Það er athyglisvert að lesa um málefnin varðandi það að vera þolandi kynferðislegrar misnotkunar, og svo virðist sem þau atriði séu of oft séð sem annaðhvort svört eða hvít.
En kynferðisleg – sem og önnur – mismeðferð á fólki hefur mun fleiri hliðar en þær sem ég hef séð í fjölmiðlum.
Ég hitti Þórdísi Elvu hér í Adelaide þegar hún og vinur hennar komu hingað til að vera með í rithöfundaviku til að segja sögu sína um að vinna sig frá tilfinningunum í kringum nauðgun.
Það er í raun ekki hægt að nota hugtakið að „markaðssetja“ um reynslu eins og Þórdísar Elvu. Hver og ein reynsla er einstök. En dæmi og saga Þórdísar er kennslubókardæmi um leið til að vinna úr slíkri reynslu. Það er ef og þegar kringumstæður eru til staðar til að vinna málið og atvikið á þann hátt.
Ég hlustaði á þau bæði tala hér í Adelaide og keypti svo og las bókina hennar um það atvik. Sú saga lýsir mjög djúpu innsæi þeirra beggja gagnvart sjálfum sér, og þau sýndu bæði mikla einlægni og heiðarleika gagnvart sér og hinum aðilanum í því ferli.
Það tók sinn tíma fyrir þau og var það sem á ensku er kallað „organic“ ferli og togaði og teygði á ýmsu í þeim sem þau unnu það stig af stigi, tilfinningu fyrir tilfinningu sem þolandi og gerandi. En það var ekki ein af þeim skyndiafgreiðslum sem væru þá ekki raunveruleg vinnsla á öllum tilfinningum og hugsunum sem hefðu verið í gangi við misnotkunina og eftir hana. Fyrir þá sem þekkja eingöngu stuttar rökafgreiðslur í huganum er trúlega erfitt að melta ferlið sem þau létu sig ganga í gegnum. Það var langtíma afvindun sem þá leysir orku og sár reynslunnar í smá skömmtum og áföngum. Það gerðist ekki á einum degi heldur tók ansi marga daga. Þau sýndu mikinn þroska í þeirri vinnslu sinni sem er þeirra eðli, en ekki endilega allra annarra sem lenda í svipaðri reynslu.
Fólkið sem hlustaði á þau hér í Adelaide upplifuðu nýja aðferð til að vinna með slíka reynslu. Sem var alls ekki um að markaðssetja slíkt. Sú vinnsla er bara einn af möguleikum í vissum kringumstæðum þegar ósamþykktar samfarir hafa orðið og einstaklingar geta átt í tjáskiptum.
Það atvik og sú saga er ekki sú sama og það sem stelpur upplifa sem ráðist er hratt og skyndilega á af ókunnugum mönnum í almenningsgörðum, eða hvar sem er nauðgað, bundið fyrir munninn á þeim og svo framvegis og svo eru sumar myrtar og fá þá ekkert tækifæri til að vinna í málinu og kæra glæpamanninn.
Dæmi Þórdísar er meira í líkingu við það þegar Nelson Mandela og Desmond Tutu létu fangana hitta og horfast í augu við fórnarlömb sín sem voru annaðhvort þeir einstaklingar sem þeir höfðu sært eða ættingjar þeirra sem viðkomandi hafði drepið og það var löng seta því að fangarnir urðu að vera algerlega í núinu með þeim sem meinið var gert og hlusta og vitna höggið og sárið og sjokkið og reiðina og allar þær tilfinningar sem fylgja slíkum atburðum, og þeir að sýna samhygð sína til þeirra sem þeir höfðu gert þann glæp. Eftir það áttu þeir að tjá sig um það af hverju þeir gerðu það sem þeir gerðu.
Það var hægt að láta fangana hitta þá sem þeir höfðu gert mein sem var auðvitað af því að Nelson Mandela og Desmond Tutu höfðu þá visku og þroska sem þurfti til að halda dæminu í jafnvægi og rólegheitum. Og Þórdís og sá sem nauðgaði henni voru fær um að eiga þau tjáskipti sem gerði þessa vinnu mögulega.
Svo er það dæmið með Atla og það er aðeins annað og hefði leikhússtjórinn gert betur með að fá sálfræðing eða fagmann með sér til þess að allir aðilar sem hann var ásakaður um að áreita gætu fengið bestu úrlausn.
