Í frábærri bók Andrew Ross Sorkin, blaðamanns New York Times og ritstjóra Dealbook hluta vefs blaðsins, Too Big To Fail, fjallar Sorkin um það tímabil þegar stóru bankarnir á Wall Street riðuðu til falls, á árunum 2007 til 2009.
Mikið hefur verið skrifað um þessa atburði, en bók Sorkin er líklega sú sem er áhrifamest, enda var hún afhjúpandi á þeim tíma sem hún kom út og lýsti upp vandamálin af mikilli fagmennsku og hæfileikum til að miðla sögunni. Í henni komu fram upplýsingar úr innsta hring.
Ríkisábyrgð á mistökum einkafjárfesta
Sorkin á einnig heiðurinn af því að hafa sett vandamálið - Of stór til að mistakast - á dagskrá í bandarísku efnahagslífi og í heiminum öllum. Greinaskrif hans á árunum 2005 til 2008 voru sérlega skörp og viðvarandi, en í fyrstu var lítt hlustað. Það átti eftir að breytast. Sjónvarpsmyndin sem gerð var um bókina, og kom út 2011, er vönduð og gerir umfjöllunarefninu góð skil.
Bókin er tíu ára um þessar mundir og áhugavert er að velta fyrir sér hvort það sé búið að takast á við þetta vandamál á Íslandi jafnt sem annars staðar, sem er að fyrirtæki með kerfislægt mikilvægi megi einfaldlega ekki falla og því muni hið opinbera alltaf tryggja stöðu þeirra.
Staðan enn fyrir hendi
Stutta svarið er að bankar eru enn of stórir til að falla, og hafa stækkað mikið á undanförnum áratug. Vandamálið hefur ekki horfið, þvert á móti. Seðlabankar heimsins hafa þanið út efnahagsreikninga sína, til að berjast á móti vandamálunum sem fjármálakreppan - að miklu leyti tilbúin af bönkunum á Wall Street og víðar um heim - leiddi yfir alþjóðavæddan heim viðskipta.
Ray Dalio, fjárfestingastjóri Bridgewater Associates, eins stærsta fjárfestingasjóðs heims sem er með 160 milljarða Bandaríkjadala í stýringu, skrifaði grein á Linkedin síðu sína 5. nóvember síðastliðinn, þar sem hann fullyrðir að „brjálæði“ ríki í heiminum og að kerfið sem við búum við á fjármálamarkaði sé meingallað (The World Has Gone Mad And The System Is Broken).
Hann segir að sú stefna seðlabanka að dæla ókeypis fjármunum út á fjármálamarkaði ýti undir ójöfnuð, þar sem aðgengi að fjármunum sé algjörlega ójafnt, og að þessi stefna sé ósjálfbær til lengdar. Vandamálin magnist upp, og að stefna seðlabanka geti ekki gengið upp.
Hann segir mikla bjögun einkenna verðbréfamarkaði þar sem alltof auðvelt aðgengi að fjármagni ýti undir kæruleysi, og fjárfestar þurfi ekki að gera kröfu um hagnað eða skynsaman rekstur. Hann segir kapítalismann - eins og hann hefur verið keyrður áfram af seðlabönkum og fjármálamörkuðum - einfaldlega ekki vera að virka fyrir venjulegt fólk, heldur aðeins þá sem tilheyra þeim forréttindahópi að fá ókeypis fjármagn auðveldlega. Ósjálfbærni er það sem einkennir stöðu mála og þannig getur það ekki verið, segir Dalio.
Hann telur að þessi vandamál hafi öll magnast upp á undanförnum áratug, og að ríkisstjórnir og seðlabankar séu að forðast það að takast á við stöðuna.
Flugfélögin of stór til að falla?
Þetta hugtak, sem Sorkin gerði lifandi og ljóst í bók sinni, um að fyrirtæki geti verið of stór til að þau geti fallið, er nú aftur komið upp í umræðunni á Íslandi. Að þessu sinni í tengslum við flugrekstur. Því hefur verið velt upp, hvort íslenska ríkið hafi mögulega átt að bjarga WOW air með fjárframlagi til að koma í veg fyrir slæm efnahagsleg áhrif af falli þess.
