Miðvikudaginn 9. október síðastliðinn var Umhverfisdagur atvinnulífsins haldinn hátíðlegur í Hörpu*. Ég horfði á dagskrána á netinu og á eftir leituðu á mig spurningar um tungumál og hamfarir.
1. Frúin í Hamborg
Fyrsti ræðumaður dagsins var Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Halldór vék máli sínu að súrnun hafsins en flýtti sér að skjóta inn „möguleg súrnun hafsins“, sem er „stærsta áskorunin sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir.“
Ég beið eftir að Halldór bætti við að súrnun sjávar – ekki möguleg eða ómöguleg súrnun sjávar heldur vísindalega sönnuð súrnun sjávar – væri líka ein stærsta „áskorunin“ sem lífríki jarðar stendur frammi fyrir. En sá vísdómur kom ekki.
Því Umhverfisdagur atvinnulífsins er glæný útgáfa af Frúnni í Hamborg. Ekki segja hamfarahlýnun, segðu áskoranir. Ekki segja súrnun sjávar, segðu möguleg súrnun sjávar. Ekki segja vandamál, segðu lausnir. Og í guðanna bænum, ekki segja bráðnun eða útrýming eða loftslagsflóttamenn, segðu bara: lausnir.
2. Strandaður kærleikur
Dramb er falli næst og næstur á svið var Heiðar Guðjónsson, formaður Efnahagsráðs norðurskautsins.
Heiðar fjallaði í erindi sínu um ástandið á norðurskauti og „hvers vegna er tilefni til bjartsýni.“ Hann talaði um „fullt af námumöguleikum“ og „strandaða orku“ sem við fáum upp í hendurnar þegar nýjar leiðir opnast á norðurskauti.
Talið er að á Grænlandi tapist 200 milljarðar tonna af ís árlega, sem er sexföldun í hraða frá árinu 1990 ( sjá: The Human Planet: How We Created the Anthropocene (2019) eftir Simon Lewis og Mark A. Maslin, bls. 219). En Heiðar minntist ekkert á þetta þegar hann talaði um „ástandið“ á norðurskauti. Ef mannkynið heldur áfram á sömu mengunarbraut er talið að sjávarmál geti hækkað um allt að 1,3 metra á þessari öld (Sama, bls. 221). 10 prósent mannkynsins búa á strandsvæðum sem yrðu fyrir hræðilegum afleiðingum hækkunar sjávarmáls. En Heiðar minntist heldur ekkert á þetta, hann minntist á strandaða orku.
Strönduð orka, þvílíkt hugtak! Með þessum tungumálafimleikum hefur Heiðar veitt mér sýn á allt hitt sem raunverulega getur strandað, til dæmis umhyggja og viska og framsýni – hvar í æðakerfi hjartans stranda þessar kenndir? Má ekki, með sömu fimleikum, halda því fram að við mennirnir séum ekkert meira en strandað kjöt fyrir orma?
3. Pappamál
Næst á svið var Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ríkisstjórnin hefur nú ráðið hana til að „annast samhæfingu loftslagsmála fyrir hönd ríkisstjórnarinnar“, hvorki meira né minna.
„Það eru ákveðnar hættur sem felast í röskun á loftslagi.“ Þannig hóf Unnur Brá ræðu sína. Ákveðnar hættur. Röskun á loftslagi.
Þá var Unni tíðrætt um breytingar og sagði orðrétt: „Það felast líka í þessu breytta andrúmslofti viðskiptatækifæri.“ En viðskiptatækifæri fyrir hverja? Íbúa Bangladesh sem losa 25 sinnum minna af koltvísýringi út í andrúmsloftið en Íslendingar en munu engu að síður upplifa mestu hamfarirnar, ég meina, mestu áskoranirnar?
Og meira um breytingar. Í starfi sínu sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar hefur Unnu Brá setið þing Sameinuðu Þjóðanna: „Síðast þegar ég mætti árið 2012 fékk ég plastflösku og glas. Núna fengu leiðtogar heims pappafernu, ekkert glas og allir drukku bara á stút. Það er allt að breytast."
Já, það er allt að breytast, með öðrum orðum: Jöklar bráðna, kóralrif fölna, tegundir útrýmast. Og á meðan drekka sumir á stút. Úr pappamálum. Og þá fer ég að hugsa um þetta orð pappamál, væri það kannski rétta heitið á það tungumálið sem hér er talað?
Unnur Brá vék einnig að súrnun sjávar sem hún sagði ekki vera „eitthvað sem reddast bara. Það er þróun sem við eigum að hafa smá áhyggjur af.“
Smá áhyggjur. Drekka af stút. Áskoranir.
Pappamál.
4. Hér kemur skelfingin
Síðastur á svið var Brynjólfur Stefánsson, sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum, en hann kallaði erindi sitt einmitt „Tækifæri og áskoranir vegna loftslagsbreytinga“. Ég skal gefa Brynjólfi að hann komst næst því að brjóta reglurnar í Frúnni í Hamborg. Á einum tímapunkti sagði hann meira segja „Hérna kemur skelfingin“ og varpaði á tjaldið glæru með alls konar orðum á. En Brynjólfur las ekki upp af glærunni. Hún fékk bara að lifa í kyrrþey í átta sekúndur, svo hélt hann áfram.
En þarna voru þau samt, öll bannorðin í leiknum: óstöðugleiki í stjórnmálum, flóð og aurskriður, skógareldar, þurrkar, veðurskemmdir, súrnun sjávar, skemmdir innviða, loftslagsflóttamenn, útrýming tegunda, bráðnun jökla, hungursneyð, vatnsskortur, breyting á lífsháttum, smitsjúkdómar, hækkun á yfirborði sjávar, breytingar hjá flökkustofnum.
Átta sekúndur af skelfingu. Í algjörri þögn.
En hvað með merkjasendingar náttúrunnar? Hvað með merkjasendingar jökla og skordýra? Já, og hvað með merkjasendingar vísindamanna?
5. Staðdeyfing
Að lokum steig forseti Íslands á svið og veitti verðlaun. Svo var klappað og mér varð hugsað til orða danska heimspekingsins Sören Kirkegaard:
„Svo bar við í leikhúsi að það kviknaði í tjöldunum. Þá kom loddari og sagði áhorfendum frá því. Þeir héldu að það væri spaug og klöppuðu. Hann sagði það aftur, og fólk klappaði enn þá meira. Þannig held ég að heimurinn muni farast, við almenn fagnaðarlæti gamansamra manna sem halda að það sé spaug.“
Tungumálið er undir stöðugum árásum. Það er togað í orð, þeim er snúið á hvolf og í hring og eftir að hafa hlustað á ræðumenn á Umhverfisdegi atvinnulífsins fann ég fyrir doða. Eins og einhver hefði stungið sprautu inn í eyrað á mér og staðdeyft dularfullt svæði í heilanum.
Því segi ég: Hristum af okkur doðann. Verum vakandi. Leyfum engum að staðdeyfa orðræðuna um hamfarahlýnun með máttlausu pappamáli.
Það er von mín að þau samtök sem stóðu að Umhverfisdegi atvinnulífsins spýti í lófana, hætti að tala í viðtengingarhætti um vísindi og brjóti af sér hlekki frúarinnar í Hamborg.
Þá fyrst finnum við kjarkinn sem hefur strandað en er nauðsynlegur til að horfast í augu við skelfinguna.
*(Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Dagskráin er aðgengileg á Facebooksíðu Samtaka atvinnulífsins.)