Nýlega var kynnt nýsköpunarstefna fyrir Ísland. Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull, leiddi vinnu stýrihóps Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra nýsköpunarmála, sem skilaði af sér skýrslu um málefnin.
Ólíkt mörgum öðrum skýrslum á vegum hins opinbera þá finnst mér þessi skýrsla vera afar aðgengileg og rammar vel inn hlutverk nýsköpunar í samfélaginu. Hún boðar ekki sértækar lausnir en teiknar upp áskoranirnar sem Ísland stendur frammi fyrir.
Fyrir vikið fá stjórnmálamenn og atvinnulífið gott aðhald, því spurningin; Og hvað svo? Kemur óneitanlega upp í hugann. Stjórnmálmenn, fjárfestar, menntakerfið og leiðtogar í atvinnulífinu eiga næsta leik. Það er þeirra að láta verkin tala og gera Ísland að einstakri fyrirmynd.
Sterkir samfélagslegir innviðir á Íslandi, í samanburði við mörg önnur lönd, gefa gott færi á því að ýta undir þátt nýsköpunar í samfélaginu. Guðmundur hefur sjálfur lýst því í erindum um frumkvöðlastarfsemi, að Íslandi eigi að vera tilraunaland fyrir tækninýjungar fyrir umheiminn. Það má til sanns vegar fær, og raunar mörg dæmi um það til nú þegar þar sem Ísland hefur verið í því hlutverki. Marel og Össur eru líklega augljós dæmi.
Í skýslunni eru sett fram 10 nýsköpunarboðorð fyrir Ísland sem kölluð eru leiðarljós í skýrslunni.
Þau eru eftirfarandi.
1. Hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta nýsköpunar
2. Nýsköpun er samofin menningu, samfélagi og efnahagslífi og þrífst meðal einstaklinga, mismunandi skipulagsheilda og í fjölbreyttu umhverfi
3. Þykjumst ekki vita það sem ekki er hægt að vita
4. Ósigrar eru óhjákvæmilegir en uppgjöf er óásættanleg
5. Engar lausnir eru endanlegar
6. Nýsköpun er ekki línulegt ferli
7. Nýsköpun er forsenda lífsgæða í fortíð, nútíð og framtíð
8. Fjármagn til rannsókna og frumkvöðla frekar en í umsýslu og yfirbyggingu
9. Áhersla á árangur frekar en útgjöld og fyrirhöfn
10. Þegar við horfum út í heim þá horfir heimurinn til okkar
Vonandi ná þessi boðorð að festa sig í sessi sem stefnumál, því í þeim felst góð leiðsögn þegar kemur að útfærslu á sértækum aðgerðum.
Vafalítið bíða margir spenntir eftir sértækum aðgerðum stjórnmálamanna, en hér að neðan verða nefndar þrjár hugmyndir sem gætu ýtt undir að Ísland verði tilraunaland fyrir tækninýjungar, suðupottur nýsköpunar, í framtíðinni.
1. Skattalegar ívilnanir fyrir frumkvöðla er alþjóðlegt samkeppnisatriði og óhjákvæmilegt er fyrir Ísland að velta fyrir sér hvort við séum að gera nóg í þessum efnum.
Til dæmis er undarlegt að hugsa til þess að ný fyrirtæki - og frumkvöðlastarf almennt - þurfi að taka þátt í fjármögnun atvinnuleysistryggingasjóðs strax frá byrjun starfseminnar með greiðslu tryggingargjalds og opinberra gjalda.
Rannsóknir hafa margstaðfest það að frumkvöðlastarf er verulega áhættusamt, og algengt að rannsóknir leiði fram að 1 til 5 prósent fyrirtækja sem hefji starfsemi gangi upp á endanum. Oft er það upphafstíminn sem er áhættumestur, þegar fyrirtæki og frumkvöðlar eru að snúa hugmyndunum upp í fyrirtæki og starfsemi, og fá til sín fólk.
Það ætti að koma til greina að lækka þetta gjald verulega fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi, jafnvel afnema það. Það auðveldar aðgengi að fjármagni, þar sem áhætta fjárfesta minnkar og uppbyggingarferlið verður ódýrara. Það er vel hægt að útfæra þetta þannig að þetta nái til nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi eingöngu.
2. Annað atriðið snýr að skipulagsmálum, svo undarlega sem það kann að hljóma fyrir einhverjum. Það sem kemur fólki yfirleitt mest á óvart, þegar rætt er við útlendinga um Ísland, er hvað landið er fámennt. Margir trúa því hreinlega ekki hversu fá við erum.
Við erum einungis 360 þúsund og höfuðborgarsvæðið er á mörkum þess að teljast borg, í alþjóðlegum samanburði, með sína 200 þúsund íbúa.
