Eiríkur Ragnarsson(Eikonomics) skrifaði grein á vef Kjarnans nýlega þar sem hann ræðir nýtt frumvarp Þórdísar Kolbrúnar og blandar Mjólkursamsölunni inn í það mál sem dæmi. Margt er hægt að segja um greinina sem er hlaðin rangfærslum, en stiklum á stóru.
Uppúr 1990 var farið var í sameiningar í mjólkuriðnaði á vegum ríkisins eftir að kostnaður jókst við framleiðslu meðan verð til bænda lækkaði. Þá voru starfandi tæplega 20 afurðastöðvar sem sameinuðust næstu 20 árin. Sú vegferð hefur skilað hagræðingu og ábata fyrir neytendur og bændur. Í dag eru um sex aðilar í mjólkuriðnaði að Mjólkursamsölunni meðtalinni, með starfsleyfi frá Matvælastofnun (MAST). Sum þessara fyrirtækja hafa sérhæft sig í lífrænum eða laktósalausum vörum eða eiga í samstarfi við Mjólkursamsöluna um markaðsmál en einnig kúabændur sjálfir sem bjóða uppá mjólkurvörur beint frá býli. Auðhumla, samvinnufélag bænda sér um sölu á hrámjólk ólíkt því sem Eiríkur hélt fram og selur öllum framleiðendum, Mjólkursamsölunni og öðrum á sama verði.
Þau fyrirtæki hafa heimild samkvæmt búvörulögum til þess að hafa með sér samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða en eru annars ekki undanþegin samkeppnislögum öfugt við það sem Eiríkur hélt fram.
Samkeppniseftirlitið stefndi þá málinu fyrir dómsstóla. Á þeim tíma hafði fyrirkomulagi á sölu á hrámjólk til allra aðila í mjólkuriðnaði verið komið í það horf sem nú er, svo það er rangt hjá Eiríki að þessi málshöfðun hafi verið nauðsynlegt til að hafa áhrif á fyrirkomulag á mjólkurmarkaði. Þessa heimild til að fara í mál vegna niðurstöðu æðra stjórnvalds hefur Samkeppniseftirlitið haft frá 2011 og lögfræðingar hafa talið hana óeðlilega og meðal annars sagt að „...Látið er undan embættismönnum sem vilja fá í hendur heimildir til að beita borgara ofríki, þó að æðra stjórnvald hafi komist að niðurstöðu um að of langt hafi verið seilst." og að „Þetta er ekki ósvipað því að embættismaður í ráðuneyti fengi heimild til að bera undir dóm þær ákvarðanir ráðherra sem honum líkar ekki.“
Samtök atvinnulífsins hafa fært sterk rök fyrir skoðun sinni um að afnema beri þessa heimild meðal annars að ákvæðið sé skaðlegt atvinnulífinu þar sem það lengir málarekstur, eykur óvissu í rekstri fyrirtækja og kostnað. Samtök atvinnulífsins lögðu til strax árið 2012 að ákvæðið yrði fellt úr gildi, þannig að málefnaleg umræða um þessi mál er greinilega ótengd málinu gegn Mjólkursamsölunni eða öðrum einstökum málum. Það er almenn meginregla stjórnsýslunnar að lægra sett stjórnvald (Samkeppniseftirlitið) sé bundið af úrlausn æðra setts stjórnvalds (áfrýjunarnefndar).
Það er fullkomlega rangt hjá Eiríki að Mjólkursamsalan megi gera eitthvað sem aðrir mega ekki. Búvörulög eiga við um afurðastöðvar í mjólkuriðnaði og því allir við sama borð til þess að hafa með sér samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Öll heyra fyrirtækin einnig undir samkeppnislög. Til eru um 30 tilvik í íslensku lagasafni þar sem finna má undanþágur frá almennri reglu samkeppnislaga fyrir utan þá heimild sem mjólkuriðnaðinum hefur verið veitt. Þessi tilvik eru margvísleg en miða öll að hlutum sem við viljum samnýta í okkar fámenna og dreifbýla landi.
Ef frumvarpsdrögin um breytingar á samkeppnislögum eru lesin á samráðsgáttinni má sjá að Samkeppniseftirlitið mun áfram hafa völd til þess að taka á málum. Það á auðvitað að vera skilvirkt samkeppniseftirlit á Íslandi. Í frumvarpsdrögunum má einnig lesa að ætlun ráðherra er að setja neytendur framar í röðina hjá Samkeppniseftirlitinu og stuðla að því að samkeppniseftirlit sé skilvirkara en nú er.
Höfundur er samskiptastjóri Mjólkursamsölunnar.