Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að það sé ósmekklegt að kalla fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands opinbera peningaþvættisleið, eins og undirritaður hefur gert. Ráðherrann segir, í samtali við mbl.is, að það sé „ósmekklegt að segja að þetta hafi verið opinber peningaþvættisleið, eins og sérstaklega hafi verið hvatt til þess, en ég tek öllum ábendingum af alvöru ef að ekki hefur verið nægilega gætt að aðhaldi eða eftirliti, meðal annars um uppruna fjár.“
Fullt tilefni er til að útskýra ummælin betur í þessu ljósi, á sem einfaldastan hátt.
Atriði 1: Leið inn í landið með virðisaukningu
Fjárfestingaleiðin opnaði leið inn fyrir höftin fyrir þá sem áttu fjármuni utan þeirra. Í henni fólst að leiða saman óþolinmóða eigendur íslenskra krónueigna sem voru fastar innan hafta og þá sem áttu erlendan gjaldeyri sem langaði að skipta honum í íslenskar krónur. Hugmyndin var, í einföldu máli, að hinir óþolinmóðu myndu gefa eftir hluta af virði eigna sinna, en hinir fá fleiri krónur en almennt gengi sagði til um, með milligöngu Seðlabankans. Þetta átti að vera „win win og win.“ Og varð það sannarlega fyrir hluta þeirra sem nýttu sé leiðina.
Samtals komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðar eða 206 milljarðar króna. Meginþorri þeirra sem nýttu sér hana, 794 af 1.074 aðilum, voru Íslendingar, samkvæmt skriflegu svari til Alþingis frá sumrinu 2017. Alls fékk allur þessi hópur 31 milljarða króna virðisaukningu fyrir það að nýta sér leiðina. Af þeim fóru um ellefu milljarðar króna af virðisaukningunni til Íslendinga en um 20 milljarðar króna til erlendra aðila.
Íslendingarnir höfðu margir hverjir ferjað peninga út úr landinu fyrir hrun og komið þeim í var á aflandseyjum, þegar gengi krónunnar var ennþá sterkt. Krónan hrundi hins vegar eftir hrun og því gátu Íslendingarnir líka leyst út feikilega mikinn gengishagnað. Það er varla ósmekklegt að halda þessu fram, í ljósi þess að skýrsla sem Bjarni Benediktsson lét vinna og var birt í janúar 2017, sem skoðaði umfang aflandseigna Íslendinga og áætlaði hversu miklu eigendur slíkra eigna hefðu stungið undan skatti, komst að þeirri niðurstöðu að uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 nam einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 vegna þessa nam líklega um 56 milljörðum króna.
Í hópi þeirra sem fjölmiðlar hafa opinberað að hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina eru einstaklingar sem hafa verið til rannsóknar fyrir meint skattalagabrot, hafa verið ákærðir og dæmdir fyrir efnahagsglæpi og hafa verið gerðir upp af kröfuhöfum sínum án þess að mikið fengist upp í skuldir. Í mörgum tilfellum var um sömu aðila að ræða sem báru mikla ábyrgð á því að sigla íslensku efnahagslífi í strand árið 2008.
Atriði 2: Stórfelldar brotalamir í eftirliti
Til að fá að taka þátt í fjárfestingarleiðinni þurfti að uppfylla nokkur skilyrði. Á meðal þeirra var að það þurfti að fylgja með staðfesting þess að áreiðanleiki viðkomandi hefði verið kannaði samkvæmt lögum um peningaþvætti.
Í skýrslu Seðlabankans um fjárfestingaleiðina, sem hann skrifaði sjálfur, segir að „staðfestingin skyldi gerð af hálfu milligönguaðila eða annars aðila sem fullnægði kröfum laganna eða laut að mati Seðlabankans bæði sambærilegum kröfum og lögin gera og eftirliti sambærilegu því sem íslensk fjármálafyrirtæki lúta. Fjármálafyrirtæki báru því einnig þá skyldu að kanna fjárfesta, þ.e. viðskiptamenn sína, með tilliti til laga[...]um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og staðfesta áreiðanleika þeirra gagnvart Seðlabankanum. Eftirlit með því að fjármálafyrirtæki sinni skyldum sínum varðandi peningaþvættisathuganir er í höndum Fjármálaeftirlitsins.“
Þetta ferli fór í meginatriðum þannig fram að fjárfestir leitaði til íslensks banka og bað hann um að vera millilið í að færa peninganna sína í gegnum fjárfestingarleiðina. Hann undirritaði síðan peningaþvættisyfirlýsingu um að hann væri raunverulegur eigandi fjármunanna sem verið var að færa og staðfestingu á því að hann hefði ekki verið ákærður fyrir brot á lögum um gjaldeyrismál.
