Undanfarin ár hefur verið mikil umræða um femínisma á Íslandi og hinum vestræna heimi. Þessari umræðu hafa fylgt nokkur átök enda alltaf erfitt fyrir ráðandi öfl að láta völd sín af hendi. Það er líka erfitt að átta sig á og viðurkenna að eitthvað sem „er“ og hefur „alltaf verið“ er í raun gróft misrétti. Hvernig eiga kynin nú að draga sig saman eftir #metoo byltinguna!
Eitt af því sem hefur verið rætt er hin undarlega krafa sumra karlmanna að ókunnugar konur brosi, þær eru nefnilega svo miklu sætari þegar þær brosa. (Sjá t.d. It’s Important For Men to Understand That They Need To Stop Telling Women to Smile og The Sexism of Telling Women to Smile: Your Stories.)
Bros er eitthvað fallegt og einlægt, eitthvað sem sýnir að viðkomandi líði vel. Það líta allir vel út þegar þeim líður vel. Samt er það svo undarlegt að körlum er mjög sjaldan sagt af ókunnugum að brosa.
Þekktur femínisti lenti í því á dögunum að sitja á kaffihúsi og vinna í fyrirlestri.
Femínistinn segir frá því á facebook og frábiður sér fjölmiðlaumfjöllun, að eldri maður hafi „vappað" í kringum hana og svo undið sér að henni og sagt henni að brosa meira því hún væri svo miklu sætari þannig. Femminn ferlegi brosti smá og sendi karlinum svo fingurinn.
Sumir eru alveg bit, kjaftstopp og hlessa. Ekki vegna dónaskaparins í manninum að trufla konuna þar sem hún er niðursokkin í vinnu sína. Ekki vegna þeirrar kröfu hans að hún eigi að brosa burtséð frá líðan sinni. Að hún eigi að sitja með frosið bros, ein yfir kaffibollanum sínum, svo umhverfi hans sé huggulegra. Nei, fólk er alveg bit vegna þess að hún sendi þessum uppáþrengjandi, ókurteisa og tilætlunarsama manni fingurinn.
Af því þetta er svo einfalt og svo undarlegt að femínasistarnir skuli ekki skilja þetta:
Tími kvenna skiptir ekki máli.
Vinna kvenna skiptir ekki máli.
Líðan kvenna skiptir ekki máli.
Facebook hefur verið vinsæll samskiptamiðill í 15 ár og flest vitum við hvernig hann virkar. Sjálf veljum við þá „vini“ sem okkur hugnast, fólk sem er á svipaðri línu og við sjálf. Ef einhver er dónalegur og/eða með leiðindi er viðkomandi hent út. Það að ræða eitthvað á facebook er ekki það sama og ræða það í fjölmiðlum.
Samt ákváðu sumir fjölmiðlar að virða ekki ósk hennar um að ræða þetta ekki í fjölmiðlum og sögðu að viðkomandi væri „áhrifavaldur í íslenskum stjórnmálum“. Þessi kona hefur aldrei tekið opinberan þátt í íslenskri pólitík. Eina ástæðan fyrir „fréttinni“ er að lesendur fjölmiðilsins hatast við konuna og leggja sig í líma við að úthúða henni á allan hátt. Allar fréttir af þessari konu eru smellbeitur og þar með möguleiki á meiri auglýsingatekjum. Látum það vera að einni konu sé hent fyrir hatursfulla karlrembuúlfa til niðurrifs.
Af því þetta er svo einfalt og svo undarlegt að femínistar skuli ekki skilja þetta:
Óskir kvenna skipta ekki máli
Friðhelgi kvenna skiptir ekki máli
Konur skipta ekki máli.