó að sama brunni; stjórnlaus neysla okkar, sem hefur aukist gríðarlega síðustu áratugi, fær ekki staðist hvorki í líffræðilegum né hagrænum skilningi hvað þá siðferðilegum.