Vandamálið við þetta er að peningaþvættiseftirlit íslenskra banka, og stjórnvalda, hefur nánast ekkert verið árum saman. Það fékk falleinkunn hjá FATF í fyrra sem kröfðust þess að umfangsmiklar úrbætur yrðu gerðar, annars yrði Ísland sett á óæskilegan lista, við höfum nú ratað á. Fjármálaeftirlitið hefur frá þeim tíma framkvæmd athuganir á því hvernig fjármálafyrirtæki hafi staðið sig í vörnum gegn peningaþvætti og birt niðurstöðu úr einni athugun, á stöðu mála hjá Arion banka. Sú niðurstaða, sem lá fyrir í janúar síðastliðnum, var á þá leið að fjölmargar brotalamir væru á þeim vörnum hjá bankanum. Meðal annars hefði bankinn ekki metið með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina væru réttar og fullnægjandi. Eftirlitið hefur ekki viljað veita upplýsingar um hvað kannanir á öðrum fjármálafyrirtækjum hafa skilað.
Atriði 3: Lítil þekking og enginn að fylgjast með
Í nýbirtri áætlun íslenskra stjórnvalda um aðgerðir gegn peningaþvætti, sem birt var á vef embættis skattrannsóknarstjóra, kemur fram að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans skortir þekkingu á hættumerkjum og aðferðum við peningaþvætti. Engar lagalegar skyldur hafa hvílt á Seðlabankanum vegna aðgerða gegn peningaþvætti þrátt fyrir að hann haft umsjón með öllu gjaldeyriseftirliti og losun hafta á undanförnum árum þegar hundruð milljarða króna hafa verið flutt til og frá landinu. Þá hefur bankinn ekki getað miðlað þagnarskyldum upplýsingum í tengslum við gjaldeyriseftirlitið til þar til bærra aðila vegna skorts á lagaheimild. Seðlabankinn sendi enda engar tilkynningar til peningaþvættisskrifstofu, þar sem starfaði einn maður við mótttöku tilkynninga, vegna gruns um peningaþvætti vegna aðila sem nýttu sér fjárfestingaleið hans á meðan hún var opin á árunum 2012 til 2015. Enginn viðskiptabanki, sem á að þekkja viðskiptavin sinn, gerði það heldur.
Atriði 4: Þegar þú ert ekki að leita, þá finnur þú ekkert
Bjarni segir í frétt mbl.is í dag að honum sé ekki kunnugt um að einhver mál varðandi uppruna fjár sem fór í gegnum fjárfestingarleiðina hafi ratað í rannsókn. Það er rétt hjá honum og í því felst auðvitað vandinn. Það er ekki hægt að fullyrða að ekki sé til staðar stórtækt peningaþvætti þegar enginn er að fylgjast með og hvað þá að leita af því. Bjarni getur til dæmis rætt þessa stöðu við Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara, sem hefur sagt það opinberlega, þegar hann hefur verið spurður um hvort aðgerðir Íslendinga til að koma í veg fyrir að peningaþvætti hefðu verið viðunandi á undanförnum árum. „Þessu eru auðsvarað,“ sagði Ólafur í sjónvarpsþætti fyrir ári síðan, „nei það er það ekki.“
Það er augljós rökstuddur grunur um að peningar sem flæddu inn í landið í gegnum fjárfestingaleiðina hafi að hluta til verið fjármunir sem ekki höfðu verið greiddir réttir skattar af eða gerð grein fyrir í uppgjörum við kröfuhafa. Það liggur fyrir, samkvæmt skýrslu Seðlabankans sjálfs, að félög með aðsetur á lágskattasvæðum tóku þátt. Fólk geymir ekki peninganna sína á Tortóla nema að það sé að fela þá fyrir einhverjum.
Það að fá óáreittur að keyra slíkt fé í gegnum Seðlabankann og aftur í löglega vinnu, heilbrigðisvottaða í bak og fyrir, er ekkert frábrugðið því þegar fíkniefnasalinn fer með 100 þúsund krónur í spilakassa einungis til að taka þær aftur út og láta afgreiðslumanninn í Háspennu leggja hann inn á bankareikning. Lögmæti fæst á skítuga peninga.
Það er ekki ósmekklegt að benda á þetta, enda allt ofangreint grundvallað á staðreyndum, fyrirspurnum til þeirra sem áttu að sinna eftirliti en gerðu það ekki og opinberum skýrslum.
Til að eyða þessum vafa blasir við að ráðast þarf í opinbera rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Það þarf að gera það á grundvelli laga um rannsóknarnefndir Alþingis og opinbera þá sem fengu að nýta sér leiðina. Leið sem, að mati Seðlabankans sjálfs, gætti ekki jafnræðis, stuðlaði að neikvæðum áhrifum á eignaskiptingu, opnaði mögulega á peningaþvætti, og gerði „óæskilegum auðmönnum“ kleift að flytja hingað fé úr skattaskjólum. Og svo framvegis.
Það væri í raun ósmekklegt að gera það ekki.