Hvernig sem á það einstaka tilvik er litið, þá er augljóst mál að loftbrúin milli Íslands og umheimsins er með kerfislægt mikilvægi fyrir Íslandi. Til dæmis myndi það hafa gríðarleg áhrif á Íslandi ef Icelandair lenti í miklum vanda, og eðlilegt að sú spurning vakni hvort að ríkið myndi tryggja stöðu fyrirtækisins ef það lenti í kröggum. Til einföldunar: Íslenska loftbrúin byggir 99 prósent á því að ferðamenn komi í gegnum Keflavíkurflugvöll og byrji síðan að eyða peningum á Íslandi.
Þeir skilja eftir um 600 milljarða á ári og leggja þannig grunninn að ferðaþjónustunni, sem mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Það er ekki óeðlilegt að hugsa um stöðu mála þannig, að ríkið þurfti að tryggja skilvirkni þessarar starfsemi, ef hún lendir í vandræðum. Ríkið á Keflavíkurflugvöll en spurningin er hvort það þurfi að vera ríkisábyrgð á einhverri lágmarks virkni flugbrúarinnar, svipað og þarf að vera fyrir hendi þegar kemur að fjármálakerfinu. Líklega eru ekki mörg dæmi í heiminum um svo mikið kerfislægt mikilvægi loftbrúar fyrir þjóðríki eins og á Íslandi. Það er helst að einstaka svæði komi upp hugann, eins og portúgalski eyjaklasinn Madeira og Havaí í Kyrrahafinu, en bæði svæðin eru alveg háð ferðaþjónustu eins og Ísland.
Enginn þarf að efast
Bankarnir þrír sem eru skilgreindir með kerfislægt mikilvægi, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankainn, eru allir of stórir til að falla fyrir hagkerfið, en segja má að ríkisábyrgðin að baki bankakerfinu sé óvenjulega skýr á Íslandi í samanburði við flestar aðrar þjóðir.
Ríkið á 80 prósent af bankakerfinu, með eignarhaldi sínu á Íslandsbanka, Landsbankanum og Íbúðalánasjóði, og ábyrgðin er því bæði bein og óbein. Arion banki er í eigu einkafjárfesta, en ljóst má vera að ef hann lendir í miklum hremmingum, þá mun íslenska ríkið alltaf þurfa að láta sig málið varða, með Seðlabankann í hlutverki þrautavaralánveitanda í krónum.
Það er líka áhugavert fyrir fjárfesta að sjá mismunandi stefnu bankanna, þegar kemur að rekstri þeirra. Arion banki hefur verið mun verr rekinn en Íslandsbanki og Landsbankinn, á flesta mælikvarða, en hefur skýra sýn á það, að losa eins hratt um fjármagn og mögulegt er og greiða út til hluthafa. Spurningin sem vaknar er, hvort þessi mikli munur á stefnu kerfislægt mikilvægra banka á litla Íslandi sé æskilegur eða ekki. Er þetta til þess fallið að auka trúverðugleika íslenska bankakerfisins?
Enn of stór til að falla
Fjármálakerfi í heiminum byggja á þessum siðferðisbresti og fölsku ríkisábyrgð, þar sem kerfislægt mikilvægi einstaka fyrirtækja setur vandamál þeirra ávallt í fang skattgreiðenda. Merkilegt er að hugsa til þess að á Íslandi er þessi staða ljóslifandi, og teygir sig inn í flugfélög og eftir atvikum aðra starfsemi, vegna þess hvað Ísland er lítið og berskjaldað fyrir vandamálum. Þetta er áhættusamt fyrir Ísland til framtíðar litið í heimi þar sem landamæri eru sífellt að skipta minna máli og vægi minni gjaldmiðla verður minna með hverjum deginum, en um það verður fjallað í framhaldsgrein.