Nefnd skipuð Kristrúnu Heimisdóttur, Birni Bjarnasyni og Bergþóru Halldórsdóttur hefur skilað yfirgripsmikilli skýrslu um Ísland og EES-samninginn og samstarfið sem hvílir á honum. Skýrslan er yfir 300 blaðsíður og því of snemmt að fjalla um allt innihald hennar.
Skýrslan og vinna nefndarinnar er mikilvæg að því leyti að hún fjallar um tengingu Íslands við umheiminn - hvorki meira né minna. Samningurinn er það mikilvægur íslensku samfélagi að líkja má honum við lífæð í viðskiptum og burðarvirki hagkerfisins.
Við fyrstu sýn virðist nefndin draga þetta vel fram og það sést glögglega að mikilvægi samningsins er augljóst öllum þeim sem skoða hann og meta áhrifin. Án EES-samningsins væri Ísland fátækara og lífskjör verri.
Leiðarstefið sem ætti að vera
Einangrun Íslands - og hættan á henni til framtíðar litið - er eitt af því sem ætti að vera leiðarstef í pólitískri umræðu. Þannig er það hins vegar ekki. Frekar er rökrætt um málin á hinn veginn - hvernig sé hægt að forðast það að lenda í hramminum á alþjóðastofnunum eða alþjóðasamfélaginu. Í það minnsta þarf stundum ekki að leita lengi til sjá að umræða hjá stjórnmálamönnum er í þessum farvegi.
Sé horft til tveggja alþjóðlegra viðfangsefna um þessar mundir, þá blasa við miklar áskoranir. Þær eiga það sameiginlegt að Ísland getur ekki leyst úr vandamálum sem fylgja, nema sem virkur aðili í alþjóðlegu samstarfi.
Fyrra atriðið eru grundvallarbreytingar sem eru að verða á fjármálaþjónustu í heiminum. Greiðslumiðlun er að opnast upp á gátt vegna tæknibreytinga og breytinga á lögum og reglum sem gilda yfir landamæri, meðal annars á EES-svæðinu. Almennt eru sérfræðingar og frumkvöðlar sammála um að fjármálakerfið standi á tímamótum, og sé að fara í gegnum mestu breytingar sem orðið hafa á fjármálaþjónustu í áratugi.
Fjármálaþjónustan og séríslenskar lausnir
Hið þekkta siðferðislega vandamál sem tengist fjármálaþjónustu - þar sem bankar og fjármálastofnanir eru of stór til falla - er líklega ekki að fara breytast, en þó er það svo að tæknin getur kippt stoðunum undan viðskiptum stórra fyrirtækja ef þau aðlagast ekki.
Nú þegar eru komnar fram lausnir sem hjálpa fólki að standa nær alveg utan hefðbundinna banka. Þó stærstu tæknifyrirtæki heimsins séu þegar farin að bjóða fjármálaþjónustu og greiðslukort, í samstarfi við stóra banka í Bandaríkjunum, þá sést glögglega að stutt er í að tæknifyrirtækin og minni sprotafyrirtæki bjóði fram góða og áreiðanlega þjónustu með miklu lægri tilkostnaði en bankar gera. Með tímanum munu bankar þurfa að breytast í sveigjanlegri fyrirtæki, sem erfitt verður að greina hvort séu tæknifyrirtæki eða bankar í hefðbundnum skilningi.
Ísland virðist vera órafjarri því, að hafa stigið nægilega stór skref til að aðlagast þessum breytingum, og þar beinast spjótin að stjórnvöldum og ríkissjóði. Íslenska ríkið á 80 prósent af fjármálakerfinu og framtíðarsýn til að takast á við þessa stöðu er því aðkallandi mál fyrir almenning.
Ísland er það lítið - með einungis rúmlega 200 þúsund manna vinnumarkað - að stór alþjóðleg fyrirtæki geta farið létt með að snúa markaðnum alveg á hvolf með ákvörðun um að stíga inn á markaðinn. Það sem helst mun valda því, að Ísland getur einangrast er að við notumst við íslensku krónuna og okkar eigið peningakerfi. Það passar illa inn í þá landamæralausu heimsmynd sem tæknin er að ýta undir. Stjórnmálin þurfa að takast á við þessa áskorun. Flest bendir til þess að heimsmyntum muni fækka og rafmyntir síðan bætast við. Spurningin er hvort það verði enn meira hamlandi fyrir Ísland að búa við okkar örmynt og heimatilbúna fjármálakerfi.
Umhverfismálin hafa margar hliðar
Hitt atriðið snýr að umhverfismálum og margháttuðum ákvörðunum sem tengjast baráttunni gegn mengun, sem síðan ýtir undir vistkerfisbreytingar. Ísland á mikið undir að tekist verði á við þessi mál af ábyrgð og líklega meira en flest önnur ríki, sé horft á málin hlutfallslega. Við byggjum okkar afkomu að miklu leyti á náttúrunni, hvort sem það er með sjávarútvegi, ferðaþjónustu, orkufrekum iðnaði og öðrum rekstri sem tengist þessum stoðum.
Nefna má sem dæmi að það er ekki augljóst, að það verði hægt að veðsetja aflaheimildir í framtíðinni, af umhverfisástæðum. Breytingar á vistkerfi hafsins eru þegar komnar fram og mikil veðsetning á heimildum til að veiða ákveðnar tegundir, mun ekki endilega samrýmast ábyrgum aðgerðum til að takast á við þær.
Í ljósi umfangsins á Íslandi - þar sem virði aflaheimilda er um 1.200 milljarðar, eða sem nemur um tvöföldu eigin fé bankakerfisins, miðað við nýjustu viðskipti með aflaheimildir - þá er ekki ólíklegt að það verði skoðað vel, hvernig megi draga úr áhættu með regluverki í fjármálakerfinu hvað þetta varðar. Þetta er ein hliðin á áskorunum í umhverfismálum.
Þessi atriði eiga það sameiginlegt, að óhjákvæmilegt er að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu til að takast á við þau.
Það skiptir sköpum fyrir Ísland - ekki síst til að skapa umhverfisvæn störf og virðisaukandi - að ýta frekar undir alþjóðageirann svonefnda. Þetta var dregið vel fram í vinnu sem ráðgjafafyrirtækið McKinsey ýtti úr vör, í samstarfi við forystufólk í atvinnulífi og stjórnmálum.
Hvernig sem á það er litið þá skiptir það miklu máli fyrir Ísland að við byggjum upp alþjóðageirann, þ.e. störf sem byggja á hugviti og tækni, þar sem útgangspunktur starfseminnar er alþjóðleg viðskipti og alþjóðleg samvinna. Í þeirri vinnu má ekki gera lítið úr hættunni á einangrun vegna séríslenskra lausna, t.d. í fjármálakerfinu.