Það er alltaf leiðinlegt þegar fyrirtæki segja upp starfsfólki, en það er líka önnur hlið á því og jákvæðari. Í uppsögninni - hvort sem það er starfsfólkið sem á frumkvæði að því eða fyrirtækin - felst breyting sem gefur tilefni til endurmats. Í því felast ný tækifæri, ný sýn.
Undanfarnir dagar hafa verið erfiðir hjá mörgum fjölskyldum á Íslandi enda hafa Arion banki og Icelandair samtals gripið til þess að segja upp 199 starfsmönnum og Íslandsbanki sagði upp 20 til viðbótar auk þess sem fleiri hafa hætt sökum aldurs, án þess að endurráðið sé í þess staðinn.
Einnig hafa heyrst tíðindi úr fleiri fyrirtækjum sem hafa gripið til þess ráðs að hagræða í rekstri til að takast á við breyttan veruleika, án þess að til hópuppsagna hafi komið. Atvinnuleysi hefur farið hækkandi og gæti átt eftir að stíga enn frekar, þó það sé enn lágt í alþjóðlegum samanburði, eða 4,4 prósent.
Breyttur veruleiki
Það sagði sína sögu um hvernig þessi breytti veruleiki birtist að ný útlán banka til fyrirtækja hafa dregist saman um 52 prósent miðað við sama tímabil fyrir ári síðan, samkvæmt hagtölum sem Seðlabanki Íslands birti í vikunni. Þrátt fyrir lækkandi vexti þá er fjárfesting ekki mikið að örvast, en vonandi mun það breytast - ekki síst ef vextir lækka meira.
Sú heildarmynd sem blasir við á fjármálamarkaði sýnir að bankarnir munu vafalítið eiga í vandræðum með að finna sóknarfæri og skila góðri arðsemi á næstunni, miðað við fastan undirliggjandi kostnað og samkeppnisaðstæður.
Erfitt er að draga aðra ályktun en þá en að það sé offramboð af bankaþjónustu, og ekki ólíklegt að uppsagnir haldi áfram samhliða frekari breytingum og hagræðing með öðrum leiðum sömuleiðis, t.d. sameiningum fyrirtækja.
Ofan í aðstæðurnar eru svo að eiga sér stað tæknibreytingar í fjármálaþjónustu, t.d. með galopnun á greiðslumiðlun á alþjóðamörkuðum og ýmsum sérhæfðum lausnum sem byggja á nýtingu gagna og rafmynta, svo fátt eitt sé nefnt.
Flest bendir til þess að sóknarfærin liggi frekar hjá sveigjanlegum minni fyrirtækjum, í þessum aðstæðum, frekar en bönkum sem veita alhliða hefðbundna bankaþjónustu. Skipulagsbreytingarnar sem Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, kynnti í dag, eru í takt við það, að hann sjái sóknarfæri í sveigjanlegum banka.
Íslenska ríkið þarf að móta sér skýra sýn fyrir fjármálakerfið sem eigandi um 80 prósent af því, í gegnum eignarhald sitt á Íslandsbanka, Landsbankanum og Íbúðalánasjóði. Bankarnir eru ekki sérstaklega söluvænlegir, nema þá helst að það sé búið að grípa til nægilegrar hagræðingar. Þá hef ég trú á því, að það geti reynst erfitt á sviði stjórnmálanna, að mynda nægilega mikla sátt um hvernig staðið verður að sölu bankanna.
Ólík sýn stjórnmálaflokkanna, í hálfgerðri viðvarandi stjórnmálakreppu, skiptir þar miklu máli. Sumir flokkar vilja selja bankanna, en aðrir alls ekki.
Tækifærin víða
Óþarfi er þó að mála upp of dökka mynd af stöðunni á fjármálamarkaði - eða því sem blasir við fólki sem var að missa vinnuna. Breytingar geta verið það besta sem kemur fyrir í lífi fólks, ef það tekst á við þær með jákvæðni og víðsýni að vopni. Tækifærin geta reynst víða og þegar upp er staðið þá skiptir meira máli að hugsa málin þannig, að breytingarnar gefi tilefni til að opna nýjar dyr.
Munum einnig að í litlu landi eins og Íslandi - með aðeins rúmlega 200 þúsund manns á vinnumarkaði - þá getur það verið mikill styrkur að tala um það sem tækifæri, að skipta um starfsvettvang. Auðvelt er að tala máli samstarfsfélaga og vina, og sérfræðinga, sem fólk hefur góða reynslu af, og eru nú allt í einu á lausu til að vinna að mikilvægum öðrum verkefnum.