Með konur að vera augliti til auglits við menn eins og til dæmis Harvey Weinstein, Bill Cosby eða menn í herum sem hafa stundað fjöldanauðganir, er ekki hægt að lá þeim að velja að sleppa að vera í sama herbergi og slíka einstaklinga, af því að það væri fyrir þeir eins og að vera misnotaðar aftur. Dæmi um þetta er þegar kona talaði um erfiðleika við að sjá Harvey á einhverri samkomu í fjölmiðlum fyrir einhverjum vikum síðan.
Og ef kona hefur orðið fyrir kynferðislegri misnotkun sem barn, og man ekki eftir því þá er það að hitta nauðgara, ekki bara upprifjun á síðustu reynslu, heldur getur sjokkerað þær af því að svo mikið af bældum tilfinningum sitja í líkamanum sem koma upp og geta borið þær ofurliði.
Í þáttum Oprah Winfrey um árið var ráðlegging til fórnarlamba að forðast að vera í samskiptum við þá sem höfðu misnotað þau. Það er samt því miður oft erfitt þegar og ef um foreldra er að ræða sem hafa misnotað börn sín, og eru kannski í algerri afneitun á að hafa gert neitt rangt.
Aðalatriðið er auðvitað að þolandi fái áheyrn og viðurkenningu á reynslu sinni. Hvort að það sé best að öll nöfn komi fyrir alþjóð er auðvitað matsatriði, en ef allir í dæminu geta komið saman og tjáð sig með milligönguaðila gæti það verið nóg og betra í sumum tilfellum.
Þetta með að karlar geti varið sig, hefur svo stundum nokkrar hliðar. Eins og til dæmis ef hann hefur túlkað útlit og svip konu sem já, án þess að fá það staðfest í orðum.
Allar mannverur eru flóknar en karlhugir varðandi kynmök eru allavega stundum allt annarskonar en kvenna þegar kemur að þeim og, við sjáum dæmi um með menn eins og Donald Trump sem telur sig eiga sjálfvirkan aðgang að hvaða konulegi sem honum hentar, og er hann ekki einn um þá upplifun af að sjá sig eiga rétt á mótþróalausum aðgangi.
Fyrir þá sem hafa ekki unnið slíka langtímatilfinningavinnu eiga auðvitað erfitt með að melta hvað Þórdís og vinur hennar unnu, eða hvernig það er upplifað.
Gamla fyrirgefningarformúlan er ógild fyrir slíka reynslu og mest af upplifun af misnotkun vegna þess að hún var öll um að sópa atvikinu undir teppin eða gleypa eða kyngja og láta svo sem ekkert væri. Sem þá var engin krafa um bætta hegðun af hinum aðilanum. Slíkt virkar ekki í veruleikanum. Bók Hollensks manns „The Body Keeps the Score“ eftir Bessel Van Der Kolk talar um slíka hluti.
Við getum hinsvegar auðveldlega fyrirgefið ótal smá atvik eins og ef einhver snertir okkur óvart í verslunarmiðstöð og biður fyrirgefningar, segir „sorry“ sem er auðvelt fyrir slík smáatriði.
En þeim mun dýpra sem atvikið er og snertir einstaklinginn djúpt hið innra og ef hann upplifðir sig svikinn af þeim sem var ætlað að elska þá, þá er oft heilmikil ferð að vinna það til árangurs og raunverulegrar betri líðunar.
Til að afgreiða slík mál þarf djúpan skilning á tilfinningum fólks í hvaða kringumstæðum sem er sem eru í vinnslu. Og þá þarf að hafa sálfræðinga með til að leiða og styðja þolendur í gegnum ferlið sem þarf til að að vinna lagalegu hliðina á þeim málum.
Það er svo sorglegt hvað margar konur hafa látið hjá líða að leita réttar síns af því að þær hafa upplifað ruddaskap og tilfinningaleysi lögreglu og lögfræðinga en það hefur gerst víðast í heiminum. Þá komast mennirnir upp með glæpinn eins og ekkert hafi gerst og geta kannski margendurtekið slíka glæpi í trausti þess að lagaveldið sé enn meira í liði með karlkyni en konum. Þannig hefur það verið um aldir, en vonandi á það eftir að enda.