Þess vegna skiptir svo miklu máli að gera mikið úr því litla sem við höfum. Uppbygging í Vatnsmýrinni, þar sem er flugvöllur núna, er augljóst dauðafæri til að byggja upp mann- og atvinnulíf á svæði milli stærstu háskóla landsins, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Uppbyggingin í jaðri flugvallarins hefur verið mögnuð, en það ætti að ýta undir að flýta þessari uppbyggingu. Auðvelt er að sjá það fyrir sér, að á þessu svæði geti verið kjörlendi - góðar aðstæður - til að efla háskólasamfélagið á Íslandi, og um leið styrkja eina borgarsvæðið sem við höfum. Borgir eru sífellt að skipta meira máli í heiminum og ekki ætti að vanmeta þann þátt, þó Ísland sé lítið og fámennt.
Það að ná sátt um að skipuleggja uppbyggingu á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýri, með nýsköpunarstarf að leiðarljósi, ætti að vera gott framlag til þess efla nýsköpun. Því fyrr sem þetta gerist, því betra.
3. Þriðja atriðið snýr að stórauknum fjárframlögum - bæði hjá hinu opinbera og einkafyrirtækjum - þegar kemur að sölu- og markaðsstarfi. Rauður þráður í reynslusögum þeirra frumkvöðla sem hafa nóð góðum árangri - jafnvel eftir erfiða fæðingu og langan uppbyggingartíma - er að við Íslendingar búum yfir afar takmarkaðri þekkingu á sölu- og markaðsstarfi. Vissulega eru á þessu mikilvægar undantekningar, en heilt yfir þá er sölu- og markaðsstarf, t.d. í hugbúnaðargeira og ýmsu öðru, eitthvað sem erfiðlega hefur gengið að byggja upp á Íslandi.
Það er ekki óeðlilegt, enda erfitt að vera langt frá helstu mörkuðum. Með auknum tækniframförum á ýmsum sviðum verður þetta atriði eflaust enn mikilvægara. Þetta á t.d. við um nýsköpunarstarf í matvælaframleiðslu og fleiru. Með því að stórauka slagkraft í sölu á markaðsstarfi - annað hvort með ívilnunum eða auknum fjárframlögum - þá er hægt að ýta betur undir að fyrirtæki ná árangri.
Það gleymist stundum í umræðu um nýsköpun á Íslandi, að hún er ekkert sérstaklega lífleg í alþjóðlegum samanburði. Ef það má gagnrýna helstu leiðtoga okkar í nýsköpunarstarfi fyrir eitthvað, þá er það helst að það vantar stundum gagnrýna hugsun ekki síst í garð stjórnmálamanna. Það er talað mikið um mikinn kraft í frumkvöðlum, en mætti huga meira að því hvernig mætti gera hann enn meiri.
Núna er staðan þannig, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, að störfum í tækni- og hugbúnaðargeira, hefur verið að fækka um mörg hundruð milli ára. Á miklu hagvaxtarskeiði frá 2012 til 2018 þá fjölgaði störfum um rúmlega 20 þúsund, en margt bendir til þess að mikill meirihluti starfanna hafi verið ekki vel launuð störf sem unnin voru af fólki sem kom til landsins frá Austur-Evrópu - mest karlar - og lagði vissulega gott til með því. En hvað er góður hagvöxtur og hvað er slæmur hagvöxtur fyrir þjóðríki? Hver er stefnan þegar kemur að þróun mannauðsins í landinu? Hvernig störf viljum við búa til?
Upp í hugann kemur tíunda nýsköpunarboðorðið: Þegar við horfum út í heim þá horfir heimurinn til okkar.
Til að Ísland geti orðið að tilraunalandi fyrir tækninýjungar - að nýsköpunarsamfélagi sem við viljum að byggist upp - þá þarf að takast á við erfiðu spurningarnar um hvers vegna hagkerfið þróast eins og það þróast. Hvernig verður Ísland hluti af alþjóðlegu markaðssvæði, með dýpri rætur? Eru íslenskar sérlausnir í peningamálum skynsamlegar eða ekki?
Þetta eru spurningar sem þarf að svara. En áður en það er gert, þá ætti að stórauka framlög til sölu- og markaðsstarfs erlendis. Með tímanum myndi það kannski færa rökræðu um sérlausnir í peningamálum nær stjórnmálamönnum. Þeir virðast stundum hafa það of gott, og ekki þekkja frumkvöðlastarfið af reynslu.
Eftirfylgni
Þórdís Kolbrún ber það með sér að vera afburða stjórnmálamaður og stefnumörkun í nýsköpunarmálum fyrir Ísland er líklega hennar stærsta mál. Vonandi fylgir hún því vel eftir með félögum sínum í stjórnmálastéttinni.